Loðmundarfjörður

loðmundarfjörður
(ljósmynd: Salome Hallfreðsdóttir)

Náttúrufar í Loðmundarfirði

Seyðisfjarðarflói liggur milli Álftavíkurtanga í norðri og Dalatanga í suðri. Inn úr flóanum ganga tveir firðir, Loðmundarfjörður og Seyðisfjörður og eru um margt ólíkar náttúrusmíðar. Loðmundarfjörður er um 6 km langur og 3 km breiður, opinn fyrir hafi og nær úthafsaldan óhindruð að söndum í fjarðarbotni. Fjörðurinn hefur stefnu lítið eitt til norðvesturs og inn af honum ganga grösugir dalir með töluverðu undirlendi. Sveitin er frjó og eru ræktunarskilyrði mikil á flestum jörðum fjarðarins. Þessi afskekkta sveit er umgirt háum fjöllum á allar hliðar og liggja helstu leiðir í fjörðinn í gegnum há skörð eða vörp á milli þeirra.

Stærsti dalurinn sem gengur inn úr firðinum er Bárðarstaðadalur, en aðrir minni dalir liggja hærra yfir sjó og mynda hangandi dali við Bárðastaðadal. Landmótun fjarðarins er hægt að rekja beint til framrásar og hörfunar jökla á ísöld, en dalir fjarðarins eru myndaðir við rof skriðjökla og má þar víða sjá jökulgarða sem gefa til kynna stærð jöklanna. Langt inni í Bárðarstaðadal má glöggt sjá forn fjörumörk sem myndast hafa við hærri sjávarstöðu í lok seinustu ísaldar.

Hin gömlu mörk Loðmundarfjarðarhrepps fylgja að mestu vatnaskilum, en við sjó liggja þau að sunnan í Grímkelsgili í Jökli, skammt innan við Borgarnes, en í norðri í Álftavíkurflugum niður af Miðmundaþúfu milli Álftavíkna innri og ytri. Að Loðmundarfjarðarhreppi lágu Seyðisfjörður, Borgarfjarðarhreppur og Eiða- og Hjaltastaðaþinghá. Árið 1973 var hreppurinn sameinaður Borgarfjarðarhreppi.
 Við Orustukamb copy.jpg

Jarðfræði, gróður og veðurfar

Í nágrenni Loðmundarfjarðar er blágrýtismyndunin að minnsta kosti um 1000 m þykk, frá sjávarmáli til hæstu tinda. Stórum hluta Loðmundarfjarðar svipar til landslangs annars staðar á Austfjörðum, þar sem þykkur hraunlagastafli út dökku, basísku bergi myndar regluleg form fjallanna. En þetta á ekki við um allt svæðið í kringum Loðmundarfjörð, því þar er einnig að finna óvenjulega mikið magn af kísilríku og ljósu bergi á yfirborði, á svæði sem er það næststærsta sinnar tegundar hér á landi. Þar er að finna mikið af líparíti og flikrubergi sem gerir svæðið mjög áhugavert jarðfræðilega, enda hefur jarðfræði Loðmundarfjarðar verið töluvert rannsökuð.

Eitt sérkennilegasta jarðfræðifyrirbrigðið í Loðmundarfirði eru án efa Loðmundarfjarðarskriður (einnig nefndar Stakkahlíðarhraun) sem mynduðust við þrjú aðskilin framhlaup eftir síðustu ísöld. Þetta eru ein þau mestu framhlaup sem vitað er um á Íslandi og er vegalengd frá upptökum til enda rúmir 5 km og flatarmál skriðanna um 8 km². Skriðurnar ná niður í dalbotn og upp í hlíðar fjalla sunnan við fjarðarbotn. Þessa miklu útbreiðslu flóðsins má rekja til eðlisléttra og molnunargjarnra berggerða í fjöllum í norðanverðum Loðmundarfirði, auk þess sem hið mikla rúmmál bergfyllunnar ýtti undir útbreiðslu framhlaupanna.

Loðmundarfjörður er einnig þekktur fundarstaður merkilegra steingervinga. Helsti fundarstaður þeirra er í nágrenni Orrustukambs á leiðinni til Borgarfjarðar yfir Kækjuskörð. Í Loðmundarfjarðarskriðum er mikið af biksteini sem áður fyrr var talinn nýtanlegur til vinnslu og útflutnings til Ameríku.

Loðmundarfjörður er grasi vaxin sveit frá fjöru til fjalls. Gróðurfar fjarðarins ber vott um snjóþyngsli og svipar að mörgu leyti til útsveita Norðurlands og Vestfjarða. Flóra fjarðarins er einstaklega fjölbreytt og á svæðinu er fundarstaður ýmissa sjaldgæfra plantna. Á Víknaslóðum finnast víða tegundir sem eru einkennandi fyrir Austurland svo sem bergsteinbrjótur, bláklukka, gullsteinbrjótur, maríuvöttur og sjöstjarna, sem og tegundir sem eru fágætar á landsvísu eins og bláklukkulyng, gullkollur, eggtvíblaðka, súrsmæra, ljósalyng og lyngbúi. Einnig má nefna sjaldgæfa burkna eins og skollakamb og þúsundblaðarós. Alls munu vaxa í Borgarfjaðrarhreppi hátt á þriðja hundrað tegundir blómplantna.

