Kjólsvík

KjólsvíkKjólsvík er lítil vík milli Glettings og Grenmós. Hún er stutt, undirlendi lítið og framhlaup setja sterkan svip á landslagið.

Munnmæli segja að til forna hafi víkin verið slétt og fögur og þá hafi verið stöðuvatn uppi á Víðidalsfjalli. Eina nótt hafi fjallið klofnað um vatnið og hlaupið fram um alla vík. Hvað sem þessu líður þá heita Háuhlaup og neðar Láguhlaup fyrir neðan brotsár Víðidalsfjalls.

Bæjarstæðið í Kjólsvík var all hrikalegt en Kjólsvíkurbærinn stóð út við sjó sunnan undir snarbröttum hlíðum Glettings. Bæjarstæðið er mjög greinilegt og gaman að fara niður að því og reyna að ímynda sér þær aðstæður sem ábúendur bjuggu við á þessu einum afskekktasta stað á Íslandi.

Skammt upp af bænum er kletturinn Kjóll sem víkin dregur nafn sitt af. Orðið kjóll þýddi skip (kjölur) í fornu máli. Kjóllinn varði bæinn fyrir skriðuföllum. Í Kjólsvík þóttu og þykja enn góð beitarskilyrði fyrir sauðfé, enda er þar snjólétt og allvel gróið. Eitt býli var í Kjólsvík en það fór í eyði 1938.

Hægt er að ganga með fjörum þegar lágdautt er út að Glettingi en ekki er mælst til þess að fólk fari þá leið þar sem hún er mjög hættuleg