Námssvið leikskólans. Börn læra í gegnum leik og daglegt starf innan dyra sem utan. Þau læra í
samvinnu við önnur börn og þegar þau fá stuðning og hvatningu frá hinum
fullorðnu. Námssviðin eru samþætt og samofin öllu starfi leikskólans. Þau
byggjast á skapandi og gagnrýninni hugsun og tengjast leik og daglegum athöfnum
í leikskólum. Leikskólastarf byggist á lögum um leikskóla þar sem lögð er
áhersla á gildi leiksins.Megináherslur í nýrri aðalnámskrá leikskóla 2011 eru; lýðræði, jafnrétti, velferð og samskipti.
Hvatt er til þess að leikurinn sé nýttur á markvissan og skapandi hátt í
samþættu uppeldi og námi barna. Námssvið leikskóla og daglegar athafnir skapa
heildstæðan ramma um uppeldi og menntun. Námssviðin tengjast grunnþáttum menntunar og
skiptast í eftirfarandi áhersluþætti: Læsi og samskipti,
heilbrigði og vellíðan, sjálfbærni og vísindi, sköpun og menningu
Þeir snúast um læsi á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru, einnig um
framtíðarsýn og getu og vilja til að hafa áhrif og taka virkan þátt í að
viðhalda samfélagi sínu, breyta því og þróa. Þeim er ætlað að undirstrika
meginatriði í almennri menntun og stuðla að meiri samfellu í öllu skólastarfi.
Í leikskólanum
höfum við sett okkur þessi markmið á hverju námssviði fyrir sig:
Læsi og samskipti:
Læsi í leikskóla felur í sér að búa yfir þekkingu, leikni og hæfni til að lesa
í umhverfi sitt og tjá upplifun sína, tilfinningar og skoðanir á fjölbreyttan
hátt. Börn hafa þörf fyrir að spyrja spurninga, skiptast á skoðunum og ræða
hugmyndir sínar, tilfinningar og skoðanir.
Börn nota ýmsar aðferðir til að tjá sig og eiga samskipti við aðra. Auk
tungumálsins nota þau t.d. hljóð, snertingu, látbragð og leikræna tjáningu
tónlist, myndmál og dans til að skynja, skilja, túlka, gagnrýna og miðla. Auk
þess að nota talmál, sem er mikilvægasta tæki manna til boðskipta nota þau;
myndmál, ritmál, tölur og önnur kerfi tákna, það hjálpar þeim að lesa í
umhverfi sitt og nota tungumálið á fjölbreyttan hátt. Áhersla skal lögð á
málörvun og málrækt í öllu starfi. Í hópastarfinu, útinámi,
gönguferðum, samverustundunum,
í fataklefanum og við matarborðið er tækifærið notað til að efla
mál og málskilning barnanna. Einnig leggjum áherslu á virka hlustun sem er
börnunum m.a. hvatning til að efla mál sitt og frásagnargleði. Lesið
er daglega fyrir öll börnin og koma 3. 5 bekkur einu sinni í viku í heimsókn
og lesa fyrir þau. Einnig eru ljóð og
þulur sungin og lesin. Lögð er áhersla á að starfsmenn tali vandað mál því að
þeir eru fyrirmynd barnanna.
Markmið er að efla
málþroska og málskilning, tryggja að öll börn í leikskólanum hafi möguleika á tjáskiptum . Að auka
orðaforða og hugtakaskilning og auka
tjáskipti sem er undirstaða félagslegrar þátttöku
Samskipti eru stór hluti af lífsleikninámi
barns þar sem miklu máli skiptir hvernig við tölum hvort við annað. Lögð er
áhersla á að eins sé komið fram við drengi og stúlkur. Þau hafi sama rétt og
fái sama viðmót frá þeim fullorðnu og öðrum börnum, einnig að þau njóti sömu
hvatningar og örvunar sem öll börn þurfa á að halda hvort sem þau eru stúlka
eða drengur, lítil eða stór, yngri eða eldri o.s.frv. Unnið með staðalímyndir
og hugmyndir fólks og samfélaga um ákveðin störf og hópa. Mikilvægt er að
börnin læri að bera virðingu fyrir sér, öðrum og umhverfi sínu, taki meiri og
meiri ábyrgð á lífi sínu og öðlist sjálfstæði og sjálfsöryggi í því sem þau eru
að gera.
