Um Gunnar Þiðrandabana
14. kafli
Þess er getið eitt sumar að skip kom af hafi í Gautavík í Berufirði. Skipi þessu fylgdu þrænskir menn og
vistuðust hér um veturinn.
Á því sama vori eftir vetur afliðinn beiddi Þiðrandi Geitisson fóstra sinn fararefna: "Vil eg kynna mér siðu annarra manna."
Hróar svarar: "Það þykir mér mikið ef þú vilt fara af landi í burt því að eg gerist mjög hrumur af elli og veit eg eigi
hvort þú kemur aftur. En allt að einu þá skal eg sæma þig að því sem eg hefi föng á. En biðja vil eg að þú
komir sem fyrst aftur. En þú munt ráða."
Hróar Tungugoði fékk Þiðranda mikið fé. Honum þótti mikið er þeir skildu og öllum þótti mikil hans fráför.
Réðst Þiðrandi til ferðar og fer suður yfir heiði, ræður sig í skip, fer utan um sumarið. Þeim byrjaði vel og skjótt. Þeir
komu skipinu í Þrándheim í Niðarós. Þá réð Hákon hinn ríki fyrir Noregi. Hann hafði aðsetu að Hlöðum.
Þá sýndist hverja menning Þiðrandi hafði hlotið því að öllum mönnum fundust orð um að eigi hefði
þvílíkur maður komið í manna minnum sem Þiðrandi var. Hann fer á fund Hákonar jarls. Jarl tók við honum vel og setti hann
í hásæti hjá sér og veitir honum af mikilli blíðu um veturinn. Hann virti öngvan sinna manna jafnan Þiðranda. Þeir töluðu
löngum. Þiðrandi sýndi slíkt af sér að unni honum hver maður hugástum. En er vor kom þá beiddi Þiðrandi sér
fararleyfis út til Íslands.
Jarl spurði hví hann vildi svo litla stund dvelja við þar "því að eg ann þér hér allvel vistar. Hefur hér enginn sá maður
komið að mér þyki svo mikil eftirsjá að sem um þig ef þú ferð á burt."
"Vel hefur þú til mín gert þessa stund en þó má eg eigi nýta að vera hér lengur því að eg ann móður minni
svo mikið að eg hlýt að fara nú fyrst. Má yður það segja því að eru þar enn þeir menn að létu sem best
þætti að eg kæmi fyrr aftur en síðar."
Jarl svarar: "Svo skal nú vera."
Þiðrandi kaupir sér skip og lætur í koma mikið fé. Hann þiggur af jarli góðar gjafir. Eftir það láta þeir úr
landfestum og sigla í haf. Það hafa margir menn fyrir satt að Þiðrandi hafi ónýtt skaplyndi jarls fyrir sumar greinir og vildi af því eigi
lengur vera með honum.
Þiðrandi fékk það sumar góða byri og kom skipi sínu í Skálavík í Vopnafirði og bar af skipinu og flutti heim varninginn.
Eftir það býr hann um skipið og setur upp. Hann fór heim í Krossavík. Þar var tekið við honum forkunnar vel og með allri blíðu.
Verður þar og fagnafundur mikill með þeim Þiðranda og Hróari.
Hann er þar fáar nætur áður en Hróar lýsir því að hann vill að Þiðrandi fari austur með honum til eigna sinna og
ríkis "því að eg má eigi annað en vera ásamt við Þiðranda, svo ann eg honum mikið, og hver stund þykir mér löng ef hann
er eigi hjá mér."
Þiðrandi segir að það skuli þegar vera er hann vildi "því að eg vil þess njóta meðan kostur er."
Býr Þiðrandi ferð sína, fer með Hróari austur til Hofs í Hróarstungu. Urðu frændur hans honum fegnir þar sem þeir komu
í Vopnafirði. Allir frændur Þiðranda sýndu á sér mikinn feginsþokka er hann var aftur kominn með virðingu.
Ketill þrymur sendi orð Þiðranda systursyni sínum að hann skuli koma í Njarðvík til heimboðs og segir að hann skuli eigi til einskis fara
"því að hann er sá einn minna frænda að mér er mest aufúsa að eiga mart við og gott."
