Eftir handriti Stefáns Baldvinssonar frá 1957
Viðbætur innan sviga eftir samtölum við Sigurð Stefánsson frá 1971
Sævarendaland liggur að Hjálmá að austan og að Hofsá að vestan. Sjór er meðfram landinu
frá Hjálmá að Sævarendakrók þar sem sjórinn endar.
Meðfram sjónum á þessu svæði eru þessi örnefni: Nokkuð fyrir vestan Hjálmá er mjór og djúpur vogur upp
í klettana við sjóinn. Hann heitir Reyðarvogur. Þar er stundum tekið af bátum þegar austanátt er og ókyrr sjór og
vont að lenda að norðanverðu í firðinum. Einkum átti þetta sér stað á meðan flutningar til fjarðarins fóru fram á
árabátum. Nálægt miðju svæðinu á Hjálmár- og Sævarendakróks er klettatangi er
Lundún heitir. Hann er nokkuð hár upp við brekkuna fyrir ofan og grasivaxinn þar. Hægt er að taka af og í báta við tangann og
setja árabáta í fjörunni vestan undir honum.
Í fjörunni austast í Sævarendakrók er dálítil klöpp er Pétursklöpp heitir. (Um 1930 urðu
óskaplega mikil skriðuföll ofan við Pétursklöpp en uppi á brekkubrúninni voru áður eins og þústir.
Þar hefur ef til vill verið kofi og einhver Pétur búið í honum. Brekka þessi er 15-20 m löng.)
Á nokkru svæði næst Hjálmá austast í Sævarendalandi eru klettalausar grasigrónar brekkur frá
sjávarklettum og upp í mynni Hjálmárdals. Svæði þetta heitir Neðri- og
Efri-Strandarbrekka. Vestan við Neðri-Strandarbrekkuna er djúpt klettagil er Biskupsgil heitir.
Nær það frá sjó nokkuð austan við Lundún og upp að enda á hjalla í fjallinu er Neðsti-Hjalli
heitir. (Biskupsgil er þröng klettagjá neðan frá sjó og upp undir neðsta klettabelti. Gatan í þessu gili var mjög tæp en
svo var hlaðið í gilið til að breikka hana).
Hjalli þessi nær vestur eftir hlíð fjallsins Gunnhildar og endar að vestan við á er Húsá heitir sem rennur
í Fjarðará nokkuð vestan við Sævarenda. (Gunnhildur er mikið og fallegt fjall. Var ekki Loðmundur
landnámsmaður frá Vors? Þar mun vera fjall sem heitir Gunnhild. Hann hefur e.t.v. skýrt fjallið eftir því fjalli). Vestan til
á hjalla þessum er dálítið engjasvæði og er sá hluti hjallans stundum nefndur Bæjarhjalli.
Vestan við Biskupsgilið en neðan við Neðsta-Hjallann er landssvæði sem heitir Sævarendagil;
það nær dálítið vestur fyrir Sævarendakrók. (Sævarendagil eru mörg gil, grynnri og dýpri. Kallað er
að fara út á Gilin, (fara út á Sævarendagilin). Nokkuð austan við Sævarendakrókinn eru tvö gil sem ná
frá sjávarfjöru og upp í Neðsta-Hjallann. Austara gilið heitir Krummagil. Nafnið ber gilið af því að
hrafnar hafa stundum hreiður efst í gilinu, neðst á Hjallanum.
Frá Sævarendagiljum og vestur að Húsá eru víðast brattari brekkur en á giljunum og ná þær
niður að sléttlendi ofan við Sævarendabæinn. Ofan við bæinn er nokkurt svæði í brekkunum nefnt
Bæjarbrekka. Ofan við Bæjarhjallann er á dálitlu svæði í fjallinu lítill hjalli er
Miðhjalli heitir.
Ofan við Neðri-Strandarbrekku eru brekkur sem ná upp að mynni Hjálmárdals; heita þær einu nafni
Efri-Strandarbrekka. Svæði þetta nær vestur að gili sem er í svokölluðum Gunnhildarurðum skammt vestan við
austurhorn fjallsins Gunnhildur. Svæðið frá gili þessu og vestur að Efsta-Hjalla, sem er ofan við áðurnefndan
Mið-Hjalla, eru brattar urðir sem ná frá neðstu klettunum í fjallinu Gunnhildur og niður á
Neðsta-Hjalla. Efsti-Hjallinn nær frá Gunnhildarurðum og vestur að Húsá. Upp af
vesturendanum á Efsta-Hjallanum er hvilft í fjallið er Húsárdalur heitir.
Vestan við Húsárdalinn er fjall sem heitir Svartafell. Það gengur norðvestur úr fjallinu Gunnhildur.
Það er flatt að ofan og allmikið lægra en Gunnhildur. (Svartafell er með alveg svörtu bergi og í því er
lítið af rákum). Norðan undir Svartafellinu er hjalli sem byrjar skammt vestan við Húsá og nær vestur að
Hofsá. Hann heitir Mýrarhjalli og er allmikið engi á honum. Vestast og efst á hjalla þessum, nærri
Hofsánni, eru dálitlar hæðir er heita Sigguhæðir. (Sigguhæðir smáhækka upp að
Mýrarhjalla í rótum Svartafells. Beint niður af Sigguhæðum við ána eru svo
Stelpubalar). Upp af Sigguhæðum, vestan undir Svartafellinu, er dálítil dæld í fjallið meðfram
Hofsánni er heitir Hofsárdalur. Brekkurnar neðan Mýrarhjalla frá Húsá og vestur
að Hofsá hafa ekki sérstakt nafn.