Markmiðað læra að
taka tillit til annarra með virðingu og samkennd. Efla
samskiptahæfni, hópkennd, sjálfstæði og frumkvæði. Auka
jafnrétti og lýðræði.
Heilbrigði og
vellíðan
Hreyfiuppeldi er samofið öllu
leikskólastarfi. Hreyfing er undirstaða alls þroska og því
mikilvægt að hreyfing barna sé fjölbreytt og skipi stóran þátt í lífi þeirra.
Með hreyfingu tjá börnin sig og fá útrás. Um leið styrkist líkamsvitund og
eykur getu barnsins til fjölbreyttra athafna sem efla sjálfstraustið. Með
hreyfingu lærir barnið að þekkja sjálft sig og skynja rými. Dagleg útivist
gefur góða möguleika til eflingar hreyfiþroskans. Nauðsynlegt er að
starfsfólkið sé virkt í útivistartíma með börnunum, efli þau til dáða og taka
þátt í þeirri gleði sem aukin færni veitir þeim. Sérstaða leikskólans er sú að
gott tækifæri gefst til gönguferða um mjög fjölbreytt landslag s.s.
fjöruferðir, fjallgöngur( Álfaborgin) og heimsóknir í heimkynni dýranna.Útivera, upplifun
barnsins og þessi nálægð við náttúruna styrkir nám þess og það lærir að lesa í umhverfið. Að vera úti í mismundandi veðurfari og
aðstæðum eykur þol og þrek barnanna og veitir þeim líkamlega og andlega
vellíðan.
Markmið er að
barni njóti þeirrar gleði sem hreyfingin veitir og auki þol sitt einbeitingu og styrk. Efli sjálfsmynd og sjálfstraust. Þjálfi gróf og fínhreyfingar og efli líkamsvitund og alhliða þroska sinn. Öðlist aukna þekkingu á árstíðaskiptum og margbreytileika veðurfars. Læri að virða leikreglur, fari að fyrirmælum og meti aðstæður.
Sjálfbærni og vísindi
Menntun til sjálfbærni felur í sér að þroska fólk til að hafa vilja og getu til að breyta því
samfélagi sem við búum í. Lögð er rík áhersla á umhverfismennt í
leikskólanum og er hún fléttuð inn í
daglegt líf barnanna. Skólinn er þátttakandi í verkefninu Skóli á grænni grein
og vinnur að markmiðum og verkefnum því tengdu. Þegar horft er á mikilvægi náttúrunnar í lífi
mannsins verður ljós nauðsyn þess að um hana sé gengið af umhyggju og virðingu
og rétt að stefna að því markmiði að hver kynslóð skili umhverfinu til komandi
kynslóða í sama eða betra ásigkomulagi og tekið var við því (sjálbær þróun). Í
leikskólanum er lögð áhersla á flokkun á lífrænu sem ólífrænu sorpi,
endurvinnslu, gróðursetningu og ræktun. Börnin kynnast umhverfinu, náttúrunni
og læra að bera virðingu og umhyggju fyrir því sem þar lifir með gönguferðum og
útinámi.
Markmið er að
barnið læri að bera virðingu fyrir umhverfi sínu og náttúru og því sé gefið tækifæri til að upplifa og njóta. Að það kynnist gróðursetningu, ræktun og endurvinnslu og útskýrt sé fyrir því tengsl orsakar og afleiðingu. Að barnið öðlist stjálfstraust til að taka ákvarðanir sem varða þeirra velferð og
þar af leiðandi annarra.
Vísindi.
Hinir miklu töfrar heimsins ná oft og tíðum að fanga athygli barna. Hlutir úr
náttúrunni eru óendanleg uppspretta rannsóknarefna og athugana fyrir börn.
Þegar það hefur aðgengi að náttúrulegum efnivið sem og öðrum skaðlausum efnum
og hlutum skapast nýjar hugmyndir til enn frekari rannsókna. Við hvetum barnið
áfram með því að skapa þetta umhverfi og þannig lærir það smám saman með rannsóknarferli sínu að þekkja
eðli hluta og efna í eigin umhverfi. Börnin gera tilraunir á sínum forsendum ef
þau fá næði og tækifæri til og þannig
geta þau blómstrað.
