Saga af álfunum í Dimmadal

Í þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar er saga um tvær stúlkur, Ingibjörgu og Sigríði er bjuggu á Hvoli. Sigfús skráir söguna þannig:

Í fyrndinni bjuggu hjón ein á Hvoli í Borgarfirði eystra. Ekki er getið um nöfn þeirra en dóttur áttu þau unga, fríða og vinsæla sem Ingibjörg hét. Þótt hún væri hvers manns hugljúfi þá átti hún hart uppfóstur því foreldrar hennar voru svo nísk að þau tímdu af engu að sjá en ráku hana miskunnarlaust áfram við vinnu. Þegar Ingibjörg var fermd tóku foreldrar hennar til fósturs sveitarómaga. Það var dóttir fátækra hjóna í sveitinni og hét Sigríður. Hún var innan fermingar, fríð sýnum, góðleg og hafði svo mikið hár að hún gat hulið sig alla í því. Það var gult að lit og fór vel. Sigríður litla kunni reiprennandi allan kristindóm sinn þegar hún kom að Hvoli og áttu þau fósturforeldrar hennar að láta hana halda honum við sig. Þegar hún var komin að Hvoli létu hjónin hana smala ám sínum um sumarið kvelds og morguns en sveltu hana að mat og létu hana vera hálfnakta. Hefði hún vart þolað slíka harðýðgi ef Ingibjörg hefði eigi undir eins haldið í hönd með henni, gefið henni föt af sér og skotið að henni bita og spón í laumi. Ekki er annars getið en henni tækist þó vel smalamennskan. Á vetrin mátti Sigga hrekjast úti í hverju illviðri en fékk engan tíma til að halda við sig lærdómnum né hirða um sig að öðru leiti. Leið nú svo fram og var hún þarna þar til hún var fermd en þá hafði hún týnt miklu af lærdómi sínum og hafði fengið grænar geitur ofan á hársrætur. Kenndu margir í brjósti um hana.
   

Sumarið eftir varð hún kyrr því þær Ingibjörg voru svo miklar vinkonur að þær gátu ekki skilið. Ingibjörg gekk á engjar en Sigríður smalaði ám og kúm. Þegar komið var fram undir haust og menn voru almennt hættir heyverkum gerði kuldaveður og lagði snjóa í fjöll ofan í miðjar hlíðar. Þá bar svo til einn dag að Sigríður kom seint heim með ærnar, var hún hrakin mjög og gekk á berum iljum en þá vantaði kýrnar og ráku hjónin hana með harðri hendi af stað að leita þeirra án þess að hún kæmi afsökun við eða fengi næringu eða nokkuð á fæturna. Labbaði hún svo af stað og gekk þar upp fyrir Hvolinn. Þar var þá Ingibjörg að raka slægju. Hún yrðir þegar á hana og segir: "Það er sárt að sjá hvað þú ert hart leikin Sigga mín en nú get ég ekkert hjálpað þér nema léð þér hrífuvettlingana mína." Réttir hún svo Sigríði vettlingana og segir hún skuli smeygja þeim upp á fæturna. Sigríður kveður hana og þakkar henni fyrir, heldur hún síðan upp á fjallið í hvolf það sem kallast Jökuldalur. Var þá veðrið kafaldshríð.
   

