Hjálmárströnd

Eftir handriti Stefáns Baldvinssonar frá 1957
Viðbætur innan sviga eru eftir samtöl við Sigurð Stefánsson frá 1971

Land jarðarinnar liggur að austan að landi Brimness í Seyðisfirði. Grímkellsgil, djúpt gil í klettunum austan Tóar, ræður landamerkjum á milli jarðanna. Að vestan ræður Hjálmá, sem kemur af Hjálmárdalsheiði, landamerkjum á milli Hjálmárstrandar og Sævarenda. Sjór liggur meðfram öllu landi jarðarinnar að norðan.

Örnefni meðfram sjónum eru: Neðsta rákin í klettunum austan við heitir Jökull. Eftir henni er gata, gerð á síðastliðnu sumri, (um 1955 ?)sem smalamenn úr Seyðisfirði fara þegar þeir smala sauðfé á Hjálmárströnd. Á milli sjávar og Jökuls er standberg með smástöllum er fýll verpir á. Áður en nefnd gata var gerð var illt umferðar um Jökulinn.

Tó er grasivaxinn, breiður en stuttur tangi undir bröttum skriðum og klettum vestan við Jökulinn. Þar er gott beitiland og snjó tekur þar snemma á vorin. Austan undir Tónni er sérstæður stapi í sjónum skammt frá klettunum. Hann er jafnhár klettunum í Tónni, grasivaxinn að ofan. Nafn hans er Kaupmannsstapi.

Vestan í Tónni er hringmyndaður stuttur vogur, fremur grunnur, er Ker heitir. Þar er hægt að lenda á smábátum er sjór er ládauður. Vestan við Tóna, á alllöngu svæði, eru stórgrýttar fjörur og básar meðfram sjónum. Á þeim eru ekki sérstök nöfn. Vestan við þetta svæði er stuttur klettatangi er heitir Sauðabólstangi. (Presturinn á Klyppsstað hafði beit í fjallinu og á Sauðabólstanga voru sauðirnir bældir á kvöldin og þar lögðust þeir.  Sauðabólstangi er ekki árerandi en ofan á honum er herðvelli.) Niður með honum að austanverðu rennur dálítil á er Sauðabólsá heitir. Frá Sauðabólstanga og vestur að Hjálmá eru lágir klettar meðfram sjónum.

Nokkuð fyrir vestan Sauðabólstanga er stallur undir klettunum við sjóinn. Ofan á hann hefur fallið stórgrýti úr klettunum. Urðin sem myndast af stórgrýti þessu heitir Teistaurð. Mun hún draga nafn af því að teistur verpa dálítið í henni.

Nokkuð fyrir vestan Teistaurðina er sérstæður stapi í sjónum undir þverhníptum klettum er heitir Skarfastapi. Hann er stundum hvítur að ofan vegna drits úr fuglum. Fyrir vestan Skarfastapann er stuttur klettatangi er heitir Stórfissártangi. Upp í hann að austanverðu liggja tveir djúpir vogar, nokkuð langir. Í gegnum klettabrík, sem er á milli voganna, er gat innan til í þeim. Í ládauðum sjó er hægt að fara á bát í gegnum þetta gat. Vestan við Stórfissártangann rennur dálítil á til sjávar er Stórfissá heitir. (Stórfissá er alltaf kölluð Stórfissa).  Á þessi rennur í gljúfrum til sjávar.  Þegar suðaustanveður er slær vatninu upp í ánni og upp í klettana.  Af því gæti nafnið stafað.  Á steinni tímum voru sumir farnir að nefna ánna Tóará.)  Rennur hún austan til ofan í stóran bás er Máríubás heitir. (Valþjófsstaða kirkja átti ítök í Maríubás.  Þar festi aldrei spýtu). Vestan við bás þennan liggja afhallandi klettar í sjó fram inn að öðrum bás nokkru vestar, neðan við túnið sem var á Hjálmárströnd er heitir Bæjarbás. (Yst í Bæjarbás var lending.  Hana nefndi Metúsalem Hallgrímsson alltaf Skoru karls.  Þetta var einskonar orðtak, t.d.: „Ég lenti alltaf í Skoru karls“.)  Austanvert í þessum bás var bátauppsátur þegar búið var á Hjálmárströnd. Skammt fyrir austan bátauppsátrið er stuttur vogur upp í klettum er heitir Strandarvogur. Þar var áður tekið af og á báta þegar Hjálmárströnd var í byggð.

