Umgengni á Víknaslóðum

Við biðjum ferðamenn og aðra að bera virðingu fyrir náttúru svæðisins á ferðalögum sínum

  • Göngum ávallt frá áningarstað eins og við viljum koma að honum.
  • Skiljum ekki eftir rusl á víðavangi né urðum það, tökum ruslið með til byggða eða setjum það í sorptunnur.
  • Kveikjum ekki eld á grónu landi.
  • Rífum ekki upp grjót, né hlöðum vörður að nauðsynjalausu.
  • Spillum ekki vatni, né skemmum lindir.
  • Sköðum ekki gróður.
  • Truflum ekki dýralíf.
  • Skemmum ekki jarðmyndanir.
  • Rjúfum ekki öræfakyrrð að óþörfu.
  • Ökum ekki utan vega.
  • Fylgjum merktum göngustígum.
  • Virðum reglur og tilmæli landeiganda og Skálavarða.
 

Samkvæmt náttúruverndarlögum er almenningi heimilt að ganga um óræktuð lönd og dvelja þar án sérstaks leyfis en vinsamlega sýnið landeigendum fulla tillitssemi, gangið eftir merktum gönguleiðum og virðið rétt þeirra m.t.t. búfénaðar og ræktunar hvers konar. Muna þarf að loka hliðum og ganga vel um girðingar.

Auk þeirra almennu ofangreindu umgengnisreglna frá Umhverfisstofnun í íslenskri náttúru ber að hafa eftirfarandi öryggisþætti í huga er gengið er á fjöll. Margt af þessu er einnig gott að hafa í huga þó styttra sé farið:

  • Gerið ferðaáætlanir með hliðsjón af landakortum eða leiðarlýsingum.
  • Takist ekki á við of erfið verkefni of snemma. Reynið erfiðari ferðir eða klifur smám saman með aukinni reynslu.
  • Ferðist í félagi við aðra. Haldið hópinn. Veitið ekki hópi forystu fyrr en nægileg reynsla er fengin.
  • Búið ykkur ávallt undir það versta.
  • Ætlið ykkur nægan tíma og haldið sem jöfnustum hraða.
  • Veltið ekki grjóti. Kynnið ykkur og fylgið reglum umhverfisstofnunnar.
  • Fylgist með veðri. Haldið ekki áfram skeytingarlaust ef það versnar.
  • Reynið ekki kletta-snjó eða ísklifur án reynslu eða án forystumanns eða leiðsögumanns.
  • Ef þið villist, flanið ekki að neinu. Íhugið stöðuna, haldið hópinn og leitið vandlega að góðri leið úr ógöngunum.
  • Skiljið eftir skilaboð um áætlaða leið, varaleið og áætlaðan tíma. Ef út af bregður reynið þá að láta vita af ykkur.
Ferðumst örugg á Víknaslóðum og komum heil heim