Gamli skólinn

Grein þessi er skrifuð í apríl og maí 1979 og var í GUSU, fréttablaði UMFB í júní 1979.   Þar sem ég hef oft heyrt fólk tala um „gamlaskólann“ með lotningu og eftirsjá þá langar mig að birta þessa grein hér og vona að fólk hafi gaman að.   Í greininni er líka örlítið fjallað um forvera Ungmennafélags Borgarfjarðar.
Helgi M. Arngrímsson.


Gamli skólinn - bakhliðin.  Til hægri sér í fjósið á Hjallhól. Ljósmynd: Sverrir Aðalsteinsson

Gamliskólinn.


Ég fór um daginn að glugga í gamlar hreppsbækur og tók þá eftir að mikið var ritað um skólahús hreppsins, og af því að ég veit að margir hafa átt góðar stundir í því húsi þá datt mér í hug að rekja hér lítillega forsögu „Gamlaskólans“ eins og hann var að jafnaði kallaður eftir að ég man fyrst eftir mér.

Forsaga hússins er óbeint sú að um aldarmótin byggir bindindisfélagið sem hér var starfandi á þeim tíma, sér hús sem stóð rétt neðan við Svínalækinn og hefur nú í seinni tíð verið kallað Bindindisfélagshúsið.

Í fundargjörð hreppsnefndar frá 20. sept. 1902 er bókuð ákvörðun hreppsnefndar að fá lán kr. 300 gegn 6% rentu, hjá Arnóri Árnasyni á Bakkagerði, „þessum áðurnefndu krónum ákvað nefndin að verja til Bindindis og Barnaskólahússins.“

Þess skal getið að allar beinar tilvitnanir í fundargjörðir eru ritaðar stafrétt samkvæmt bókunum og eru þær allar innan gæsalappa „xxx“.

Áður, (frá árinu 1896), sést ekkert í fundargjörðum um að til standi að byggja skólahús í hreppnum, að því undanteknu að í ársreikningum frá árinu 1899-1900, (milli fardaga), kemur fram í reikningslið sem ber yfirskriftina „Endurgoldið á reikningsárinu 1899-1900“ eftirfarandi:

„Skóla og Bindindishúsiðkr.37,88“

Í þessum bókunum er talað um „Bindindis og barnaskólahús“, þannig að einhverjar óbókaðar ákvarðanir hafa þá þegar verið gjörðar um samvinnu við bindindisfélagið um bygginguna.


Bindindishúsið

20. júní 1904 er svo eftirfarandi bókun í hreppsbókinni:

„7.Sjera Einar (Þórðarson, Bakka), bar það upp á fundinum að óhjákvæmilegt væri að koma Bindindishúsinu í það ástand að það væri hæfilegt til barnakennslu, og hreppsnefndinni væri falið að sjá um að það komist í það ástand sem fyrst, helst á þann hátt að taka lán upp á húsið.Þetta var samþikt með öllum atkvæðum.“

Þó er það greinilegt eftir hreppsbókum að það hefur verið komið í þokkalegt ástand því að í apríl 1904 var hreppsnefndarfundur í „Bindindishúsinu“ eins og það er orðað.

Nú, en 30. ágúst 1904 er svo ákveðið eftirfarandi samkvæmt svohljóðandi bókun:

„2.Ákveðið var að gjöra svo við Bindindishúsið að hægt yrði að hafa í því í vetur barnaskóla.Sjera Einari falið að útvega kennara og ákveðið að hann mætti bjóða honum alt að 3,50 ef verulega góður maður væri í boði.Eiríki verzlunarmanni var falið að útvega ýmislegt er vantaði til að gjöra húsið svo úr garði að hægt verði að kenna í því.

3.Áætlað var að þeir sem ljetu börn á skólann þyrftu að borga í mesta lagi 15. kr. með barninu yfir veturinn.“

4. desember 1904 var ákveðinn að taka lán í Íslandsbanka að upphæð kr. 300,-- til að borga með kostnað v. skólahússins, frá haustinu áður og skyldi húsið sett að veði við bankann.

1905, 18. febrúar, var haldinn hreppsnefndarfundur á Bakkaeyri og fyrir tekið bréf frá Jakobi Kaupmanni Jónssyni um beiðni að fá Bindindis og Barnaskólahúsið til að versla í því um sumarið, og „varð ákvörðun hreppsnefndarinnar að leigja Jakobi húsið með eptirtöldum skilyrðum.