Eins og gróðurfarið gefur til kynna er Loðmundarfjörður mikið vetrarríki og snjóþyngsli geta þar verið mikil eins og í nágrannabyggðum austur á landi. Þurrkáttin er vestan- og suðvestanátt en úrkoma mest í austan- og norðaustanátt. Norðan Fjarðarár, sem rennur eftir dalbotninum, eru mestu snjóþyngslin og þá sérstaklega í nágrenni Klyppstaðar. Jón Austfjörð sóknarprestur lýsir sveitinni árið 1842 sem hinu mesta vetrarríki Austurlands og að hún sem sé þekkt fyrir viðloðandi þoku, votviðrasöm sumur og mikil snjóþyngsli á vetrum. Hafís var algengur á þeim tíma með tilheyrandi kulda og óhagnaði fyrir íbúa fjarðarins.

Byggð og búseta í Loðmundarfirði


Seljamýri í Loðmundarfirði

Í Landnámu segir frá Loðmundi hinum gamla, er fyrstur manna bjó í Loðmundarfirði. Hann kom til Íslands frá Vors í Þulunesi, ásamt Bjólfi fóstbróður sínum, er nam Seyðisfjörð. Loðmundur, sem var álitinn rammgöldróttur, kom að landi í Knarrarvík, innst í firðinum norðanverðum. En ekki hafði þessi fyrsti Loðmfirðingur langa dvöl í firðinum, heldur hélt hann á brott eftir veturlanga dvöl í leit að öndvegissúlum sínum og tók síðar bólfestu í Loðmundarhvammi við Sólheimasand á Suðurlandi. Er Loðmundur réri út fjörðinn í hinsta sinn lagðist hann niður og bað menn sína um að ónáða sig ekki. Nokkru seinna heyðist mikill gnýr í fjarska og sáu menn þá að mikil skriða hljóp úr fjalli fyrir ofan bæ hans og eyddi honum. Eftir það mælti Loðmundur þau orð að ekkert það skip sem myndi róa út þennan fjörð myndi koma heilt aftur.

Lítið er til af áreiðanlegum heimildum um byggð og íbúafjölda í Loðmundarfirði, fremur en úr sambærilegum sveitum landsins á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Aðeins einstaka heimildir hafa fundist um harðindaár, hamfarir og válega atburði í firðinum og er erfitt er að meta áreiðanleika þeirra. Eitt er þó ljóst og óhætt að fullyrða, að lífsbaráttan hefur verið erfið og hörð í Loðmundarfirði, eins og allsstaðar annars staðar á Íslandi fyrr á öldum. Sveitin hefur eflaust ekki farið varhluta af þeim harðindum, plágum og pestum sem gengu yfir Ísland liðinna alda.

Íbúafjöldi í Loðmundarfirði

Það verður að teljast líklegt að í Loðmundarfirði hafi verið búið mestan þann tíma sem land hefur verið í byggð, því sveit þessi fellur vel að þeim búskaparháttum sem Íslendingar stunduðu samfellt þar til samfélagið gekk inn í hið mikla samfélagslega breytingaskeið í lok 19. aldar. Heimildir um byggð fjarðarins og daglegt líf Loðmfirðinga verða sífellt fleiri, skýrari og áreiðanlegri eftir því sem þær færast okkur nær í tíma.

Fyrstu áreiðanlegu tölur um fjölda íbúa í Loðmundarfirði er að finna í fyrsta heildarmanntali sem gert var á Íslandi árið 1703, en þá eru 69 einstaklingar skráðir til heimilis í hreppnum. Árið 1769 eru íbúar Klyppstaðarsóknar í Loðmundarfirði orðnir 88, aðeins einum færri en í Dvergasteinssókn í Seyðisfirði, en 1801 hefur íbúum fækkað niður í 57 íbúa. Íbúafjöldinn eykst síðan jafnt og þétt þar til hann nær sögulegu hámarki árið 1860 þegar 143 íbúar eru skráðir í sókninni. 1870 hefur íbúunum fækkað aftur og eru þá orðnir 121. Það skal ekki fullyrt hér að íbúafjöldinn hafi aldrei farið upp fyrir 143 íbúa, þar sem manntöl voru aðeins tekin á 10 ára fresti á 19. öld, en sóknarmannatöl Klyppstaðarsóknar frá þessum tíma eru að öllum líkindum glötuð.

Þegar seinasti sóknarpresturinn fer frá Klyppstað í Loðmundarfirði árið 1888 var Klyppstaðarsókn þjónað, allt til loka, frá Dvergasteini í Seyðisfirði. Út frá sóknarmannatölum Dvergasteinssóknar, sem varðveitt eru á filmum á Héraðsskjalasafni Ausfirðinga, er hægt að sjá árlega breytingu á íbúafjölda í Loðmundarfirði frá árinu 1888 til 1952. Tölur frá Hagstofu Íslands verða þó notaðar frá 1911 til 1973 til þess að sýna fólksfjöldaþróun fjarðarins á myndinni hér að neðan frá árinu 1888 til loka byggðar.

Íbúafjöldi í Loðmundarfirði

Íbúafjöldi í Loðmundarfirði 1888 – 1973  (Heimild: Hagstofa Íslands 1921, 1928, 1929, 1933, 1938, 1946, 1952, 1963, 1975 & Sóknarmannatöl Klyppstaðarsóknar 1888-1910). Heimildir um mannfjölda vantar frá árunum 1896 og 1902.  Meðaltal áranna fyrir og eftir er notað til þess að áætla um íbúafjölda þau ár.

