Jökulsá.
(Eftir handriti Eyjólfs Hannessonar)
Út og niður frá Jökulsártúninu er stór flöt harðvellisbreiða sem nær niður að
Fjarðará. Það er Jökulsárnesið. Utan við túnið er há brekka upp á
Jökulsármel. Út af neðanverðu túninu þverbeygir melurinn úteftir og ber hátt yfir utanvert nesið. Frá
útenda hans gengur mýrarhall ofan að Fjarðará, utan við nesið. Það heitir Torfhvammsenni en
Torfhvammur í bugnum þar sem saman koma hallið og melurinn. Liggur bæði nesið og túnið allmiklu lægra en aðliggjandi
land. Túnið þó lítið eitt hærra en nesið, hækkar um lítið þrep eða barð sem liggur á mótum túns
og ness og er nefnt Túnbörð. Utan við túnið fellur Grjótá framan undir Jökulsármelnum
sem áður er nefndur. Framan við túnið fellur Jökulsá og sameinast hún Grjótá skammt fyrir neðan
Túnbörðin. Áður féll Grjótá út og niður endilangt nesið og rann í fjarðarána
niður undan Torfhvammsenninu, skammt utan við nesoddan. Standa þar við Fjarðarána tvær grasigrónar tættur og er
nokkuð bil á milli.
Forn landamerki milli Bakka og Jökulsár voru frá Grænutóft við Grjótárós
þar sem hún fellur í Fjarðará. Þaðan voru landamerkin um Lýritiþúfu á
Jökulsármóum í ysta Grótárbug en Grjótá fellur í mörgum krókum fram og
niður að túninu. Eru þar utan við hana melar sem einu nafni eru nefndir Jökulsármelar og er Jökulsármelurinn
sem áður er nefndur og liggur utan við túnið og Grjótána einskonar framhald af efri melnum en krókarnir sem nefndir voru heita
Bugar og sá ysti og efsti Ysti-Bugur. Fyrir nokkrum árum kom upp landamerkjaþræta milli eigenda Jökulsár
og Bakkagerðis. Var ágreiningur um hvar Grjótá hefði fallið í Fjarðarána.
Jökulsármóar, sem Lýritiþúfa var á, eru stórt móaflæmi því nær flatt ofan
frá Grjótárbungum og niður með öllum Jökulsármelum allt niður að Bugum þar sem
Torfhvammsnesið mætir neðsta melnum. Á þeim var hvergi sjáanleg Lýritiþúfan. Líka var
Ysti-Bugur horfinn fyrir framburð úr Grjótá. Varð gerð áreið á landamörkin og þau
ákveðin frá landamerkjavörðu sem hlaðin var miðja vega milli áðurnefndra tófta við Fjarðará, beina
sjónhending í bug á Grjótánni þar sem hún fellur á eyrum nokkuð utar og ofar en áður umgetinn
Ysti-Bugur mun verið hafa.
Innan við Jökulsána, inn og upp frá túninu, gengur álma úr Hvolshraunum í háum hrygg
út að Jökulsánni. Yst á honum er Lobbuhraun, sem heitir eftir Lobbu, álfkonu sem um getur í
þjóðsögum. Brött brekka er neðan í hryggnum. Hún heitir Hraunabrekka en ofan við hrygginn er
Ærhólsdalur sem liggur inn og upp hjá Ærhól í Hvolslandi en utan við ofanverðan
Ærhólsdal er allstór mýrarfláki. Hann heitir Einbúamýri. Upp frá
Jökulsártúni, utan Jökulsár, er melholt með mýrardrögum og lynglautum á milli. Rís þar
stakur klettur sem heitir Einbúi. Upp, utan við Einbúa, eru berir melhryggir sem nefndir eru Hryggurinn. Upp með
þeim að utan liggur mýrarræma. Þar tekur við Efri-Einarsgonta og Neðri-Einarsgonta. Utan við
mýrarræmuna tekur við móaland út að Grjótá.