1.að fyrskur yrði ekki hafður í því.

2.að ekki yrðu negldar upp í því hillur eða á annan hátt naglrekið.

3.að rýmt yrði til í því svo hægt yrði að halda nauðsynlegustu fundi í því svo sem manntalsþing, hreppsskilaþing og fl. ef með þ..“

Jakob kaupmaður Jónsson mun hafa greitt í leigu kr. 150,00 samkvæmt ársreikningum 1905-1906.Þar sést einnig að barnaskólakennara Jóni Guðmundssyni voru greiddar kr. 100,00 og farandkennara Jóni Jóhannessyni kr. 24,00

Á fundi hreppsnefndar 25. mars 1905 er gjörð eftirfarandi bókun:

„Hreppsnefndin ákvað að sækja til sýslunefndarinnar um leyfi til þess að hún megi taka lán upp á hreppinn alt að 800 kr. til að stækka skólahús hreppsins svo að það geti fullnægt þörfunum betur.“

„Ár 1905 þ. 8. októb. var fundur haldinn á Bakka í tilefni af því að skólahús hreppsins var brunnið.Á fundinum mætti öll hreppsnefndin ásamt presti og sóknarnefnd og hinum ráðna barnakennara Jóni Guðmundssyni.

1.rætt um hvert hægt myndi verða að hafa barnaskóla í vetur og eptir nokkrar umræður var ákveðið að reyna að halda barnaskólanum áfram á einhvern hátt og 3 menn kostnir til aðhafa umsjón á öllu sem að því liti, og hlutu kostningu Árni Steinsson, Jón Guðmundsson og Óli Ólafsson.

2.Ákveðið var að útvega umgangskennara og var áðurnefndum mönnum falið að útvega hann og semja við hann um kaupið.

3.Ákveðið var að ef hægt yrði að hafa barnaskóla í vetur, að borga Jóni Guðmundssyni fyrir barnakennsluna kr. 100.00 og að hann hefði svo styrk þann sem kynni að fást frá því opinbera.“

Hér er komið fram að Bindindishúsið er brunnið, aðeins fárra ára gamalt, en skömmu áður var farið að ræða um stækkun þess.Af því má marka að ekki hafi í upphafi verið ætlast til að þar yrði skóli.

Til gamans langar mig að birta hér reikning frá sýslumanni Norður-Múlasýslu yfir kostnað vegna brunamats á bindindishúsinu 1905.



En látum nú fundargjörðirnar tala áfram.

18. október að afloknu hausthreppamóti var haldinn almennur hreppsfundur til þess m.a. að:

„3.að ræða um byggingu á nýjum skóla og fundarhúsi fyrir hreppinn.Urðu um það nokkrar umræður en allir voru því fylgjandi að nauðsynlegt væri að koma upp húsinu það fyrsta, og því bent að hreppsnefndinni að annast um allt sem að því liti.“

8. nóvember sama ár var hreppsnefndarfundur haldinn í Bakkakoti og annað mál á dagskrá var:„rætt um byggingu á barnaskólahúsinu en engin föst ákvörðun tekin í því efni.“

„8. janúar 1906 var hreppsnefndarfundur haldinn að Bakkakoti og voru allir nefndarmenn á fundi.

1.var rætt um byggingu á barnaskóla og fundarhúsi handa hreppnum og var öll nefndin á einu máli um það að nauðsynlegt væri að koma húsinu upp á næsta sumri.Var því rætt um stærð og byggingarfyrirkomulag þess, grunn og fl. því viðvíkjandi.Niðurstaðan varð sú að húsið skildi vera 18 x 12 ál. (11,3m x 7,5m), stöpulhæð 5 ál. (3,14m(, sperruleggur 7,5 ál. (4,7m), Öll grindin skyldi vera úr 6x6 trjám og 5x5 trjám, alt skyldi húsið klætt utan bæði þak og veggir, fyrst með plægðum borðum 1” og með pappa, og síðast með riffluðu járni nr. 26 í veggi en nr. 26 á þak.Innan skyldi vera klætt fyrst með ragborðum svo mep pappa og síðast með panesi.Loft skyldi vera úr vanal. loftborðum, gólf tvöfalt með stoppi á milli, neðra gólfið úr ragborðum en efragólf úr vanal. gólfborðum.Á húsinu skyldu vera 8 gluggar 6 rúða (4 á hvorri hlið), einar útidyr með tvöfaldri hurð (vængjahurð).Í húsinu skyldu vera 4 herbergi skilið hvert frá öðru með tvöföldum veggjum, 4 millidyrum með hurðum á járnum og skrám, uppsteyptur skorsteinn á að vera í húsinu, helmingur glugga skyldi vera á járnum.