Eins og úr öðrum sveitarfélögum á Austurlandi þá fluttust fjölmargir íbúar Loðmundarfjarðar vestur um haf til Ameríku í lok 19. aldar og í byrjun þeirrar 20. Úr Loðmundarfjarðarhreppi fluttust 19 einstaklingar, af 4 bæjum, vestur um haf á árunum 1887 – 1903. Mestmegnis var þetta ungt fólk og var meðalaldur þeirra slétt 28 ár og einungis 3 þeirra komnir yfir 35 ára aldur. Það má þó vel vera að þeir Loðmfirðingar sem héldu til vesturheims hafi verið mun fleiri því þetta eru aðeins tölur um þá sem fóru beint úr sveitinni og vestur um haf, en það var algengt á þessum tímum að fólk í sveitum flyttist fyrst til þéttbýlisstaða til þess að vinna sér fyrir fari til Ameríku. Brotthvarf þessa unga fólks hefur eflaust verið mikil blóðtaka fyrir lítið sveitarfélag sem og Loðmundarfjörð. Íbúum í firðinum tekur að fjölga aðeins aftur á árunum 1916-1928  en svo fer aftur að fækka hægt en örugglega. Í raun má segja að endalok einhverskonar samfélags í Loðmundarfirði séu árið 1967, þegar síðustu ábúendurnir fluttu á brott frá Stakkahlíð. Eftir það bjó Kristinn Halldórsson, síðasti Loðmfirðingurinn,  aðeins einn á Sævarenda til ársins 1973.
 
Jarðir í Loðmundarfirði

Jarðir í LoðmundarfirðiÁ
Á myndinni sjást þær 10 jarðir sem lengst voru í byggð í Loðmundarfirði. Ártöl í sviga fyrir neðan bæjanöfnin gefa til kynna síðasta árið sem búið var á jörðunum. Þær voru allar í byggð í upphafi 20. aldar og 9 þeirra árið 1940. Næstu 37 árin detta þær úr ábúð hver af annari, þar til þær allar eru orðnar mannlausar og yfirgefnar.

gamlar jarðir í Loðmundarfirði
Byggðin í firðinum var inn af fjarðarbotni og út með sjónum og þá aðallega við norðurströndina, en undirlendi er þar meira en í bröttum suðurhlíðunum fjarðarins. Tíu jarðir voru lengst af í byggð í firðinum, og yfirleitt er einungis talað um þessar tíu jarðir, en hægt er að finna heimildir um nokkur önnur afbýli og hjáleigur í firðinum sem voru í byggð fyrr á öldum eins og sést á myndinni hér að ofan. Staðsetning bæjarins í Innri-Álftavík er nokkurn vegin þekkt, en um nákvæma staðsetningu annara afbýla er ekki hægt að fullyrða með vissu. Einungis er talað um í heimildum milli hvaða þekktra bæja þessi kot lágu og því ber ekki að taka myndina sem áreiðanlega vísan á nákvæma staðsetningu, heldur aðeins tilraun til að sýna þau býli sem vitað er að hafi verið í Loðmundarfirði og líklega staðsetningu þeirra.

Lífið í firðinum

Loðmundarfjörður var umfram allt landbúnaðarbyggð, en fyrr á tímum sótti hún mikinn styrk til sjósóknar. Sjórinn var stundaður á sumrin og fram á haust og var á aðallega róið út á fjörðinn, út í Seyðisfjarðarflóa eða norður á Víkur. Á 4. áratug síðustu aldar fór sjósókn að dragast saman enda fór afli bátanna minnkandi. Vildu margir meina að grunnmiðin úti fyrir Loðmundarfirði hefðu verið eyðilögð þegar botnvörpuveiðar á togurum voru sem mest stundaðar þar. Nokkrir opnir vélbátar voru í eigu Loðmfirðinga eftir að slíkir bátar komu fram á sjónarsviðið, en um enga verulega útgerð var þó að ræða eftir að tíma árabátanna lauk. 

Þróun í landbúnaði var svipuð í Loðmundarfirði og sambærilegum sveitum austanlands og umbætur í áþekkri tímaröð. Upp úr 1900 voru fyrst gerðar þaksléttur í firðinum, en aðallega voru þær gerðar á árunum 1920-1940. Fyrstu túngirðingar komu á Nesi árið 1907, en á öðrum bæjum síðar og flestar í kringum 1930 ásamt einhverjum hagagirðingum. Af hestaverkfærum kom hestakerran fyrst allra verkfæra í byrjun 20. aldar og skömmu síðar er talið ágætlega fært að öllum innsveitarbæjum frá sjó. Árið 1918 er minnst á hlaðna braut yfir votlendið í Klyppstaðablá, til bæja innar í sveitinni. Önnur hestaverkfæri sem komu í fjörðinn voru notuð m.a. til nýræktar og slátturs, en slíkra véla er getið í búskaparannálum Ness, Stakkahlíðar, Bárðarstaða og á Klyppstað.

Búnaðarfélag Loðmundarfjarðar var stofnað skömmu eftir 1920 en þrátt fyrir að þetta félag hafi verið til ágætis gagns, þ.á.m. sem aðili að Búnaðarsambandi Íslands, þá var það aldrei nein gríðarleg lyftistöng fyrir landbúnað í sveitinni. Loðmfirðingar voru í mörgum málum ekki sammála, og þar á meðal um hvaða skref ætti að stíga varðandi framþróun landbúnaðar í sveitinni. Sumir bændur voru íhaldssamir og kærðu sig lítið um breytingar á meðan aðrir vildu nýta alla þá nýju tækni og þekkingu sem í boði var.