Þiðrandi heitir ferðinni er á liði sumarið og heyverkum er lokið en kvaðst eigi tóm eiga að því að hann hafði fyrr heitið
öðrum. Ketill segir að Þiðranda færi vel.
15. kafli
Maður hét Ásbjörn. Hann var sunnlenskur og þá nýkominn í Fljótsdalshérað. Hann var fæðingi
suður í Flóa. Hann fór þaðan austur á Rangárvöllu, þá austur á Síðu og léttir eigi fyrr en hann kemur
austur í Fljótsdal. Hann tekur sér þar vist. Ásbjörn var mikill maður vexti, dökkur á hárslit, ljótur í andliti og heldur
óþokkulegur. Þó slægði marga menn til að taka við honum því að hann var garðlagsmaður svo mikill að enginn lagði lag
við hann. Ásbjörn átti viðnefni og var kallaður vegghamar. Ásbjörn hafði verið fimm vetur í Fljótsdalshéraði er þetta
varð til tíðinda og hafði lagið garða um tún manna og svo merkigarða. Ásbjörn var svo mikill meistari á garðlag að það er
til marks að þeir garðar standa enn í Austfjörðum er hann hefur reista.
Þorbjörn hét maður. Hann var kallaður kórekur. Hann bjó á þeim bæ í Fljótsdalshéraði er heitir á
Kóreksstöðum fyrir austan Lagarfljót. Það er í Útmannasveit við hin eystri fjöll. Þorbjörn átti sér konu. Hún
var skyld þeim Njarðvíkingum. Hann átti tvo sonu. Hét annar Gunnsteinn en Þorkell hinn yngri. Þorkell var þá átján vetra en
Gunnsteinn hafði tvo vetur um tvítugt. Þeir voru báðir miklir menn og sterkir og allvasklegir. En Þorbjörn var nú gamlaður mjög. Hafði
Ásbjörn vegghamar verið þar tvo vetur og grætt fé nokkuð en á hinum þriðja vetri gerir hann bú því að hann átti
ólétta konu. Átti hann áður nokkur börn. Hann leigir land þar fyrir utan læk það er nú heitir á Hlaupandastöðum en
þá að Sauðlæk. Hann var þar ein misseri. Honum varð illt til fjár og varð óhægt búið.
Á þessu sumri gerir Ásbjörn vegghamar heimanferð sína út í Njarðvík á fund Ketils og bað að hann mundi taka við honum
til húskarls. Ketill spyr hví hann vill eigi búa lengur. Honum kvað þykja óefnilegt að búa við óhægindi mikil.
Ketill svarar: "Of liðmargur þykir mér þú vera."
Ásbjörn kvaðst ekki fleirum leita vistar en sér einum, lést annað mundu sjá fyrir liði sínu. Ketill spyr hvað hann ætlar að
sjá fyrir liðinu.
Hann kvaðst ætla að hlaupa burt frá "og hingað til þín því að eg ætla að mér sé lítill ágangur veittur
fyrir ríki þínu. Mun eg konuna láta kjalast við börnin."
Ketill svarar: "Það hafði eg oft ætlað að taka við þér. Mun eg gera þér á kost. Þú skalt gera garð ofan úr
fjalli undan hömrum og út í sjó. Þetta skaltu vinna til tveggja missera vistar."
Ásbjörn kvaðst ætla að hann mundi þetta fá fullvel unnið "munum við þessu kaupa en þú skalt sitja fyrir að eigi sé fylgt
á hann."
Ketill játar þessu. Síðan gerir hann ferð sína upp yfir heiði, fer eftir rekkjuklæðum sínum en þar hleypur hann frá liðinu og
skyldi af því heita á Hlaupandastöðum. Þá tóku þeir á Kóreksstöðum við ómegð hans en misstu landsleigu
sinnar við hann og sátu fyrir öllum vandkvæðum.
Ásbjörn tekur til garðlags út í Njarðvík ofan úr fjalli. Hann vinnur mikil verk á um sumarið en ekki hefur hann venjubrigði í
skapsmunum því að öllum líkaði illa við hann nema Katli einum.