Að þessu ákveðnu fór hreppsnefndin til Þorsteins Kaupm. Jónssonar og óskaði eftir að hann skaffaði húsið aluppkomið að undanteknum grunni og gjörði hann nefndinni þannig lagað tilboð að hann skyldi skaffa húsið með áðurgreindu byggingarfyrirkomulagi, og eftir teikningu frá hreppsnefndinni, vel vandað að viðum og frágangi aluppkomið fyrir 1. ágúst næstkomandi gegn 3.200 króna endurgjaldi er skyldi greiðast þannig að 1600 kr. skyldu greiðast um leið og húsviðir kæmu á staðinn og 1600 krónur þegar það væri fullgjört og yfirlitið af 2ur óvilhöllum mönnum.Hreppsnefndin gjekk að þessu tilboði Þorsteins og var því gjörður skriflegur samningur við hann.

Einnig gjörði Þorsteinn falt grunnstæði undir húsið í sinni útmældu verzlunarlóð gjegn 10 kr. árlegu lóðargjaldi, en setti það skylyrði að gyrðing yrði sett í kringum húsið, c 3 al. frá því á hvern veg, nefndin ákvað að húsið skyldi byggjast á lóð Þorsteins.

Hreppsnefndin ákvað að taka 2200 króna lán til þess að geta staðið í skilum við Þ. Kaupm. og fól nefndin oddvita sínum að sækja um leyfi sýslunefndarinnar til þess að taka áðurgreint lán upp á hreppinn.

Fleira ekki rætt fundi slitið.

Hannes Sigurðsson.“

 

Þessi húslýsing er að mestu rétt en þó voru gluggarnir fimm á suðurhliðinni en fjórir á framhliðinni auk dyranna og er ekki ósennilegt að því hafi verið breytt af þeim er framleiddu húsið en það kom allt tilsniðið frá Noregi og voru allir máttarviðir tilhöggnir og var raðað saman, eins og „pússlu“ á staðnum.

Hér fylgir svo uppdráttur af grunnmynd skólahússins eins og það mun hafa verið á fyrstu árunum.

Þess skal að vísu getið að menn greinir lítillega á um stærðarhlutföllin á milli stofanna en reynt er í þessum uppdrætti að fara millliveginn.

Kolakassinn sem er á ganginum og kjallarakompa fyrir kolageymslu auk hlera upp á ganginn voru sett 1913.(ákvörðun á skólanefndarfundi 4. nóvember 1913).

Mun þetta skipulag hafa haldist fram undir 1939.


Uppdráttur af innréttingu í Gamlaskólanum.

Árið 1906 1. apríl var hreppsnefndarfundur haldinn á Bakkakoti og fjórða mál á dagskrá var eftirfarandi:

„4.vegna þess að ýmsir hafa lýst óánægju yfir því að skólahúsið fyrirhugaða, yrði ekki byggt á sama grunni og það stóð á áður, tók nefndin það til umræðu og yfirvegunar en komst að þeirri níðurstöðu að það væri hagkvæmara og rjettara að byggja það á þeirri lóð sem Þ. kaupmaður gjörði fala til þess (nefnil. á hæðinni framan við veginn norður af Hjallhólnum), var það því samhljóða ákvæði allra nefndarmanna að húsið skyldi þar byggjast.“

25. apríl sama ár var hreppsnefndarfundur og „var þá rætt um grunnbyggingu undir skólahúsið, úr hverju hann ætti að byggjast og s.f.