Tími landbúnaðarvélanna kom til Loðmundarfjarðar stuttu eftir 1940 með dráttarvél sem kom á Sævarenda, en skömmu síðar kaupir Búnaðarfélag Loðmundarfjarðar dráttarvél sem var notuð um alla sveit allt til 1960, en auk þess kom dráttarvél í Stakkahlíð á svipuðum tíma. Jarðýta kom fyrst til fjarðarins árið 1961, þegar vegslóði var ruddur yfir Nesháls frá Húsavík, en bíl var þó ekið tveimur árum áður til fjarðarins yfir vegleysur frá Fljótsdalshéraði. Skurðgrafa kom árið 1965 og var notuð til þessa að ræsa fram land í Klyppstaðablá og í landi Stakkahlíðar, en tún þessi voru einungis nýtt af ábúendum í Stakkahlíð tvö sumur þar á eftir. Voru tún í Klyppstaðablá það stór og slétt að þar var vel hægt að lenda litlum flugvélum.

Loðmfirðingar stóðu nokkuð vel þegar kom að húsakosti, en nýjar áherslur í byggingaraðferðum komu nokkuð snemma til Loðmundarfjarðar. Af níu síðustu jörðunum sem voru í byggð voru steinsteypt íbúðarhús á sex þeirra, timburhús á tveimur en aðeins einn hefðbundinn torfbær. Útihús úr steini og blönduðu efni var að finna á Nesi, Sævarenda og Stakkahlíð. Annars voru útihús úr torfi og grjóti en bárujárn oftast notað í þak.

 
Samgöngur og samskipti við umheiminn
 
Samgöngur hafa alla tíð verið örðugar við Loðmundarfjörð, enda er sveitin umgirt háum fjöllum og lendingarskilyrði víðast hvar slæm og hafnaraðstaða engin svo heita megi. Helstu leiðir til fjarðarins liggja yfir há fjöll og skörð til nágrannabyggða, en hægt er að fara sjóleiðina þegar gott er í sjóinn.

Helstu göngu- og reiðleiðir frá Loðmundarfirði lágu til Borgarfjarðar um Kækjuskörð, til Héraðs um Hraundal og Tó, og til Húsavíkur yfir Nesháls þar sem akvegurinn liggur í dag. Enginn vegur liggur út fyrir fjallið milli Seyðisfjarðar og Loðmundarfjarðar, en þar er fært gangandi mönnum þótt þar sé hömrótt og bratt á köflum. Mesti farartálminn á þeirri leið er hamrabelti sem kallast Jökull, en göngugata var lögð þar 1956 eða 1957. Áður var þessi leið mun erfiðari yfirferðar.

Sú leið sem var mest farin á landi til annarra byggðarlaga var yfir hina háu Hjálmárdalsheiði til Seyðisfjarðar en í daglegu tali var talað um að „fara Hjálmu“. Leiðin liggur út eftir suðurströnd fjarðarins frá Sævarenda undir hlíðum fjallsins Gunnhildar og inn Hjálmárdal, en komið er niður í Seyðisfjörð rétt utan við Sunnuholt. Þessi fjallvegur er stuttur en brattur og þá aðallega Seyðisfjarðarmegin. Hann er fær hestum á sumrin, en um 3 tíma ferð er á hestum milli þessara nágrannasveita. Út frá Hjálmu miðri er slóð yfir Árnastaðaskörð en sú leið liggur að innri bæjum Loðmundarfjarðar. Páll Ólafsson skáld lýsir hinni erfiðu Hjálmárdalsheiði skemmtilega í ljóði sem hann sendir kunningja sínum á Seyðisfirði rétt fyrir aldamótin 1900.

Páll Ólafsson
Hvergi heiðarveg ég veit,
verri á Austurlandi,
og þér að segja í þinni sveit,
þá er hann óþolandi.
Þar hef ég vanda verið í,
að villast milli fjarða,
þar eru klettar, klif og dý,
klungur, en engin varða.
                      (Páll Ólafsson)



Sérstök póstleið var um Hjálmárdalsheiði til Borgarfjarðar um Loðmundarfjörð, en pósthirðing var í Stakkahlíð allt frá árinu 1882. Frá Loðmundarfirði til Borgarfjarðar var fyrst farið um Kækjuskörð en síðari ár um Nesháls. Um Hjálmárdalsheiði lágu einnig oft leiðir Borgfirðinga, til og frá Seyðisfirði, en þangað sóttu þeir verslun og aðra þjónustu. Vegna fjarlægðar milli Borgarfjarðar og Seyðisfjarðar, var ekki óalgengt að Borgfirðingar ættu næturdvöl í Loðmundarfirði, og þá aðallega á Sævarenda og í Stakkahlíð. Fyrir kom að þeir væru svo margir á ferð að nokkrum var vísað inn í Úlfsstaði í gistingu því allt var fullt á öðrum bæjum. Mikil og góð samskipti voru á milli þessara nágrannasveita en verslunarviðskipti nær engin. Húsvíkingar voru einnig algengir gestir, þá sérstaklega á bæjum út með norðurströnd fjarðarins. Meðal annars vegna þessara tíðu heimsókna nærsveitunga fannst Loðmfirðingum ekki að þeir byggju við sérstaka einangrun, enda mikill gestagangur þá tíma sem Borgfirðingar og Húsvíkingar sóttu verslun til Seyðisfjarðar. Þeim heimsóknum fækkaði vissulega með aukinni verslun á Borgarfirði og minnkandi fólksfjölda á Víkum. Annars voru Loðmfirðingar lítið að velta sér upp úr þessari einangrun, því þetta var það sem fólk var alið upp við og það þekkti ekkert annað, auk þess sem það var nóg að gera í leik og starfi í firðinum

 Á árunum 1906 til 1909 var gerður út frá Loðmundarfirði 4 tonna vélbátur í félagseign sem var kallaður Loðmundur og var hann aðallega notaður til flutninga til og frá Seyðisfirði. Nokkrir aðrir bátar í eigu Loðmfirðinga voru síðan notaðir til flutninga en eftir það voru ýmsir bátar frá Seyðisfirði notaðir og réðu þá sjóveður og lendingarmöguleikar því hversu reglulegar ferðirnar voru. Strandferðaskipin Hólar og Skálholt komu til einnig til fjarðarins á sínum tíma, en síðustu árin urðu Loðmfirðingar að sætta sig við stopular póstferðir einu sinni í viku frá Seyðisfirði, þ.e.a.s. ef veður og sjólag leyfði.

