Mælir heitir í suður og upp frá bænum Hofströnd í Borgarfirði austur og í vestur frá
Svartafjalli; (Svartfelli) hann er hár og mikill melhnjúkur og einkennilegur mjög. Mælir er einn af hinum mörgu og einkennilegu huldufólkshælum sem
þjóðtrúin þekkir í Borgarfirði sem eru mörg og þar á meðal svo nefndur Fagrihóll suður og upp frá Mæli.
Þar er mjög einkennilegur grashóll, oftast grænn og fagur til að sjá.
Utanvert á honum er svo til að sjá álengdar frá sem hann sé með einlægum beðum og götum líkt og jarðeplagarður. Í
Fagrahól hefir lengi huldufólk búið. Um íbúa Mælis hefi ég eigi heyrt sögur en aftur á móti um íbúa
Fagrahóls er hér ein sögn er nú skal vera sögð.
Einu sinni bjó ekkja, Þórunn Ólafsdóttir, að Þrándarstöðum. Hún átti meðal fl. Ólaf fyrir son, síðar
kallaðan hinn ríka, þá ungan mjög. Ekki var þar annað fólk. Ekkja þessi hafði það mest til atvinnu sér að hún
reri á sæ frá Hofströnd og gekk heiman að morgni og heim að kveldi. Var þá drengur einn í bænum. Einn dag kom til hans
strákhnokki sem hann þekkti eigi og vissi engin deili á. Þó þekkti hann alla drengi á næstu bæjum. Strákur þessi bað
hann að gefa sér matinn sem móðir hans hafði skammtað honum til dagsins og segist þá skuli vera hjá honum um daginn honum til skemmtunar.
Drengur fær honum þá allan matinn sinn. Þegar strákur er búinn með matinn hverfur hann snögglega og sá drengur hann aldrei
síðan.
Þegar ekkjan kom heim um kveldið sagði strákur henni frá því hversu fór með matinn og lýsti ókunna piltinum fyrir henni. Ekkjan
þóttist þá sjá að þetta hlaut að hafa verið huldustrákur og varð mjög óttaslegin um son sinn. En um nóttina
dreymir hana það að til hennar kemur góðleg kona og segir við hana: “Þú ert hugsjúk út af því að þurfa
að skilja drenginn þinn einan eftir heima þegar þú ferð á sjó sem vonlegt er. Það skaltu vita að ég bý í
Fagrahól norðanverðum ásamt mörgu öðru góðu fólki. En að sunnanverðu býr blandið fólk og þaðan var
strákurinn. Hér eftir skaltu fara óhrædd að heiman því ég skal sjá um drenginn þinn.” Síðan hvarf konan en ekkjan
sótti sjóinn sem áður og varð drengur þar aldrei framar neins var því álfkonan úr Fagrahól gætti að drengnum
hennar.
Annar hnjúkur heitir og Mælir neðan við fremra Dyrfjallið og Dimmadalinn. Á Dimmadal lá álfatrú mikil, samanber vísu Páls í
Gilsárvallahjáleigu:
Í Dimmadal sá ég dverga nóga.
Þeir dreyptu á mig úr hornum sín.
Gandreið þeirra mér gerði óa,
gaurana spurði um lömbin mín.
Þursarnir gáfu þetta svar:
Þau hefðu ekki komið þar.
“Eftir sögn Valgerðar Egilsdóttur að Hofströnd 1912. Vísan er úr Lambaleitarbrag
Páls.”