Vestur úr Jökuldal, skvompu nokkurri, gengur þröng og djúp dalskora upp að Dyrfjöllum, klettum vörð á þrjár hliðar. Svo er dalurinn djúpur að þar sér sjaldan sól og heitir hann því Dimmidalur. Þangað heldur Sigríður að nautin hefðu runnið og gengur inn í dalinn en eigi hafðu hún gengið langt áður en svo dimmdi af veðri og nóttu að hún þorði hvergi að fara lengra enda var hún orðin örmagna af þreytu og hungri. Kemur hún þá að stórum steini; leggst hún þá niður og hyggur að bíða þar síns síðasta. Sígur nú að henni hálfgildings ómegin en jafnsnart hrekkur hún upp við það að gengið er hjá steininum. Lítur hún nú upp og sér að þar stendur yfir henni unglegur maður hraustlegur og fríður sínum. Maður þessi talar til hennar og segir: "Illa ertu stödd Sigga lita. Hvort viltu nú heldur deyja hérna undir steininum eða hætta á að koma með mér?" Sigríður varð svo hrædd að hún gat engu orði upp komið. Maðurinn tekur hana þá þegjandi á handlegg sér og gengur með hana nokkurn spöl í svo miklu myrkri að hún sá ekkert. Loksins heyrði hún að hann lauk upp dyrum og gekk eftir trjágólfi og síðan koma þau í herbergi fagurt. Þar situr ung stúlka við saum, góðmannleg og fríð sýnum. Maðurinn lætur Sigríði þar í gott rúm og segir við saumakonuna er hann nefndi Sigríði Huldufríði. „Ég kem nú hérna með aumingjann hana Siggu á Hvoli; hún hefði víst dáið úti í nótt hefði ég ekki borgið henni en ég gat ekki vitað að svo lagleg og góð stúlka dæi úti hérna fast hjá okkur. Taktu nú við henni og verkaðu höfuð hennar og gerðu að öllu leyti sem best við hana því hún á að verða konan mín." Stúlkan heitir því og gengur maðurinn burt. Þá kemur stúlkan með heitan og góðan mat og færir Sigríði og bjástrar að henni þar til hún hressist. Þá spyr Sigríður frá Hvoli til hvaða fólks hún sé komin. Stúlkan segir hana varði nú reyndar ekki um það því hún sé hjá góðu fólki en ef hana langi mjög mikið til þess að vita hvaða fólk það sé þá sé það huldufólkið í Dimmadal. Maðurinn sem hafi fært sér hana sé bróðir sinn og séu þau börn prestsins hérna og séu foreldrar þeirra bæði á lífi. Þegar Sigríður var orðin hress tók álfastúlkan til og rakaði henni koll. Síðan kom hún með smyrsl og smurði höfuðið. Þarf nú ekki að orðlengja það að hún er þarna fram undir jól. Var hún þá búin að fá aftur sitt fagra hár og sýndist þá hverri stúlku fríðari. Undi hún mjög vel hag sínum því álfastúlkan kenndi henni hannyrðir og var henni hverjum deginum öðrum betri. Huldumaðurinn bróðir stúlkunnar heimsótti þær við og við. Sagði systir hans Sigríði að hann héti Jón. Gast henni alltaf betur og betur að honum.
   

Þegar kominn var aðfangadagur jóla segir Sigríður álfastúlka: "Nú verður messað hér um jólin, er kirkjan suður í Kækjudal. Skaltú fara með mér í kirkju og heyra hvernig prestur faðir minn er. Þú munt sitja í kvensætinu hjá mér en þess bið ég þig að kippa þér ekki upp við það þó hún móðir mín fussi við þér og gefi þér óhýrt auga því hún veit að Jón elskar þig en henni þykir það lágt fyrir son sinn að eiga rétta og slétta mennska stúlku umkomulausa en ef þú gerir sem ég segi þá vona ég að henni lítist vel á þig sem öðrum, enda ertú eiguleg stúlka. Mun hún þá segja þú skulir koma heim með sér og sýna sér hver hannyrðakona þú ert. Er þá um að gera að þér takist vel." Sigríður heitir að fara að hennar ráðum.
   

Daginn eftir búa þær nöfnur sig allvel og fara til kirkjunnar. Var þar fjöldi fólks. Þar var sýslumaðurinn, hann bjó í Sólarfjalli (í Breiðuvík) og biskupinn úr Blábjörgum (sunnan Herjólfsvíkur) og sátu þeir sinn hvorum megin við altarið og Jón hjá þeim þegar þær nöfnurnar gengu inn og settust í kvensætið. Sigríði leist mjög vel á prestinn og þótti gott að heyra til hans. Hún sá að gömul kona sat í kvensætinu fyrir og þóttist vita að hún var prestskonan. Hún leit um öxl úthallt óhýru auga til Sigríðar frá Hvoli og segir: "Fu, fu, það er vond lykt af þér, ókindin þín." Sigríður lætur sem hún viti það ekki en smám saman lítur gamla konan til hennar um messuna og fussar í áttina.
   