Akvegur var ekki lagður til fjarðarins fyrr en árið 1961 og liggur sá vegur yfir Nesháls frá Húsavík, en stuttu áður höfðu Húsvíkingar komist í vegasamband við Borgarfjörð. Þessi vegur, eða slóði, kom Loðmfirðingum að litlu sem engu gagni. Hann var engan veginn nógu góður til að flytja aðföng til fjarðarins og lokaður stærstan hluta ársins, ýmist vegna aurbleytu eða fannfergis. Loðmfirðingar sóttu líka alla sína verslun og þjónustu til Seyðisfjarðar, en akstursvegalengdin til Seyðisfjarðar frá Loðmundarfirði yfir Nesháls, um Húsavík, Borgarfjörð og Hérað er tæplega 130 km á vondum og torfærum vegum stóran hluta leiðarinnar.

Það var á haustmánuðum 1959 sem fyrsta bifreiðin kom akandi í fjörðinn, er nokkrir félagar af Fljótsdalshéraði héldu til Loðmundarfjarðar frá Hjartarstöðum í Eiðaþinghá. Keyrðu þeir inn Hraundal Héraðsmegin og niður samnefndan dal í Loðmundarfirði í átt að Stakkahlíð. Þótti þetta mikið afrek á sínum tíma. Til heimferðarinnar var valin önnur leið, en þá var haldið yfir Nesháls í átt til Húsavíkur og Borgarfjarðar.

Lengi vel héldu Loðmfirðingar í vonina um að vegur yrði lagður til fjarðarins út fyrir Brimnes frá Seyðisfirði, en úr því varð aldrei. Risu þessar vonir hæst í kringum fyrirhugað biksteinsnám í firðinum, en um leið og þau áform duttu út af borðinu hvarf einnig umræðan um þennan veg, sem eflaust hefði getað breytt búsetuskilyrðum í ört minnkandi samfélagi Loðmundarfjarðar. Erfiðasti hluti leiðarinnar til vegalagningar var um svo kallaðan Jökul, sem er snarbratt klettabelti við utanverðan Loðmundarfjörð.

Símamál

Sími kom ekki til Loðmundarfjarðar fyrr en árið 1927, þegar 19 km lína var lögð frá Seyðisfjarðarkaupstað, yfir Hjálmárdalsheiði og þaðan til Stakkahlíðar. Loðmfirðingar börðust lengi fyrir því að fá síma til sín og lengi vel leit ekki út fyrir að sími yrði lagður til fjarðarins. Árið 1918 sendir hreppsnefnd Loðmundarfjarðarhrepps Landsímastjóra bréf, og fara fram á það sími verði lagður til fjarðarins um leið og sími yrði lagður til Borgarfjarðar en það var ekki gert. Eftir miklar bréfaskriftir fékkst það loks samþykkt árið 1926 að sími yrði lagður til Loðmundarfjarðar. Rökin sem Loðmfirðingar komu með voru þau að símatenging skipti höfuðmáli fyrir áframhaldandi byggð í firðinum. Síminn myndi rjúfa þá landfræðilegu einangrun sem sveitin bjó við, en Loðmundarfjörður á þessum tíma var ein fárra sveita á Austurlandi sem ekki var hægt að ná símasambandi við. Einnig töldu Loðmfirðingar það mikilvægt fyrir sjávarútveg á Seyðisfirði að geta náð símasambandi við Loðmundarfjörð til að athuga hvernig væri í sjóinn. Þegar skortur var á síld til beitningar komu bátar á Loðmundarfjörð til veiða á beituskel, sem mikið var af í firðinum.

Deilur risu innan sveitarinnar þegar ákveða átti hvar símstöðin yrði staðsett. Ellefu aðilar innan hreppsins sendu Landsímastjóra bréf og skoruðu á hann að stöðin yrði staðsett á Seljamýri en ekki í Stakkahlíð eins og áætlað hafði verið allt frá árinu 1914 þegar fyrstu hugmyndir komu fram um símalagningu til Loðmundarfjarðar. Stefán Baldvinsson í Stakkahlíð ritar Landsímastjóra langt bréf þar sem hann dregur fram kosti þess að hafa símstöðina í Stakkahlíð enda sé sá bær miðsvæðis í firðinum á mótum helstu leiða til og frá firðinum auk þess sem pósthirðing hafi verið þar allt frá árinu 1882. Það var að lokum ákveðið að hafa stöðina í Stakkahlíð og tók hún eins og áður segir til starfa árið 1927. Meirihluti símalínunnar var stálvír sem lagður var á gegndreypta staura en 2,2 km af af línunni var lagður í jörð yfir hábrúnina á Hjálmárdalsheiði.

Mikilvægi símatengingarinnar við Loðmundarfjörð sýndi sig í seinni heimstyrjöldinni. Oftast komu fyrstu fréttir til Seyðisfjarðar af ferðum þýskra flugvéla frá símstöðinni í Stakkahlíð og var þá þess skammt að bíða að loftvarnarbyssur létu til sín heyra.