Markmið er að
börnin fái tækifæri til að rannsaka, spyrja og upplifa á grunni skapandi
hugsunar. Þau þjálfi rökhugsun með stærðfræðilegum viðfangsefnum s.s. tölum, táknum og
mynstrum en einnig að vinna með rými, fjarðlægðir og áttir.
Útinám.
Í leikskólanum er hugtakið útinám notað sem yfirheiti yfir skipulagðar stundir
eða ferðir sem barnahópurinn fer í utandyra. Við búum við þann munað að stutt
er í ósnortna náttúru og því mjög auðvelt að leita þangað til að auðga námið og
safna upplifunum. Hér á árum áður voru börn mikið úti og í nánum tengslum við
náttúruna sem varð til þess að umhverfisvitund þeirra þróaðist án sérstakrar
örvunar fullorðinna. Í dag eyða börn aftur á móti stærstum hluta dagsins
innivið eða í manngerðu umhverfi og kunnáttu sína um náttúruna fá þau gjarnan
að stórum hluta í gegnum ýmsa miðla. Samkvæmt
kenningum norðmannsins Arne Nikolaisen Jordet
sem er prófesssor
við Høgskolen i Hedmark í Noregi er
útinám eitthvað sem á sér stað utandyra, þar sem börnin eru í náinni snertingu við umhverfi sitt og
því samfélagi sem þau eru hluti af. Jordet hefur sett upp kennslulíkan í útinámi
sem skiptist í þrjá þætti, þeir eru, undirbúningur, útiupplifun og uppgjör og ígrundun.
Undirbúningurinn felst í að ræða saman, lesa og afla sér vitneskju um
viðfangsefnið. Í útiupplifun nota nemendur öll skilningarvitin við rannsóknir
og athuganir, þeir eru líkamlega virkir og fá að upplifa umhverfi sitt í gegnum
viðfangsefnið og uppskera með því reynslu og þroska. Lokaþátturinn er svo
uppgjör og íhugun þar sem útiupplifun er fylgt eftir með margvíslegum verkefnum
í mismunandi námsgreinum, til dæmis með samræðum og með því að lesa meira um
viðfangsefnið. Nemendur öðlast með því nýja sýn á viðfangsefnið og það gefur
svo aftur grunninn að frekari íhugun (Jordet, 2005).
Markmið með útinámi er að börnin læri
um raunveruleikann í raunveruleikanum, samfélagið í samfélaginu, náttúruna í
náttúrunni og nærumhverfið í nærumhverfinu.
Sköpun og menning
Myndsköpun er daglegur þáttur
í leikskólanum.Börn hafa ríka þörf fyrir að tjá
sig í myndmáli. Listsköpun eflir sjálfstraust barnanna og styrkir jákvæða
sjálfsmynd þeirra. Hún örvar einnig hugmyndaflug og löngun til að skapa.
Samhæfing augna og handa eykst og þau fá útrás fyrir tilfinningar sínar.
Aðalatriði myndsköpunar er að þau fái að vinna með ýmis efni, maka og mála með
fingrunum eða pensli. Þau læra að blanda liti og skynja betur fjölbreytileika
litanna. Efni til myndsköpunar er haft aðgengilegt svo þau geti sjálf náð í
það sem þau vanhagar um. Þau eiga
auðvelt með að tjá sig um myndirnar sínar og eru hvött til dáða.
Markmiðið er að örva sköpunarhæfni og gleði barnanna. Þau fái tækifæri til að koma hugsunum sínum, tilfinningum og reynslu í myndrænt form og
túlka þær. Þau öðlist nægilega hreyfifærni og samhæfingu til að
teikna, forma og lita. Að auka sjálfstraust
barnanna og muna að það er ferlið og upplifunin sem skiptir máli.
Tónlist og dans: Söngstundir eru hluti af
hverri samverustund og einnig í hópastarfi. Börnin læra ný lög og texta og
þá oft í tengslum við það efni sem er í gangi hverju sinni. Geisladiskar eru notaðir sem efni til að hlusta á, dansa
eftir eða skapa rétt andrúmsloft fyrir hreyfingu eða slökun. Margbreytileiki tónlistarinnar eflir
næmi barnsins fyrir hljóðum, hreyfingu og túlkun á tónlist. Samkvæmt
Aðalnámskrá leikskóla eiga helstu þættir tónlistariðkunar barna í leikskóla að
vera söngur, hlustun, taktur, hreyfing og leikur með hljóðgjafa. Markmiðið er
að börnin þroski með sér næmi fyrir hrynjanda, hljóðum, hreyfingu og túlkun á
tónlist. Einnig að þau æfist í að koma fram og fái tækifæri til skapandi
tjáningar og upplifi það frelsi sem felst í því hreyfa sig í takt við tónlist.
