-Samþykktir
Fjarbúar Borgarfjarðar eystra - Samþykktir
1.gr.
Félagið heitir Fjarbúar Borgarfjarðar eystra. Heimili þess er Tryggvagata 16, 101 Reykjavík og varnarþing í Reykjavík.
2. gr.
Tilgangur félagsins er að styðja við búsetu, mannlíf og þjónustu í Borgarfirði eystra.
3. gr.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að efla tengsl þeirra sem eiga fasteignir í Borgarfirði eystra (húseignir eða jarðir) en hafa varanlega búsetu utan sveitarfélagsins, virkja þá í verndun umhverfis og náttúru í sveitarfélaginu, styðja við félags- og menningarviðburði og efla hag þess eftir mætti. Félagið mun hvetja félagsmenn til þess að hirða vel um eignir sínar í sveitarfélaginu svo þær megi vera því til prýði.
4. gr.
Félagsaðild er heimil öllum þeim sem uppfylla skilyrði greinar 3, styðja markmið félagsins sem tilgreind eru í grein 2 og samþykkja að greiða árlegt félagsgjald eins og það er ákveðið á aðalfundi hverju sinni.
5. gr.
Starfs- og reikningsskilatímabil félagsins er almanaksárið. Á aðalfundi skal stjórn gera upp starfsemi liðins árs. Aðeins félagsmenn hafa rétt til setu á aðalfundi.
6. gr.
Aðalfund skal halda eigi síðar en 10. apríl ár hvert og skal boða til hans með að minnst tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Einfaldur meirihluti mættra félagsmanna ræður úrslitum mála. Mál sem félagsmenn óska að tekin verði fyrir á aðalfundi skulu senda stjórn félagsins eigi síðar en 15. mars til þess að hægt sé að senda þau félagsmönnum samhliða aðalfundarboði. Einungis er heimilt að taka þau mál til afgreiðslu á aðalfundi sem send hafa verið samhliða aðalfundarboði og koma fram í dagskrá aðalfundar sem er sem hér segir:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
2. Skýrsla stjórnar lögð fram
3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
4. Lagabreytingar
5. Ákvörðun félagsgjalds
6. Kosning stjórnar
7. Kosning tveggja skoðunarmanna ársreiknings
8. Önnur mál
7.gr.
Stjórn félagsins skal skipuð þremur félagsmönnum og tveimur varamönnum, kjörnum á aðalfundi til eins árs í senn. Stjórnin skiptir með sér verkum á fyrsta fundi stjórnar. Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda og heldur utanum félagatal. Formaður boðar til funda. Firmaritun er í höndum stjórnar en gjaldkeri fer með prókúru fyrir hönd félagsins.
8.gr.
Ákvörðun um félagsgjald skal tekin á aðalfundi. Félagsgjöld skulu innheimt árlega. Aðeins skuldlausir félagsmenn hafa atkvæðisrétt á félags- og aðalfundum.
9. gr.
Tekjum félagsins skal einungis varið í samræmi við efni greina 2 og 3 í þessari samþykkt. Félagsmenn njóta ekki fjárhagslegs ávinnings af starfsemi félagsins.
10. gr.
Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi og þarf til þess 2/3 greiddra atkvæða á fundinum. Renna eignir þess til Borgfirðingafélagsins í Reykjavík eða hliðstæðra félagasamtaka sem starfa að hagsmunum Borgarfjarðar eystra og íbúa þar.
Samþykkt á stofnfundi 17. janúar 2019.