Árið 1945 var haldinn almennur fundur bænda í Loðmundarfirði og Húsavík þar sem kannaður var áhugi á því að fá síma lagðan um byggðina. Samþykktu allir fundarmenn að óskað yrði eftir því að síminn yrði lagður. Bændur samþykktu einnig að taka að sér að grafa fyrir símanum og að leggja hann. Sveitasíminn var tekinn í notkun árið 1947 á þeim bæjum sem þá voru ennþá í byggð.
 
Verslun

Á tímum einokunarinnar sóttu Loðmfirðingar verslun til Stóru Breiðavíkur í Helgustaðarhreppi og til Eskifjarðar, en aðeins til Seyðisfjarðar eftir miðja 19. öld þegar verslun þar fór að aukast. Aðalverslunarleið Loðmfirðinga var sjóleiðin, en til Seyðisfjarðar var um 4 klukkustunda róður frá Stakkahlíðarlendingu.   

Verslun var aldrei starfrækt að neinu ráði í Loðmundarfirði, en skömmu eftir að Kaupfélag Austfjarða var stofnað á Seyðisfirði þann 24. apríl árið 1920 var lítilsháttar vörudreifing á Seljamýri. Að stofnun Kaupfélagsins stóðu aðilar úr Mjóafirði, Seyðisfirði og Loðmundarfirði, en aðalstarfsemin var á Seyðisfirði. Strax á fyrsta starfsári keypti Loðmundarfjarðardeild félagsins lítinn bát til uppskipunar á vörum. Loðmfirðingar börðust lengi fyrir því að Kaupfélag Austfjarða myndi kosta byggingu á skemmu við Seljamýri fyrir helstu nauðsynjavörur, enda myndi slík bygging auðvelda alla verslun fyrir fjarðarbúa og tryggja nokkurra mánaða birgðir af nauðsynjavöru í firðinum. Áskorun þess efnis til stjórnar kaupfélagsins kemur fram í fundargerðarbók Loðmundarfjarðardeildar Kaupfélags Austfjarða árin 1940, 1942, 1943 og 1944 en lítið virðist hafa borið á þessari byggingu. Töldu þeir þetta mikilvægt mál fyrir byggðina, sérstaklega með tilliti til hins ískyggilega stríðsástands sem var á þeim tíma, en árangurinn af þessum áskorunum virðist hafa verið lítill.

Menning og menntun

Lestrarfélag Loðmundarfjarðar

3. desember árið 1849 var stofnað Lestrarfélag Klyppstaðarsóknar í Loðmundarfirði af 16 aðilum og var séra Jón Austfjörð kosinn umsjónarmaður með bókakosti félagsins. Stofnfélagar gáfu bækur til safnsins í byrjun en á næstu árum voru keyptar bækur, tímarit og blöð. Félagið starfaði með miklum krafti á köflum en inn á milli komu tímabil þar sem nokkur ár gátu liðið á milli funda. Árið 1897 kom upp tillaga um að hreppurinn tæki við starfsemi félagsins og var það samþykkt. Bókavörður skipaður af hreppsnefnd sá um bókakaup og útlán bóka upp frá því. Allir sem greiddu útsvar til hreppsins áttu rétt á að fá lesefni að láni frá bókasafninu.
 
Framfarafélag Loðmundarfjarðar

Merkilegt félag var stofnað í Loðmundarfirði á nýársdag árið 1880 og hlaut það nafnið Framfarafélag Loðmundarfjarðar. Markmið félagsins var í fyrstu var aðeins eitt, að hvetja og styrkja ungmenni innan sveitarinar til menntunnar. Í stofnunarskrá félagsins segir:

„Það hefur lengi vakað yfir oss, hversu nauðsynlegt það er öllum börnum og unglingum að fá reglulega menntun í æsku, til þess að geta því fremur staðið vel í hverri stöðu,  sem þeim hlotnast í lífinu. Vér höfum séð þess dagleg dæmi, hversu margur unglingur verður að fara á mis við nauðsynlega menntun, vegna efnaskorts foreldra og vandamanna, sem annast uppeldi þeirra. Af þessum ástæðum kom oss ásamt að gangast fyrir stofnun félags í sveit þessari, sem hefði þann tilgang að safna fé, er á sínu tíma verði varið til eflingar menntunar æskulýðs í Loðmundarfirði. Vér viljum með stofnunarskrá þessari skipa fyrir um meðferð og notkun á sjóði félagsins, sem vér vonum að vaxi svo með tímanum, að tilgangi félagsins verði náð... Vér felum svo sveitamönnum í Loðmundarfirði félag þetta, er vér viljum nefna „Framfarafélag“ með þeirri ósk og von að það eflist og aukist sveit þessari til gagns og sóma á ókomnum tímum. Vér erum þess fullviss að verði félaginu fram haldið með jafn góðum hug og einlægum vilja, sem vér höfum haft við stofnun þess, þá muni þessir vísir geta þróast og með tímanum borið heillaríka ávexti fyrir sveitarfélagið.“


Í þessari stofnskrá félagsins sést greinilega hver undirstaða og grundvallarskilyrði framfara voru að mati stofnenda þess, en það er menntun ungviðis sveitarinnar. Félagið leitaðist við að styrkja heimili til þess að halda kennara og útdeildi styrkjum til þeirra ungmenna er sóttu nám utan fjarðarins. Félagið féll vel að félagsmálamöguleikum í fámennri sveit. Það kom á vissan hátt í stað ungmennafélaga og kvenfélaga í öðrum sveitum og var félag allra íbúa sveitarinnar, ungra sem aldinna. Félagið aflaði tekna m.a. með samkomuhaldi, happdrætti og bögglauppboði, auk þess sem félagsmenn komu saman og heyjuðu, seldu heyið og létu ágóðann renna í sjóði félagsins. Á síðari árum félagsins komu félagsmenn einnig saman og heyjuðu fyrir fáliðaða og efnalitla sveitunga sína.