Á milli Bæjarbáss og Hjálmár er aðeins eitt örnefni en það er á flúð skammt austan við Hjálmána og heitir hún Gæzka. Á flóðum flæðir yfir hana en á fjöru er góð þarabeit á henni, einkum síðari hluta vetrar.

Þegar kemur nokkuð frá sjó upp í Strandarfjallið eru hjallar og sums staðar hver upp af öðrum upp að urðum fjallanna fyrir ofan. Austasti og neðsti hjallinn heitir Mýrarhjalli. Austurendi hans er nokkuð hátt fyrir ofan tóna og nær hann frá Grímkelsgili og alllangt vestur eftir fjallinu. Hann er allur grasivaxinn og var stundum heyjað dálítið á honum meðan byggð var á Hjálmárströnd.

Frá vestari enda hjallans eru samfelldar brekkur vestur að Hjálmá. Þær eru sums staðar allbrattar og háar. Upp af gamla bæjarstæðinu á Hjálmárströnd er nokkuð stór hjalli er Bæjarhjalli heitir. Þar var áður heyjað en mikið af graslendinu þar er nú lyngvaxið. Suðaustur af Bæjarhjallanum, en ofan við Mýrarhjallann, eru nokkrir smærri hjallar. Neðstur af þeim ofan við Mýrarhjallann er hjalli er heitir Efri-Mýrarhjalli. Á honum var einnig heyjað áður.

Fjöllin ofan við Hjálmárströndina heita Ytra- og Innra-Rjúpnafell. Upp á milli þeirra er hálfhringlöguð kvos. Í þessum hálfhring er grasivaxið mýrlendi. Neðan við þetta mýrlendi er melhryggur frá vestri til austurs er heitir Grenishryggur. Tófur eru stundum í hrygg þessum.

Suðvestur af Bæjarhjallanum á milli Hjálmár og Innra-Rjúpnafells liggur sá hluti Hjálmárdals er tilheyrir Hjálmárströnd. Hann endar við Mjósund eða Mjósundaklett sem er á miðri Hjálmárdalsheiði sunnan Hjálmár.

Austur frá Ytra-Rjúpnafelli er þunnt klettafjall á nokkru svæði. Á einum stað upp undir brún klettanna er gat í gegnum fjallið.

Viðbætur frá Örnefnastofnun:

Athugasemdir.  Ásta Stefánsdóttir skráði.

Grímkelsgil er mjög gamalt nafn. Ekki væri ótrúlegt, að þar hafi farizt maður, er Grímkell hafi heitið.
Jökull er svört rák í klettunum. Þar festir lítið snjó nema í einu gili, sem kallað er Skotið. Þar er oft skafl í fram eftir vori.
Leyningar. Milli Tóar og Sauðabólstanga er talsvert breitt og nokkuð langt stykki, sem eru klettasytrur. Þetta svæði er alltaf kallað Leyningar, sennilega af því, að þar munu kindur hafa leynzt í smalamennskum.
Gæzka gæti verið eins konar gælunafn, kannski verið þarabeit á henni.
Mjósund er þar, sem Hjálmárdalur þrengist og lýkur. Það er víða milli fjalla, þar sem þrengst er, þar er nefnt Mjósund.  (Mig minnir vera Mjósund á Hraundal austan undan Varpinu.)
Mjósundaklettur er austanverðu í Mjósundunum. Gatan til Seyðisfjarðar liggur vestan í honum. Þar hjá er dálítill foss í Hjálmánni. Fjallshnaus. Endinn á fjallinu, austan við Rjúpnafell, heitir Fjallshnaus, en er sennilega a.m.k. að hluta til í Seyðisfjarðarlandi, því hreppamörk eru við Grímkelsgil.