Ákveðið var af fundinum að grunnurinn yrði steiptur upp úr sementi grjóti (möl) og sandi, og fól nefndin oddvita sýnum umsjón á því.“

24. júní sama ár var hreppsnefndarfundur og var „þá á ný rætt um grunn undir skólahúsið, og í tilefni af því að oddviti hreppsins Hannes Sigurðsson gat ekki sökum vanheilsu, sjeð um bygginguna á grunninum var Óla Ólafssyni Jörfa falin umsjón á því verki og ákveðið að taka sement í grunnin hjá Helga Kaupm. Björnssyni.“

„Árið 1906 þ. 2. september afhenti þorsteinn Jónsson kaupm. á Bakkagerði hreppnum skólahús það sem hann tók að sjer að skaffa honum fyrir kr. 3200, en af því húsinu var skilað 1. mánuði seinna en ákveðið var í samningnum um húsbygginguna fjell húsið í verði samkv. samningnum um kr. 100.Kostaði því frá Þorsteins hendi 3100 krónur.“

Teikning af Gamlaskólanum

3200 krónur hefur verið stór upphæð í þá tíð en sem dæmi voru heildarútgjöld Borgarfjarðarhrepps fardagaárið 1905-1906 krónur 2.621,75.

Ef við leikum okkur svo aðeins með tölur þá var t.d. á þessum tíma dagsverkið metið á kr. 2,50 en í dag á ca. 11.000,- (10 klst.), þannig að útkoman yrði eitthvað á þessa leið.

3200 x 11.000 / 2,50=14.080.000,-

Ef við svo hinsvegar tökum lambsverð þá var á þessum tíma lambið metið á ca 4,00 en í dag um 20.000 og þá yrði útkoman á þessa leið:

3200 x 20.000 / 4,00=16.000.000,-

Ég hringdi að gamni í Hagstofu Íslands til að fá upp hvað vísitala byggingarkostnaðar hefði hækkað mikið frá 1906 og þar var mér tjáð að byggingarefni hefur ekki hækkað líkt því eins mikið og t.d. vinna og sá sem ég talaði við sagði að reikna mætti með að þetta hefði um 2000faldast þannig að þá yrði útkoman á húsverðinu eitthvað nálægt þessu:

3200 x 2000=6.400.000,-

Á þessu sést að ekki er alltaf mikið að marka verðbólgureikning en þetta er nú aðeins talnaleikur, settur hér fram til gamans.

Með í þessum talnaleik var aðeins tekið húsverðið en heildarkostnaður við húsið var orðinn 3.467,77 í ársreikningum fyrir fardagaárið 1906-1907, þannig að kostnaður við grunninn hefur verið kr. 367,77 og er það væntanlega endanlegur byggingarkostnaður.

En snúum okkur nú aftur að fundargjörðum hreppsins.

Þann 9. september 1906 „var hreppsnefndarfundur haldinn á Bakkagerði, allir nefndarmenn á fundi.Var þá rætt um hið nýbyggða skólahús og kom nefndinni saman um að húsið væri forsvaranlega skilað sankvæmt húsbyggingarsamningnum, og lýsti ánægju yfir því hvernig byggingin væri af hendi leist.

Oddviti tilkynnti nefndinni að hann hefði greitt Þorsteini Kaupmanni Jónssyni að fullu umsamda borgun fyrir húsið að upphæð kr. 3.100,00.Einnig skýrði oddviti nefndinni frá því að þær 1.400 krónur sem gamla skólahúsið var ábyrgt fyrir væru greiddar frá St. Th. Jónssyni á Seyðisfirði.Fundirinn ákvað að setja skólahúsið í brunaábyrgð við Brand og Lívsforsikringselskabet Nederlandene, af 1845, er Einar Hallgrímsson verzlunarstjóri á Vestdalsheyri er umboðsmaður fyrir, og fól oddvita sínum umsjón á því að húsið yrði virt og því komið í brunaábyrgð.“

„20. oktober 1906 að afloknu hausthreppamóti var haldinn almennur fundur í fundarhúsi hreppsins á Bakkagerði.

2. málOddviti skýrði frá því að búið væri að virða skólahúsið til brunabóta og að það hefði verið virt á 4000 kr. að Þorsteinn kaupmaður Jónsson hefði tekið við virðingunni og lofað að koma henni til Einars verzlunarstjóra Hallgrímssonar.(Húsið var komið í brunaábyrgð hjá honum áður en þ.v. virt).Rætt var um ýmislegt sem þyrfti að bæta upp á skólahúsið.Ákveðið að láta smíða hlera fyrir gluggana á vesturhlið hússins, 3 skólaborð og töflu í skólann.“