Einn af stofnendum Framfarafélagsins var Arnbjörg Stefánsdóttir frá Stakkahlíð. Arnbjörg fór sem ung kona til Skandinavíu og dvaldist þar í nokkur ár. Á þessum árum kynntist hún menningar- og menntunarmálum þessara frændþjóða okkar og varð þess áskynja hversu aftarlega Íslendingar voru í fylkingu menningarþjóða. Við heimkomuna var hún staðráðin í því að gera sitt til að hvetja ungviði heimasveitarinnar til menntunar, menningar og manndóms. Arnbjörg lagði drjúga fjármuni til framfarafélagsins og var einn af aðaldrifkröftum þess á fyrstu starfsárunum eða þangað til að hún flutti til Seyðisfjarðar árið 1897. Tilgangurinn með þessum skemmtunum var aðallega að afla fjár, en ekki síður að efla samkennd og létta lund fjarðarbúa.

En Framfarafélagið stóð ekki aðeins fyrir fjáröflunum, skemmtanahaldi og eflingu menntunar ungviðisins, því einnig voru haldnir reglulegir málfundir á vegum félagsins. Framfarafélag Loðmundarfjarðar var starfandi allt til ársins 1948, en á þeim tíma voru Loðmfirðingar orðnir fáir og því sífellt erfiðara að halda úti öflugri félagsstarfsemi.

Menntamál

Á fyrri hluta 19. aldar fór nánast allt nám barna á Íslandi fram á heimilum og var fólgið að mestu í lestri og kristindómi. Prestar litu eftir því að börnum yrði kennt að lesa og bjuggu þau undir fermingu. Meginmarkmið lestrarkennslunnar var að gera börnum mögulegt að lesa guðsorð. Hinar samfélagslegu breytingar í lok 19. aldar höfðu mikil áhrif á menntamál í landinu. Árið 1907 voru sett fræðslulög sem gerðu ráð fyrir því að heimilin veittu börnum undirstöðukennslu í lestri og skrift að 10 ára aldri, en eftir þann aldur voru börn send í skóla og var skylt að sitja í honum til 14 ára aldurs. Árlegur námstími barna í bæjum var 6 mánuðir en í farskólum a.m.k. 2 mánuðir á ári. Þetta fyrirkomulag varð lífseigt og um langan aldur var þetta algengasta fyrirkomulagið í sveitum landsins.

Áður en fyrsti fastráðni kennarinn tók til starfa við Farskólann í Loðmundarfjarðarskólahéraði var algengt að heimiliskennarar væru ráðnir á bæi. Framfarafélag Loðmundarfjarðar skipti miklu máli í ráðningu þessara kennara, því hægt var að sækja um styrk til félagsins til þess að halda úti kennslu handa börnum í sveitinni.  Námstyrkir Framfarafélagsins voru í boði fyrir ungmenni sveitarinnar löngu eftir að farskólinn tók til starfa, auk þess sem félagið styrkti áfram ungmenni til náms utan sveitarinnar. Gunnlaugur Jónasson var fyrsti fastráðni kennarinn sem starfaði við Farskólann í Loðmundarfjarðarskólahéraði og tók hann til starfa árið 1913. Kennslan bar þess alla tíð merki hve fáir nemendur voru við skólann og oft komu eyður í kennsluna sökum þess. Einn þekktasti kennarinn sem starfaði við farskólann var án efa Ísak Jónsson frá Seljamýri sem síðar stofnaði skóla Ísaks Jónssonar í Reykjavík, en hann kenndi við skólann veturinn 1919–1920.

Í reglugerð Farskólans í Loðmundarfjarðarskólahéraði eru markmiðum og reglum skólans vel lýst. Skólanum var heimilt að taka inn börn til kennslu frá 8 ára aldri svo lengi sem þau bæru ekki neinn sjúkdóm sem gæti skaðað aðra nemendur. Ef börn yngri en 8 ára sýndu fram á afburðakunnáttu mátti veita undanþágu á þessum aldursmörkum. Skólanefnd ákvað í samráði við kennara og sóknarprest hvaða bækur væru teknar til kennslu hverju sinni. Kennslunni var ætlað að byrja dag hvern með sálmasöng og enda með söng á ættjarðarljóðum. Kennara var skylt að vera fyrirmynd, ekki aðeins við skólaborðið heldur einnig í daglegri framkomu með reglusemi, stundvísi, sparsemi og hverskonar góðu framferði. Síðasti kennari í Loðmundarfirði var Margrét Ívarsdóttir húsfreyja á Sævarenda, en kennslu lauk í Loðmundarfirði þegar hún flutti ásamt fjölskyldu sinni á brott árið 1963. Eftir þann tíma urðu börn, allt niður í 10 ára aldur, að sækja skóla í öðrum sveitarfélögum og hefðbundið fjölskyldumynstur var því úr sögunni fyrir Loðmfirðinga. Ekki liðu nema 4 ár þangað til að seinasta fjölskyldan fluttist á brott, að miklu leyti útaf þessum breyttu aðstæðum á möguleikum barna til grunnmenntunar.

