Skólaárið 2020 - 2021 stunda 5 nemendur nám við grunnskólann. Þeim er kennt að mestu leyti í einum námshóp, 5.- 10. bekk en stigskipt (mið- og elsta) í sumum fögum.
Bekkjarnámskrá skal vera nánari útfærsla á Aðalnámskrá grunnskóla en jafnframt gefur hún kost á að laga fyrirmæli Aðalnámskrár að sérstöðu hvers skóla og staðbundnum aðstæðum, draga þessi sérkenni fram og nýta þau til eflingar námi og kennslu. Aðalnámskrá setur skólum almenn viðmið en það er aftur á móti hvers skóla að útfæra þau nánar í skólanámskrá bæði með tilliti til þess nemendahóps sem stundar nám í skólanum sem og þeirra kennsluhátta sem skólinn aðhyllist
Engin ein kennsluaðferð er árangursríkari en önnur; heldur er árangusríkara að nota fjölbreyttar aðferðir sem henta efninu og markmiðum hverju sinni. Í aldursblönduðum hópum (samkennslu) er gert ráð fyrir mismunandi hæfni og námsaðferðum. Nemendur gera ráð fyrir og hafa vanist því að þeir eru á ólíku getustigi en upplifa sig samt sem áður hluta af hópnum. Það er ljóst að slíkt skipulag kallar á aukna og góða samvinnu milli kennara.
Skólanámskrá tekur viðmið af stefnu skólans um árangur og aðferðir. Því er útinám, samþætting námsgreina, skapandi úrlausnir verkefna, tjáning og framsögn fléttað inn í daglegt skólastarf en einnig hefur skólagerðin og umhverfi áhrif.
Allar kennsluáætlanir geta foreldrar/forráðamenn nálgast með sínu eigin lykilorði á www.mentor.is