„Á fundi hreppsnefndar 13. nóv.1906 var kosin skólanefnd en í hana völdust Sjera Einar Þórðarson Bakka, Árni Steinsson Bakkakoti og Óli Ólafsson Jörfa.Var þessari skólanefnd falið að semja við Jón Guðmundsson um borgun fyrir barnakennsluna um veturinn svo og við Guðrúnu Kristjánsdóttur á Bólum um hreingjörning á öllu húsinu og borgun fyrir það.“

Samkvæmt ársreikningum hefur Jón fengið 250 kr. og Guðrún mun hafa fengið 30 krónur fyrir „hreingjörninginn.“

Á áðurnefndum fundi var gjörð eftirfarandi bókun:

„7.Fundurinn ákvað að lána ekki samkomusal skólahússins til danssamkomu fyrir minna en 3 kr. fyrir allt að 3 tíma dans og 5 krónur fyrir danssamkomur sem stæðu lengur yfir og 1 kr. var ákveðin í leigu fyrir hornherbergið um dægrið ef það yrði lánað í sambandi við danssamkomur.Óla Ólafssyni var falið að lána húsið ef um yrði beðið til áðurnefndra samkoma og innkalla borgunina.“

„24. nóvember 1906 var hreppsnefndarfundur haldinn á Bakkagerði, allir nefndarmenn á fundi og auk þeirra 2 menn aðrir nefnil. þeir sjera Einar Þórðarson og Jón Guðmundssonar, sem báðir voru kostnir af Stúkunni Skjaldborg nr. 106 til að fara þess á leit við hreppsnefndina, að hreppsnefndin veitti stúkunni skriflegt loforð fyrir húspláss, um lengri tíma (nefnil. mörg ár)(fyrir fastákveðna árlega þóknun.) til stúkufunda.“Urðu um það nokkrar umræður en að þeim loknum kom fram svohljóðandi tillaga frá Óla Ólafssyni hreppsnefndarm.Stúkunni Skjaldborg nr. 106 skal heimilt að nota á meðan hún starfar fundarsal hreppsins í Barnaskólahúsinu á Bakkagerði til stúkufunda gegn 15 kr. árl. þókn. f.gr. ræstingu.Tillaga þessi var samþykt í einu hljóði af öllum nefndarmönnum nema Birni á Nesi sem ekki gat orðið samnefndarmönnum sínum samdóma í þessu efni.

Hreppsnefndin fól síðan oddvita sínum að gjöra skriflegan samning um áðurgreint efni er svo skyldi undirskrifaður af hreppsnefndarmönnum og síðan afhendast stúkunni, en eptirrit af samningnum skyldi færast inn í hreppsbókina.

Fleira ekki rætt, fundi slitið.

Hér með er svo afrit af hinu skriflega loforði hreppsins.

„Hreppsnefndin í Borgarfjarðarhreppi gjörir kunnugt að hún á fundi sínum 24. dag nóvb. 1906 hefur veitt eins og hún með brjefi þessu veitir stúkunni Skjaldborg nr. 106 O.R.G. á Bakkagerði fullan rjett á meðan hún starfar, til þess að nota fundarsal hreppsins í Barnaskólahúsinu á Bakkagerði til stúkufunda og annarar notkunar er beinlínis snerta útbreiðslu bindindismálsins (að því leiti sem það kemur ekki í bága við þá 12 fundi á ári sem bindindisfélagið hefur leyfi til að halda í áðurnefndum fundarsal), gegn því að stúkan greiði árgjald fyrir ræsting á salnum að upphæð 15 krónur fimmtán krónur á ári hverju, og skal gjald það vera greitt fyrir fardaga ár hvert í fyrsta sinn vorið 1907.Þá áskilur hreppsnefndin sér rjett til að takmarka þessi hlunnindi og jafnvel segja þeim upp að öllu með missiris fyrirvara ef hún þarf á húsnæðinu að halda til barnaskólahalds.

Gjört á Bakkagerði 25. nóvb. 1906.

Í hreppsnefnd Borgarfjarðarhrepps.

Sigfús Gíslason, Óli Ólafsson, Árni Sveinsson, Hannes Sigurðsson. (oddviti).“

 

Mig langar til að skjóta hér inn á milli eftirfarandi bókun sem er þessu máli alveg óskyld en hún var gjörð á fundi 24. febrúar árið 1907.