Klyppstaðarsókn

Klyppstaðarkrikja í Loðmundarfirði

Alls er kunnugt um 11 sóknarpresta og 2 aðstoðarpresta í Klyppstaðarsókn Sá fyrsti þeirra var á staðnum á ofanverðri 16. öld en vitað er að kirkja var á Klyppstað strax á fyrstu öldum kristni á Íslandi. Elsta heimildin um kirkju í Loðmundarfirði er frá árinu 1367, þegar Oddur biskup Þorsteinsson vígði kirkju að Klyppstað sem helguð var Maríu mey. Er þá einnig talað um að tvö bænahús tilheyri kirkjunni, eitt á Nesi en hitt líklega staðsett á Hjálmárströnd. Frá árinu 1888 var Klyppstaðarsókn þjónað frá Dvergasteinsprestakalli í Seyðisfirði, en Húsavíkurkirkja sem tilheyrði Klyppstaðarsókn var eftir það þjónað frá Desjarmýrarprestakalli í Borgarfirði.

Lítil og snotur kirkja stendur enn við Klyppstað í Loðmundarfirði sem þögull minnisvarði um horfið mannlíf fjarðarins. Hún var vígð á jóladag 1895 af séra Birni Þorlákssyni á Dvergasteini, sem þjónaði kirkjunni fyrstu árin.

Niðurstöður og umræður

Íbúaþróun og örlög sveitarinnar í Loðmundarfirði virðast í einu og öllu fylgja þeim miklu samfélagslegu breytingum sem íslenskt samfélag sigldi inn í undir lok 19. aldar. Út frá fólksfjöldatölum hreppsins sést að íbúafjöldi sveitarinnar var í hámarki á þeim tíma sem uppgangur og fólksfjöldi var hvað mestur í íslenskum landbúnaðarsveitum og því má gera ráð fyrir að hún hafi einfaldlega ekki rúmað fleiri íbúa miðað við búnaðarhætti þess tíma. Sveitin missti, eins og aðrar sveitir á Austurlandi, mikið af fólki vestur um haf og til annarra sveitarfélaga. Það má sterklega gera ráð fyrir því að Seyðisfjörður hafi laðað margan Loðmfirðinginn til sín með von um bætt lífskilyrði og tekjumöguleika á tímum uppvaxtarins þar.

Loðmundarfjarðarhreppur fór í gegnum sambærilegt fólksfækkunarferli og aðrar strjálbýlisbyggðir á Íslandi og á svipuðum tíma, svo þessi þróun er ekkert einsdæmi fyrir þessa sveit. Aðrar sveitir, einagraðar af náttúrunar hendi, máttu sín einnig lítils gagnvart þéttbýlinu og þeim tækifærum sem löðuðu nýja íbúa þangað í leit að betra lífi. Með minnkandi fólksfjölda verður allt líf þeirra sem eftir eru erfiðara og flóknara. Færri eru til smalamennsku og almennrar vinnu við búskapinn auk þess sem þjónusta minnkar við þá sem eftir eru. Sundrung heimilisins, sem ósjálfráða lítur dagsins ljós þegar ekki er lengur mögulegt að halda úti kennslu fyrir þau fáu börn sem eftir eru, leiðir til þess að fólk flyst á brott til að geta boðið börnum sínum viðunandi lífskjör. Þetta á a.m.k við um seinustu fjölskylduna sem flyst á brott úr Loðmundarfirði.

Það er lengi hægt að velta því fyrir sér hvort eitthvað hafi verið hægt að gera til þess að bjarga byggð í Loðmundarfirði, en það verða aldrei meira en vangaveltur. Líklegt má þó telja að með bættum samgöngum við Seyðisfjörð, annað hvort á landi eða sjó, hefðu búsetuskilyrðin breyst mikið með auðveldari flutningi aðfanga og varnings til og frá firðinum. Með bættri hafnaraðstöðu hefði eflaust verið hægt að byggja upp sjávarútveg í firðinum með tilheyrandi umsvifum og mögulegri þéttbýlismyndun. Hugmyndir um góða höfn og heilsársveg voru komnar langt á leið í umræðunni um nýtingu perlusteins í Stakkahlíðarhrauni, en þær urðu aldrei að veruleika.
Út frá þeim heimildum sem fundist hafa er ljóst að Loðmfirðingar voru vel meðvitaðir um þessa þróun og þeir reyndu margir hverjir til að sporna gegn henni en ef til vill var það töpuð orrusta allt frá upphafi.

Ástæðurnar fyrir því að fjörðurinn fór í eyði má ekki rekja til þess að Loðmundarfjörður hafi hentað illa til búskapar. Þvert á móti virðist hann hafa hentað að flestu leyti vel til landbúnaðar. Samfélagið var einfaldlega að breytast og landsmenn sóttu í auknum mæli til þéttbýlisstaðanna í leit að menntun og nýjum tækifærum. Nú er allt orðið hljótt í Loðmundarfirði og aðeins örfá hús, tóftir og önnur mannvirki minna á tíma mannlífs og blómlegrar byggðar þar.
Á undanförnum árum hefur Loðmundarfjörður öðlast nýtt gildi og er hann orðinn vinsæll áfangastaður göngufólks og annarra ferðalanga. Fyrir um 10 árum var vegurinn til fjarðarins frá Borgarfirði lagaður og er þangað fært jeppum síðari hluta sumars. Kyrrðin er einstök og náttúran lætur engan ósnortinn sem leggur leið sína í fjörðinn. Helstu verðmæti Loðmundarfjarðar felast í dag í náttúrunni og kyrrðinni. Ef til vill væri ekki eins fallegt og friðsælt að lítast um í firðinum í dag ef vegur skæri landið út fyrir Borgarnes, stór höfn væri fyrir fjarðarbotni og stórar opnar perlusteinsnámur og mannvirki þeim tengdum blöstu við í Stakkahlíðarhrauni. Ólíklegt verður að teljast að í Loðmundarfirði muni aftur komast á fót föst búseta en einhvern tímann hefði það þótt sérkennilegt að láta slíka kostasveit liggja í eyði.