Stórurð

Stórurð

Vatnsskarð - Njarðvík.
Leiðir nr. 9 og 10 á gönguleiðakortinu um Víknaslóðir

Stórurð er ein mesta náttúruperla Íslands en lengi vel var hún lítið sem ekkert þekkt meðal almennings. Undanfarin ár hefur hún notið sívaxandi vinsælda hjá göngufólki sem leggur á sig drjúga göngu til þess að skoða Stórurð og upplifa hrikaleika Dyrfjalla í návígi.

Stórurð er mynduð úr risavöxnum móbergs- og þursabergsbjörgum sem fallið hafa ofan á skálarjökul sem legið hefur við Dyrfjöll og má ennþá sjá leifar af honum undir hömrum fjallanna. Jökullinn hefur skriðið niður dalinn undan eigin þunga og björgin borist með honum langa leið. Núverandi ásýnd Stórurðar er mótuð að mestu af síðasta ísaldarskeiði sem lauk fyrir um 10.000 árum.

Stórurð er mikil um sig og þar er margt forvitnilegt að sjá. Hægt er að finna þar skjólgóða stóra hellisskúta og ganga um raufir milli risavaxinna kletta. Blágrænar tjarnir er víða að finna og inn á milli rennisléttar grundir. Saman mynda þessi náttúrufyrirbrigði ævintýralega veröld sem lætur engan ósnortinn. Það eru 5 merktar gönguleiðir sem liggja að Stórurð. Frá Héraði, Vatnsskarði, Njarðvík og tvær frá Borgarfirði. Ganga utan merktra leiða í Stórurð getur verið vafasöm í þoku því villugjarnt er á þessum slóðum. Á vetrum er Stórurð mikil snjóakista og því skyldu ferðamenn spyrjast fyrir um snjóalög ef þeir eru á ferðinni snemma sumars. Ekki er ráðlegt að ganga í stórurð án leiðsagnar staðkunnugra fyrr það er orðið snjólétt.

Ganga í Stórurð er nokkuð löng, og má í það minnsta gera ráð fyrir 5 klst í ferðina. Við mælum með leiðinni sem er hér að neðan þar sem gengið frá Vatnsskarði og niður til Njarðvíkur.