Eftir messu ryðst fólkið úr kirkjunni en gamla konan tekur í hönd Sigríðar og segir ofur vingjarnlega: "Komdu með mér góða mín, það er engin vond lykt af þér en ég ætla nú að reyna hvort þú ert svo mikil hannyrðakona sem hún Sigga mín segir. Skaltu sauma mér klæðnað til nýársins en ef mér líkar hann ekki færðu ekki að eiga hann son minn."
   

Sigríður þegir og gengur með prestskonu þar til þær koma í mjög skrautlegt herbergi. Setur hún Sigríði þar við sauma og að litlum tíma liðnum er hún búin með föt kerlingar. Hún skoðar þau og segist þar ekkert hafa út á að setja og skulu hún nú sauma sjálfri sér fatnað og Jóni og ef hann verði eins vel ger skuli hann verða brúðkaupsklæði þeirra.
   

Sigríður byrjar nú að sauma og lauk við fötin á gamlárskveld. Þóttu kerlingu þau enn betur ger og sagði hún ætti skilið að fá hann son sinn og mætti hún nú fara heim til sín. Hélt hún svo heim til nöfnu sinnar; var Jón þar fyrir og fögnuðu þau henni vel og spurðu hversu gengi. Hún lét vel yfir því. "Hefirðu nú ekki gaman af að hitta fósturforeldra þína," segir Jón. "Nei," segir hún "en gaman hefði ég af að finna Ingibjörgu". "Jæja, þá skulum við fara," segir Jón. Tók hann þeim þá tvo hesta og lagði á þá reiðfæri og riðu þau svo ofan undir Hvolinn. "Nú fer ég ekki lengra," sagði Jón "en þú skalt hitta mig hér að þrem nóttum liðnum og hafðu þá með þér vinkonu þína því ekki er því að leyna að sýslumannssyninum hérna hinum megin dalsins líst svo vel á hana að hann brennur af ást til hennar en vænni mann fær hún aldrei því hann er besti maður". Sigríður heitir þessu og skilja þau síðan. Fer hún nú heim og bregður hjónunum heldur en ekki í brún að sjá hana lifandi eftir meira en misseri. Spyrja þau hvar hún hafi verið allan tímann. "Hjá góðu fólki sem þið sjáið," sagði hún. Með þeim Ingibjörgu varð mesti fagnaðarfundur og sagði Sigríður henni allt um sinn hag og bónorðið. Ingibjörg sagðist því fúslega taka fyrst hún fengi að vera nærri henni en áður yrði hún að fá leyfi foreldra sinna. Sagði Ingibjörg þeim nú þetta ráðslag en af því þau sáu hversu Sigríði hafði reitt af og sýslumannsson var í boði þá játuðu þau því og fóru þær stöllur af stað. Þegar þær komu upp fyrir Hvolinn var Jón þar með þrjá hesta og fagnaði þeim. Riðu þau svo öll heim í Dimmadal. Var sýslumannsson þar fyrir og hétu þau hvort öðru eiginorði. Síðan var ákveðinn brúðkaupsdagur og öllum heldri álfum boðið. Ingibjörg bauð foreldrum sínum. Þegar þau komi til hjónavígslunnar settust þau í kórbekk. Þá leit prestskonan til þeirra og sagði: "Fu, fu, og eru þið, óhræsin, hérna?" Eftir messu urðu Hvolshjónin sein úr kirkjunni. Gengur þá prestskona til þeirra fussandi og sveiandi og segir: "Þið ætlið að njóta góðs af veislunni en það skal ekki verða. Farið heim að Hvoli og étiði bæði ætt og óætt þar til þið drepist og hafið það fyrir fóstrið á henni tengdadóttur minni." Síðan hvarf kerling en hjónin sneyptust heim og urðu síðan óseðjandi gráðug og átu allt hvað tönn á festi uns þau urðu öreigar. Lifðu þau síðan mest á því er Ingibjörg skaut til þeirra. Reit hún þeim bréf og sagði þeim að vitja fangsins á vissan afvikin stað en ekki mátti hún finna þau. Fengu þau þannig mörg bréf frá dóttur sinni og í því seinasta sagðist hún orðin fjögurra barna móðir en Sigríður sagði hún ætti sex og yndu þær báðar mjög vel hag sínum.
Skráð á árunum 1890-1900 eftir sögn Ingibjargar Níelsdóttur á Setbergi og Guðrúnar Bjarnadóttur í Meðalnesi.