Út af nær miðjum Hryggjum liggur djúp lægð, augljóslega forn farvegur Grjótár, sem liggur
í Grjótána aftur niðri á Bugum. Þessi laut hefir um langt árabil verið nefnd
Stekkalág. Sér þar enn fyrir stekkjartóftum. Önnur tóftarbrot eru í stórum hvammi utan við
Jökulsána, inn af Einbúanum. Hann heitir Stekkjarhvammur. Upp frá Einbúanum eru enn
nokkur melholt en ofan við þau tekur við stórt mýrarflæmi og ennaland. Þar er selið við bug á
Jökulsárgilinu. Fellur Sellækur niður í gilbuginn rétt við tætturnar og skiptir landinu í Innra-Sel og
Ytra-Sel, og heitir neðsti hlutinn út og inn frá læknum Selmýrar. Upp frá öðrum bug á
Jökulsárgilinu, inn og upp frá Selinu, er flatur mýrlendur botn sem heitir Grenisbotn. Í næsta gilbug
fyrir innan stendur hár stakur klettur. Hann heitir Krummaklettur. Upp frá honum, milli Jökulsár og
Grenisbotns er uppgróin gömul urð með holum og smugum hér og þar. Þar var áður greni og ber botninn utan við nafn af
því . Upp frá Grenisbotni taka við allbrött valllendishöll. Þau heita Engidalshöll. Upp frá
þeim er Engidalur. Nokkru utar er Seldalur meðfram Sellæk sem áður er nefndur. Skilur þrepótt
brekkuhall Efri-Seldal og Neðri-Seldal. Milli Neðri-Seldals og Brenisbotns eru að mestu holt og
mýrardrög en milli Engidalshjalla og Efri-Seldals aðallega berir melar. Út frá Efri-Seldal taka við
Stórusteinsmelar með giljum og graslautum á milli. Á þeim standa stórir stakir steinar eða öllu heldur klettar sem heita
Stórusteinar. Upp frá þeim er fjallið fyrst hallalítið, mýrardrög og melar, en hækkar svo snögglega við
Jökulsárups sem rís þar hátt yfir neðra fjallið. Út frá henni en lægra eru hjallar sem liggja út að
Grjótárgili þar sem Grjótá fellur á landamökum Bakka og Jökulsár. Þar eru
Grjótárfossar en hjallarnir heita Efri-Leynihjallar og Neðri-Leynihjallar.
Jökulsárups er hár og mikill fjallshryggur sem liggur fyrst á ská út og upp frá Jökuldalsvarpi,
innan við Engidal og rétt út af Hvolsmælir og fer hækkandi út og upp eftir en beygir síðan beint upp til
Ytra-Dyrfjalls. Rétt ofan við beygjuna verður lítill slakki og heitir Upsarkollur neðan við slakkann. Fram og niður
frá Upsakollinum er djúpur hlaupbotn eða slakki framan í Upsarhlíðinni en niður undan slakkanum er stakur melkollur.
Hann heitir Kollóttimelur. Niður með Upsarhlíðunum fellur Ysta-kvísl og sameinast innri kvíslum
dalsins í Jökulsárgili framan og ofan við Jökuldalsvarp. Skammt fyrir ofan Kollóttamel koma
þverhryggirnir – þvert á neðri brekku Upsarinnar. Þeir eru framhald af þverhryggjum í Hvolshluta dalsins en þó
sundurskornir af Miðkvíslinni sem er sjálf Jökulsáin en hinar báðar bergvötn. Ofan við þverhryggina
taka við flöt mýrardrög beggja vegna Jökulkvíslarinnar en þar út frá melholt og klettahnúkur. Nokkru ofar verður
allstór bugur á kvíslinni. Þar eru Efri-Þverhryggir. Upp frá þeim hækkar dalurinn og er svo til einvörðungu
urðir og klungur. Þó eru þar á stöku stað gróðurgeirar og drög allt upp undir Jökul en utan við
Jökulinn og upp að Jökulsárups rís Ytra-Dyrfjall en nokkru fjær og upp frá dalbotninum rís
Miðfell-Dyrfjallanna. Innan við það eru Dyrnar en skammt fyrir utan nær er hæsti hnúkur Dyrfjallanna 1136
metrar á hæð.