„4.Oddviti byrti brjef frá sjera Einari á Bakka dags. 1. febrúar þ.á. þess efnis að vjer Borgfirðingar, Hjaltastaða og Eyðaþinghármenn gjörum tilraun með að fá talsímasamband frá Egilsstöðum til Borgarfjarðar.Fundurinn tjáði sig málinu hlyntan og fól oddvita sínum, ásamt Árna Steinssyni að koma því á framfæri við sýslunefndina.“

Hinsvegar komst þetta mál ekki í framkvæmd fyrr en árið 1919, en það ár, þ.e. í apríl kom mótorbátur með fyrstu 50 staurana hinga og 21. sept3mber var lokið við lagningu línunnar og voru þrjú númer í stöðinni.Það var hjá Þorsteini M. Jónssyni, B. Ólafi Gíslasyni og Guðmundi Þorsteinssyni lækni.

Fyrsta samtal fór svo fram 19. október árið 1919.

En snúum okkur aftur að málefnum „gamlaskólans“.

Á sama fundi og þessi bókun var gjörð, þ.e. 24. febr. 1907 var upp lesið þakkarávarp frá Stúkunni Skjaldborg nr. 106 fyrir undirtektir um lán á fundarsal hreppsins í barnaskólahúsinu á Bakkagerði.

„Árið 1907 þ. 14. apríl var hreppsnefndarfundur haldinn í Bakkagerði, allir nefndarmenn á fundi.

2. mál.Oddviti bar fram beiðni frá glímufjél. Borgfirðinga um að fá pláss í fundarsal hreppsins í barnaskólahúsinu á Bakkagerði til að æfa glímur í um 8 vikna tíma.Fundurinn ákvað að heimila fjelaginu pláss í húsinu umbeðinn tíma en setti það skilyrði að það færi ekki með eld í því og að það borgaði 5 krónur fyrir ræsting á því.

Hannes Sigurðsson.“

Hér var á ferðinni athygglisverð bókun.Glímufélag Borgarfjarðar, hvaða félag var það????

Höldum áfram með fundargjörðirnar:

Hér fylgir skrá yfir leigutekjur v/ barnaskólahússins 1907-1908.

       „Húsaleiga barnaskólansx.              120 kr.
        Stúkan Skjaldborg                          15 kr.
        Glímufjelag Borgfirðinga                    5 kr.
        Erlingur í Brúnavík                            5 kr.
        Sigríður Ármannsdóttir                      5 kr.
        Ágúst Ólafsson, f/3 samkomur          6 kr.
        Sýslum. N-Múl. þinghústoll               5.50
                                                            161,50

„Ár. 1908 6. dag nóvembermánaðar var sú ákvörðun fræðslunefndar samþykkt af meirihluta hreppsnefndar að nokkrir unglingar fengju frítt húspláss og hita í barnaskólastofunni 9 stundir í viku hverri í vetur, síðsegis þegar skóli væri úti.“

Hér fylgir skrá yfir leigu skólahússins 1908-9      

        Stúkan Skjaldborg                          15,00
        Jón Jóhannesson                               8,75
        Gímufélagið Sveinungi                       5,00
        Ýmsir fyrir samkomuhald                 20.00
                                                              48,75

„Árið 1910 19. dag martsmánaðar var hreppsfundur haldinn á Bakkagerði, allir nefndarmenn voru mættir“ og svohljóðandi bókun var m.a. gjörð.

„Ungmennafélag Borgfirðinga hafði sótt um blett til ræktunar (matjurtagarðsstæði) c 2 dagsláttur að stærð.(ca 6.500 m2).Fundurinn ákvað að gefa félaginu blettinn með skilyrði sem síðar yrði sett, ef það gæti fengið hann á sama hátt hjá öðrum hlutaðeigendum. (Thor E.)“ (Mun vera Thor E. Thulinius kaupmaður).

11. júní sama ár var svo fundur hreppsnefndar og á þeim fundi kom eftirfarandi bókun:

„Oddviti skýrði fundinum frá að Ungmennafélagið hefði óskað eptir að fá hið fyrsta útmældan blett þann sem það hefði sótt um að fá til ræktunar og um leið skýrði hann frá því að C. verslunarstóri Bender hefði veitt fjél. loforð fyrir blettinum að sínu leiti, fyrir hönd Thor E. Tuliniusar.Fundurinn ákvað að mæla út blettinn og fóla Árna Steinssyni og Hannesi Sigurðssyni það starf og var þeim um leið falið að ákveða hvar blettur þessi skyldi útmældur.“

Hvergi er hægt að finna í hreppsbókum hvar þessi blettur var nákvæmlega en samkvæmt þeim heimildum sem feingist hafa mun hann hafa verið utan við sundlaug þá er gerð var í Leirgrófinni og stóð fram á sjötta áratuginn.

