Heimild: Tíminn, miðvikudaginn 28. febrúar 1951.
Bát hvolfir á Borgarfirði eystra – 5 menn í sjóinn
Öllum bjargað, en stóð tæpt með suma.
Einkaskeyti frá fréttaritara Tímans í Borgarfirði.
Minnstu munaði að stórslys yrði á skipalegunni hér á Borgarfirði eystra á laugardaginn. Hvolfdi útskipunarbát undir fimm mönnum
og björguðust þeir og sumir nauðulega.
Verið að skipa út fiski.
„Katla“ var stödd hér til þess að taka saltfisk til útflutnings og fiskurinn fluttur á útskipunarbát að skipshlið og tekinn
þar um borð. Var veður stillt þennan dag, en kalt og mikil hafalda.
Hanki slitnaði,bátnum hvolfdi.
Bátur sem í voru fimm menn – Skúli Andrésson, Ásgrímur Bjargsteinsson, Halldór Guðfinnsson, Sigursteinn Hallgrímsson og Sigursteinn
Jóhannsson – lá við skipshlið. Var verið að taka upp úr honum saltfiskpakka, sem látnir voru í vörpu og lyft með vindu upp
í skipið. Tókst þá svo illa til að hanki slitnaði og féllu fiskpakkarnir niður á hástokk bátsins, er þá hvolfdi
á svipstundu.
Björgunin.
Tveir mannanna, Sigursteinn Hallgrímsson og Sigursteinn Jóhannsson náðu öruggu taki á vörpunni og voru þegar dregnir upp á henni, en
Halldór og Ásgrímur, er einnig höfðu náð í hana, misstu takið og hröpuðu aftur í sjóinn. Fór svo tvisvar eða
þrisvar, uns loks tókst að bjarga þeim. Þriðji maðurinn, Skúli Andrésson, náði taki á festinni, sem báturinn var bundinn
með við skipið og hélt sér þar. Var honum bjargað síðast þeirra félaga. Mennirnir voru þegar fluttir í land að
björgun lokinni og hefir engum þeirra orðið meint við þetta volk, þótt kalt væri í veðri.