Æður

Æður (Somateria mollissima) er ein af algengari andfuglum á Íslandi.  Erlend heiti eru m.a.:  Ederfugl á Dönsku, Ærfugl á norsku, Ejder á sænsku, Eider og Common Eider á ensku, Eiderente á þýsku og Eider á spænsku. Stofnstærð æðarfugls á Íslandi er talinn vera um 200.000-300.000 varppör eða um 930.000 fuglar  yfir veturinn sem gerir hann að langstærsta andastofni landsins.  Æðarfugl er friðaður á Íslandi.  Verpir í hólmum, lágum ströndum og stundum við vötn nálægt sjó.  Æðardúnn er nýttur um mest allt land en stærstu vörpin eru norðvestanlands. Um 3 tonn af æðardúni eru tekin úr vörpunum árlega.  Æður er jafnframt ein af mestu nytjafuglum Íslands.

Í fyrstu svipar ungblikum til kvenfugla en með haustinu fá þeir á sig grásvartan lit og kallast þá veturliðar og eins árs eru blikarnir orðnir flekkóttir og þá um haust grábrúnir og kallast sumarliðar.

Tölur um dúntekju gefa einhverja mynd af varpstofni æðarfugls á Íslandi.  Talið er að eitt kíló af dúni fáist úr um 50-60 hreiðrum.  Samkvæmt því ættu 20 kíló af hreinsuðum dún að fást úr æðarvarpinu í Hafnarhólmanum miðað við að þar séu 1.000-1.200 hreiður núna.  Árið 1990 verptu 2000 æðarpör í Hafnarhólmanum svo að æðarvarp hefur dregist saman líkt og varp annarra fugla þar og reyndar víðar við strendur Íslands.  Víðast hvar hefur æðarvarp dregist saman við austurströndina og í þekktum vörpum hefur dúntekja minnkað samsvarandi.