Markmið að börnin
þroski með sér næmi fyrir hrynjanda, hljóðum, hreyfingu og túlkun á tónlist og að þau
æfist í að koma fram. Þau fái tækifæri til
skapandi tjáningar og upplifi það frelsi sem felst í því að hreyfa sig í takt
við tónlist. Öðlist jákvætt viðhorf til tónlistar og læri að njóta hennar
Barnamenning er samofin öllu starfi leikskóla og tengist leik barna, lýðræði, skapandi starfi og þjóðmenningu. Hefðir eru ákveðin menning og tengsl við sögu okkar og fortíð. Í hefðum felst öryggi og oftast eitthvað sem gleður hjartað, það að gera sér dagmun.
- Í leikskóladeildinni er haldið upp á afmæli barnanna enda er þetta stór viðburður í lífi þess. Foreldrar koma með hóflegt magn af veitingum og barnið er í aðalhlutverki þennan dag.
- Síðasta föstudaginn í mánuðinum er sparidagur og þá gerum við okkur dagamund með ýmsu móti.
- Samfella í námi. Elstu börnin fá 1 - 2 kennslustundir í viku með yngstu nemendum grunnskóladeildarinnar allan veturinn. Síðan er ein sameiginleg kennslustund í viku allra nemenda grunn- og leikskóla og kennurum þeirra.
- Jólastundin með foreldrum er í síðustu vikunni fyrir jólafrí. Börnin og starfsfólkið skipuleggja þessa stund.
- Aðventan. Í desember eigum við notalegar og rólegar stundir með börnunum, Jólasöngvar, jólaföndur og síðast en ekki síst er farin kertaferð í Álfaborgina þar sem við kveikum á friðarkertum, einu fyrir hvert barn.
- Elstu börnin taka þátt í að undirbúa dagskrá "litlu jólanna" með grunnskóladeildinni. Einng taka þau þátt í árshátíðarvinnunni.
- Jólahátíðarmatur er snæddur í síðustu vikunni fyrir jólafrí. Þetta er sameiginleg máltíð allra barnanna og starfsmanna grunn- og leikskóla.
- Þorrablót er haldið í byrjun Þorra. Börnin fá að kynnast gömlum hlutum, læra þorralög og borða þorramat.
- Dagur leikskólans er haldin í kringum 6 febrúar. Þessi dagur er haldinn hátíðlegur með grunnskóladeildinni og þá yfirleitt samþáttaður einhverju sem þau eru að vinna að.
- Bolludagur. Boðið er upp á rjómabollur þennan dag.
- Sprengidagur. Saltkjöt og baunir, túkall........
- Öskudagsball. Foreldrafélagið heldur stendur fyrir balli með öllu tilheyrandi s.s. andlitsmálun, leikjum og veitingum. Eftir hádegi fara nemendur grunnskóladeildarinnar í búninga eftir hádegi, ganga í fyrirtæki og syngja Ef foreldrar leikskólabarna vilja geta þeir tekið þátt í þessari göngu með börnum sínum.
- Vorskóli 5 ára barnanna er í apríl og/eða í maí. Þá heimsækja þau grunnskóladeildina og taka þátt í kennslustundum þar í fimm daga.
- Í maí er alltaf farið í sauðburðarferð og einnig heilsað upp á Lundann út í Hafnarhólma.
- Útskrift 5 ára barnanna fer fram á skólaslitum grunnskóladeildarinnar í lok maí.
Margar aðrar hefðir og hátíðir eru í hávegum hafðar í grunnskóladeildinni. Á leikskóladeildinni reynum við að taka eins mikinn þátt í þeim og þroski barnahópsins og aðstæður leyfa hverju sinni. Allar þessar hefðir og hátíðir má sjá á heimsíðunni undir flipanum viðburðir.