Leikskólastarf og leikskólauppeldi byggir á sérstökum uppeldisaðferðum og sérstakri hugmyndafræði. Þeir sem vinna að leikskólauppeldi sækja hugmyndir til kenninga, rita og rannsókna ýmissa fræðimanna um það hvernig börn læra og þroskast. Fræðimenn eru sammála um að leikurinn sé helsta náms- og þroskaleið barna og rannsóknir sýna að lítil börn læra og þroskast best í leik. Leikskólauppeldi er annars konar uppeldi en það sem foreldrar veita og er mikilvæg viðbót við það. Foreldrar eru óumdeilanlega aðaluppalendur barna sinna og bera meginábyrgð á uppeldi þeirra.
Leikurinn er einn mikilvægasti þátturinn í starfi barnsins enda er hann ekki einungis gleðigjafi heldur líka náms- og þroskaleið. Frjáls leikur er því nauðsynlegur. Börn hafa þörf fyrir að hreyfa sig, tjá sig og skapa. Þau búa flest yfir miklu hugmyndaflugi og geta breytt umhverfinu í kringum sig með ímyndunaraflinu einu saman. Leikir barnanna byggjast á að raða, handfjatla hluti, draga, ýta og hreyfa sig sem mest. Leikskilyrði inni sem úti skipta máli og hvaða leikefni er í boði. Börn eru athafnasöm og hugmyndarík í eðli sínu. Þau reyna ýmsar leiðir í samskiptum sínum við félagana og í leik miðla þau af reynslu sinni og þekkingu. Frjálsi leikurinn leysir tilfinningar, s.s. ótta og gleði, úr læðingi og hjálpar börnunum við að styrkja sjálfsmynd sína. Hann er uppspretta samskipta barna og því er lögð rík áhersla á að hlúa að honum frá fyrstu tíð.
Hugmyndafræði leikskólans byggir á kenningum fræðimannana John Dewey og Jean Piaget um leikinn sem aðferð barnsins til að læra.
Piaget leit á leikinn sem þátt í hugsun barnsins og vitsmunaþroska. Hann taldi að vitsmunir og þróun leiks héldust í hendur og að hægt væri að sjá á hvaða þroskastigi barnið væri út frá hvaða leiki það léki. Barnið lærir af viðbrögðum umhverfisins og eigin gjörðum og öfugt. Því er mikilvægt að umhverfið sé fjölbreytilegt og hafi upp á margtað bjóða. John Dewey lagði höfuðáherslu á að virkja hina miklu athafnaþörf barnsins og vekja áhuga þess. Hann taldi að learning by doing, læra með því að framkæma skilaði bestum árangri. Hann taldi að barnið ætti að læra af eigin reynslu, virkni og áhuga. Barnið læri ekki af því að taka á móti, heldur í samspili við þekkingu þess á veröldinni í gegnum skynfærin. Uppeldisumhverfi barnsins og sá efniviður sem það hefur, skiptir því sköpum. Samkvæmt kenningum Dewey á barnið að vera í brennidepli. Hann lagði höfuðáherslu á virðingu fyrir barninu og þörfum þess. Dewey taldi að barnið myndi velja sér verkefni eftir þroska og áhugasviði: Áhuga á félagsskap og samveru við jafningja. Áhuga á að rannsaka, leita og finna. Áhuga á að skapa, búa til og viðhalda. Áhuga á listrænni tjáningu, teikningu, málun, söng og dansi. Dewey trúði því að skapandi vinna vekti áhuga barna, leiddi til skýrrar hugsunar og að börn lærðu af reynslu en ekki beinni kennslu.
Flokkun leikja:
Kubba- og byggingaleikur
Í leikskólanum er fjölbreytt úrval af ýmsum tegundum kubba, bæði plast- og trékubba. Flest börn hafa ánægju af að byggja úr kubbum. Þau breyta um form og hugmyndir í sífellu. Viðfangsefnin eru óþrjótandi því að í kubbaleik ræður hugarheimur barnsins ferðinni, ímyndun og veruleiki vinna saman. Kubbur getur verið nánast hvað sem er í huga þeirra, t.d. bíll, bátur, fiskur eða maður. Byggingarleikur eflir sköpunarhæfni og ímyndunarafl barnsins og í slíkum leik lærir barnið um jafnvægið, heiti formanna og hugtakamyndun eflist. Í byggingarleik öðlast barnið þekkingu á sjálfu sér og umhverfinu, lærir að taka tillit til barnanna í hópnum og þess rýmis sem það hefur. Engar reglur gilda um kubba, það er alltaf hægt að byrja aftur og aftur ef eitthvað mistekst eða ef skipt er um skoðun á miðri leið.
Hlutverka- og ímyndunarleikur
Þykjustuleikur er mikilvægur fyrir alhliða þroska barna. Í honum styrkist tilfinninga-, félags- og málþroski þeirra og auk þess eflist hugmyndaflug og sköpunarhæfni. Hinn fullorðni stýrir leiknum með yngstu börnunum að nokkru leyti með því að fara í þykjustuleikì með þeim, leggja á borð, gefa að borða, drekka og sofa. Barnið leikur ýmist sjálft hlutverkið við að þykjast borða o.s.frv. eða notar bangsa eða dúkku í hlutverkin. Hugtök og orð sem tengjast þessum leikjum eru æfð og endurtekin.Eftir því sem börnin eldast eykst hugmyndaflug þeirra og þroski og þau fara að nota fleiri hjálpargögn í leikinn, s.s. stóla, borð, púða og teppi. Einnig koma til sögunnar ýmsir búningar eins og hattar, slæður og skór. Í leikskólanum er lögð rík áhersla á að gefa börnunum tækifæri til að líkja eftir persónum og dýrum sem þau þekkja úr umhverfi sínu. Þau setja sig í spor annarra og lifa sig inn í atburði sem eiga sér stað í kringum þau. Hlutverkaleikur barna er afar flókið ferli því þau geta bæði haldið fast í hugmyndir og tákn og breytt hlutum að eigin vild. Þau geta leikið allt sem þau hugsa og jafnvel leikið sig frá því sem þau óttast. Þau læra að vinna saman og taka tillit hvert til annars.
Sköpun, athygli og fínhreyfingar
Á þessu svæði er unnið með púsluspil, pinna, perlur, skæri, lím, liti, pappír o.fl. Börnin þjálfast í að sitja við borð og ljúka ákveðnu verkefni. Þau þjálfa fínhreyfingar, samhæfingu augna og handa, athygli og sköpunargáfu. Oft tengist inn í þetta hlustun því á meðan þau vinna er hlustað á sögur eða ljóð af geisladiskum eða snældum.
Regluleikir
Þá er unnið með leiki sem krefjast þess að barnið þekki ákveðnar reglur sem gilda í leiknum. Þetta æfir barnið í að fara eftir fyrirmælum og virða reglur sem gilda í leiknum.
Hreyfileikir / Útileikir
Í hreyfileikum er stuðst við tónlist og takt. Hreyfileikir/útileikir eru nauðsynlegir til að styrkja þol og samhæfingu og auka á samvinnu og gleði barnanna.