„Ár 1910, 28. dag oktobermánaðar var hreppsnefndarfundur haldinn á Bakkagerði á heimili oddvita, allir nefndarmenn á fundi.

7. mál:Framborin beiðni frá Þorsteini kennara Jónssyni og Jóni kennara Jóhannessyni,

1.um að fá húspláss í skólahúsinu fyrir unglingaskóla í vetur án endurgjalds.

2.um að fá að brúka áhöld barnaskólans í vetur án endurgjalds.

3.um að húsið yrði gjört hreint án endurgjalds.

Fundurinn ákvað að veita þeim þessi hlunnindi borgunarlaust.“

„Ár. 1911 17. dag nóvembermánaðar var hreppsnefndarfundur haldinn á Bjargi í Bakkagerði, allir nefndarmenn á fundi.“

Meðal annars var eftirfarandi bókað.

„6. Ákveðið var að Þorsteinn M. Jónsson skyldi borga kr. 30 fyrir brúkun á skólahúsinu í sumar.

7.Einnig ákvað fundurinn að Ungmennafélagið skyldi borga kr. 7.00 árlega fyrir brúkun á skólahúsinu, og skyldi upphæð þessi greiðast fyrir fardaga ár hvert.“

Hér er vitnað í hreppsbækur frá árunum 1910 og 1911 um Ungmennafélag Borgfirðinga.

Merkilegt nokk,, því U.M.F. Borgarfjarðar er ekki stofnað fyrr en 1917, eins og við vitum. Þetta sýnir okkur svart á hvítu að hér hefur verið félag starfandi á undan núverandi félagi og einnig með „ungmennafélags“ nafninu.

Sigurður Hannesson, sem áður er getið, segist minnast þess að þegar hann kemur úteftir 1907, (frá Gilsárvallahjáleigu), hafi bara verið starfandi glímudeild innan félagsins.Þar gæti verið komin skýring á glímufélaginu sem fær leyfi til glímuæfinga vorið 1907, eða um svipað leyti og Sigurður kemur út í Bakkagerði.

Þá vaknar sú spurning hvaðna þessi ungmennafélagshugsun kemur til okkar, en 7. janúar 1906 er fyrsta ungmennafélag á Íslandi stofnað samkvæmt heimildum úr „Öldinni okkar“ og er það Ungmennafélag Akureyrar.

Gætum við hafa fengið innblástur þaðan eða kom þessi félagsskapur til okkar fyrir tilstuðlan Helga Valtýssonar sem var einn af fyrstu félögum í U.m.f. Akureyrar, en Helgi var úti í Noregi um tíma og þegar hann kom upp aftur hafði hann nokkra viðdvöl heima hjá sér í Loðmundarfirði áður en hann fór til Akureyrar.

Kom Þorsteinn M. Jónsson kanske með þetta með sér þegar hann kom sem kennari hér um 1909?

Kom þessi félagsskapur kannske til okkar fyrir tilstuðlan Bjarna Þorsteinssonar í Höfn, (ljósmyndara), sem meðal annars gaf út (ritaði), blaðið „UNGLINGUR“ sem Sigurður Ó. Pálsson gerði góð skil í síðasta tölublaði GUSU,l en Bjarni dvaldist úti í Kaupmannahöfn frá hausti 1895 til vors 1897?Hvergi er hægt að sjá það eftir heimildum.

Eða kom þessi félagsskapur kannski frá norðmönnum sem hér voru „í massavís“ við fiskveðiðar um aldamótin, t.d. kemur fram í fundargjörðum hreppsins frá 18. sept. 1905, 1. mál.„Jafnað niður sveitaútsvorum á 78 norska sjómenn sem hjer hafa rekið fiskveiðar í sumar, als var á þá lagt kr. 300,-.“

Fullvðíst er að þetta ungmennafélag hét Ungmennafélagið VONIN, þótt það komi ekki fram í hreppsbókum því að bæði í gömlum fundargjörðum Unglingaskólafélagsins og í fyrstu fundargerð núverandi ungmennafélags er drepið á þetta félag, og með þessu nafni.