Meiri hluti Sævarendalands eru brattar fjallshlíðar en þó er nokkurt sléttlendi frá Sævarendakrók að
Hofsá. Næst Sævarendakróknum er allstórt og flatt harðvellisland er heitir Sævarendaskriða.
(Sævarendaskriða er ekki urð heldur slétt harðvellisgrund). Austast, norðaustur af skriðunni, er dálítið uppgróið
sandsvæði er Kríusandur heitir. Frá Sævarendaskriðu og vestur með fjallinu að Húsá eru
mýrar og hólar meðfram fjallinu sem ekki hafa sérstök nöfn.
Túnið á Sævarenda liggur á milli mýra þessara og Fjarðarár. Niður undan túninu austan til er tangi
við Fjarðarána er Naustatangi heitir. (Í Naustatanga var uppsátur og róið til fiskjar). Í
Fjarðaránni skammt innan við Kríusandinn er nokkuð stór hólmi, grasigróinn, er
Sævarendahólmi heitir. Þar er dálítið æðarvarp. Vestar í ánni, á móti
Sævarendatúninu, er alllangur grasigróinn hólmi er Kríuhólmi heitir. Hann tilheyrir Sævarenda.
Vestan Húsár er allstórt mýrarsvæði á milli fjalls og Fjarðarár er
Sævarendablá heitir. Svæði þetta er venjulega votlent nema nokkurt svæði vestan við Húsána sem nefnt er
Húsárbalar. Þegar vestur fyrir blána kemur mjókkar graslendið mjög á milli fjallsins og Fjarðarár.
Svæði þetta vestur að stað, er Einstigi heitir, en þar rennur Fjarðará alveg að rótum fjallsins. Graslendi
þetta frá Sævarendablá að Einstigi heitir Stelpubalar. Vestan við Einstigi að
Hofsá er graslendi meðfram Fjarðaránni er Hofsárbalar heita.
Hjálmárdalur, eða sá hluti hans sem tilheyrir Sævarenda, liggur frá Efri-Strandarbrekku til suðvesturs
á milli Hjálmár og fjallsins Gunnhildur. Hann endar við Mjósund á
Hjálmárdalsheiði. Suðaustan í Gunnhildinni eru hjallar upp frá dalnum. Stærsti hjallinn heitir
Atnhefðuhjalli. (Athnefðuhjalli eða Atnhefjuhjalli, virðist þannig borið fram, eru smáhækkandi
hjalladrog. Þegar kemur upp á hann sér norðaustur í Loðmundarfjörð. Er hugsanlegt að nafnið sé komið af
því að birtir í Loðmundarfjörð? Eða er nafnið í sambandi við litarhátt á fé? Sigurð
rámar í að til sé atnhöfótt fé (e.t.v. úr þættinum Ísl. mál). Dalurinn og hjallarnir eru vel grónir.
Fjallið Gunnhildur er stórt fjall, lengd þess mikil frá austri til vesturs. Á því miðju er hár tindur, líkur turni
á stórri byggingu að lögun. Vestan undir honum er hjalli, eða á milli hans og Svartafells, sem stundum er nefndur
Efri-Húsárdalur; er hann upp af áðurnefndum Húsárdal.
Viðbætur
Rétt vestan við Hjálmá eru gamlar rústir af fjárborg. Spurning er hvernig á þessum rústum standi, hvort þær eru
frá Sævarenda eða Hjálmárströnd. Rústirnar eru í Sævarendalandi en stutt frá
Hjálmárströnd.
Rétt ofan við efri fossinn í Hjálmá er vel hlaðinn brúarkampur að austanverðu.
( Heimildarmaður og skrásetjari að viðbótum eru ókunnir.)
Viðbætur frá Örnefnastofnun:
Athugasemdir. Ásta Stefánsdóttir skráði.
Hofsá hef ég grun um að heiti svo, af því að hof hafi til forna staðið á móti henni í
Kleppstaðanesi.
Reyðarvogur er ákaflega sérkennilegur — vogur skerst mjög djúpur inn á milli kletta. Þar er hægt að lenda og verja
bát, þó hvergi sé lendandi annars staðar í firðinum. Hvort nafnið er af einhverju dregið í sambandi við það, veit ég
ekki.
Biskupsgil minnir mig ég hafi heyrt, að einhver biskup hafi hrapað í, þó ekki til dauðs.
Gunnhildur heitir svo, aldrei sagt Gunnhild, en oft Gunnhildinni.
Húsá kemur úr Húsárdal, og eru einhverjar sagnir til um það, að þar hafi verið hús til forna.
Sigguhæðir. Þar mun einhver Sigga hafa vilzt.
Einstigi. Á dálitlum parti utan við Hofsárbala rennur áin svo að segja alveg að fjallinu, og er ekkert gras þar, bara
sandur. Þar er alls ekki þröngur stígur.
Dagmálafjall. Ekki veit ég, hvaðan í ósköpunum þetta nafn er komið; dagmál, hélt ég, að væru snemma
morguns, en sól ber ekki yfir þetta fjall að morgni til frá neinum bæ í sveitinni, en hins vegar gæti hún verið í hádegisstað,
séð frá Úlfsstöðum, en hins vegar er Dagmálafjall á öllum kortum.
Á Hjálmárdal er, að ég held, ekki mikið um örnefni, að vísu er hjalli, sem ég veit ekki alveg nafn á; er hann
ýmist kallaður Atnhefðu-, Atnehefju-, en mér finnst trúlegast, að hann muni heita Atnhöfðuhjalli.
Það var einu sinni í þættinum Íslenzkt mál (fyrir 20-25 árum), að þetta nafn kom fram um litarhátt á fé frá
Hornafirði. Svo er líka talað um arnhöfðótt fé.