Hér skal ekki lagður á það dómur hvaðan ungmennafélagsstarfið kom hingað en ég þykist þess fullviss að við getum að lokum fundið nægar upplýsingar um þetta félag og þá um leið um uppruna þess.

Sigurður Geirdal, framkvæmdastjóri UMFÍ hefur tjáð mér að margar heimildir séu um forvera núverandi ungmennafélaga í landinu og þá einkum á Norður og Norð-Austurlandi en í flestum tilfellum voru það bindindisfélög og önnur þannig félög sem báru ekki þetta ungmennafélagsnafn en svo eftir að ungmennafélögin komu til sögunnar þá breyttu þau um nafn og tóku upp ungmennafélagsnafnið, gjarnan án þess að breyta nokkuð um fyrri stefnu sína.

En við skulum láta þessar bollaleggingar duga í bili og snúa okkur aftur að „gamlaskólanum“.

Árið 1913 var á fundi skólanefndar þann 4. nóvember ákveðið að grafa kjallara undir norðurhorn skólans.Þá hefur einnig verið ákveðið að útbúa kolakassa í endanum á ganginum og útbúa lúgu niður í kjallarann því í honum voru kolin geymd.

„Ár 1915, 24. febrúar var hreppsnefndarfundur haldinn að Bjargi.“Meðal annara mála var tekið fyrir eftirfarandi:

„3.Oddviti bar fram umsókn frá húsfrú Marínu Sigurðardóttur um húspláss í skólahúsinu til fundarhalda fyrir kvenfjelag sem í ráði er að koma á fót.Nefndin ákvað að leyfa þeim húspláss þ.e. á þeim tíma sem það kæmi ekki í baga við aðra notkun á húsinu.“

Árið 1914 – 1915 voru leigutekjur af skólahúsinu þannig:

        Stúkan Skjaldborg                           15 kr.
        Leikfjelagið                                      12 kr.
        Ýmsir, fyrir samkomur                      45 kr
                                                                72 kr

Eins og áður kom fram var skólahúsið metið á kr. 4000 árið 1906, en árið 1914 var matið hækkað upp í kr. 6000,-.

Eftir þennan tíma er lítið getið um skólahúsið í fundargjörðum, og lítið bitastætt er að finna í fundargjörðum skólanefndar.

Til gamans má geta um að í skólanefnd var ákveðið árið 1917 að ráða Inga T. Lárusson sem söngkennara fyrir kr. 1 á tímann, alls tvo tíma á viku.

Ekki verður í þessari samantekt gert skil frekar þeim tíma er skólinn var til húsa í „gamlaskólanumn“, en árið 1939 flytur skólinn í nýtt húsnæði, en það er það sem saumastofan Nálin er til húsa nú.

Árið 1939 er ákveðið að selja gamla skólann og í fundargjörð Ungmennafélagsins frá því ári er ákveðið að kaupa húsið ef verð þess yrði ekki meira en kr. 1.500,00 og fóru þau kaup fram.

Árið áður þ.e. 1938 var ungmennafélagið búið að fá efni til að hefja framkvæmdir við byggingu nýs húss fyrir félagið, en það efni var gefið eftir til Húsavíkur þegar húsin þar eyðilögðust í roki um veturinn.

Því miður hefur gengið mjög illa að afla mynda af húsinu og því getum við ekki birt mynd af því hér en fyrir nokkrum árum reyndi ég að teikna upp útlit bæði af gamla bindindishúsinu og af gamlaskólanum.Báðar þær myndir eru þó eingöngu teiknaðar eftir minni og eftir umsögn eldri manna og fylgja þær hér með til frekari glöggvunar en stærðarhlutföllin eru vafalaust vitlaus.

Ég vona svo að þið séuð einhvers vísari um „gamlaskólann“ og hafið haft einhverja ánægju af lestrinum.

Tekið saman í apríl og maí 1979.

Helgi M. Arngrímsson.



Ljósmynd frá því um 1965

Eftirskrift:    
Við lestur verður að taka tillit til þess að þetta er skrifað fyrir þó nokkrum árum og ýmislegt hefur breyst á þeim tíma.  T.d. höfum við fengið örfáar myndir af húsinu sem fylgja hér með inni í greininni.  Í dag er ekki gott að átta sig á framreikningi húsverðsins en kannski reynum við síðar að finna út úr því miðað við núvirði.

Vonandi hafið þið haft gaman að þessari grófu samantekt.

Helgi M. Arngrímsson. ritað um 2000.