16. kafli
Á sjöundu viku sumars býr Þiðrandi heimanferð sína. Hann ríður við hinn sjöunda mann út með
Lagarfljóti og ofan eftir Hróarstungu og þar yfir fljótið er heitir að Bakkavaði, ríða út eftir héraði og koma um kvöldið
á Kóreksstaði til Þorbjarnar. Þorbjörn gekk á móti þeim Þiðranda og synir hans með mikilli blíðu og bauð honum
þar að vera svo lengi sem hann vildi. Hann var þar þessa nótt og gera þeir til hans ágæta vel. Þeir bræður báðu
Þiðranda að hann mundi vilja fara út til Njarðvíkur og biðja Ketil að hann léti lausan Ásbjörn en gyldi þó sumarkaup eða
ella tæki hann við liði sínu.
Þiðrandi kvaðst skyldur að leggja orð til "en eigi nenni eg að ríðast í meira þar er Ketill frændi minn er til annarrar handar."
Þeir segja að þeim þætti það vorkunn.
Eftir nóttina afliðna búast þeir til ferðar tuttugu saman. Þeir ríða út yfir Ós og ofan í heiði þar er heitir
Gönguskarð í víkinni. Var þá miður aftann er þeir komu í víkina. Þá var fátt manna heima. Þá var eigi
lokið heyverkum en þar var heyland mikið. Var mannfólk á verknaði en Ketill var einn heima karlmanna og konur nokkrar. Ketill sat í skála.
Nú var sagt í þann mund kæmi að honum skjálfti, sem jafnan var vant, að hann hrökk af fótum upp svo að gnötraði í honum hver
tönn. Honum var og sá hrollur sem vatni væri ausið milli skinns og hörunds. Þá mælti hann við konu eina að gera skyldi eld fyrir honum og vildi
hann bakast. Hann kastaði undir sig gæru einni. Ketill bakast við eldinn.
En Þiðrandi og hans menn ríða ofan eftir víkinni. Og er þeir koma á víkina mjög að bænum þá sjá þeir að
maður var upp í hlíðinni að garðlagi. Hann var í grám kyrtli. Hann hafði hneppt upp blöðunum á axlir en lykkjurnar héngu
niður að hliðunum og í hvítum torfstakki yfir utan. Hann hafði drepið á höfuð sér hött. Þeir kenna þennan mann að
þar var Ásbjörn vegghamar. Hann kveður þá ekki. Þeir ríða svo ofan með garðinum. Mæltu hvorugir við aðra.
Þá ríður Gunnsteinn Kóreksson ofan að Þiðranda og mælti: "Allvænlega lætur sjá maður. Muntu leyfa mér að eg taki
geirnagla úr spjóti mínu og taki af spjótið af skaftinu og skjóti til hans og viti hversu hann verður við."
Þiðrandi mælti: "Gerðu það eigi því að það er fornt mál að oft hlýst illt af illum og vil eg eigi að þú
eigir við hann."
Þá snýr hann í halaferðina og af götunni. Þá tekur hann úr geirnaglann úr spjótinu og skaut til hans með hlátri
miklum. En er Ásbjörn sér að spjótið fer að honum þá hleypur hann upp við. Skotið kom í kyrtilsblaðið og í lykkjuna og
svo út í blautan garðinn og svo að hann fellur út af garðinum. Hann sprettur upp skjótt og tekur spjótið og kastar niður en hann hleypur upp
á garðinn og þegar inn yfir. Hann tekur þegar skeið heim til bæjar. En þegar er hann kemur í túnið þá hleypur hann í
eldaskálann þar er Ketill bakast. Hann kastar sér upp í sætið gegnt eldinum. Ketill spyr hvað honum væri.
Hann svarar: "Vant er að vita hverjum vér skulum fagna. Ætlaði eg á vori er eg réðist hingað að eg mundi eigi barður til meiðinga eða
með öllu til bana. Eru þeir komnir hér Kórekssynir. Hefir Gunnsteinn skotið spjóti undir hönd mér og kom út undir annarri. Nú
ætlaði eg að eg mundi hafa heimsótt höfðingja er þér eruð. En eg sé að enginn er í þér dugur að þér
rekið aldregi vorra harma þó að oss séu skammir gervar."
Ásbjörn hafði hátt raddarlag og sárlegt andarlag.
Ketill hleypur upp við bræði mikla. Hann þrífur ullskyrtu sína og kemst í en áður í brókum leistalausum. Voru ilbönd undir
neðan. Ei höfðu menn þá línbrækur í það mund. Ketill gengur þá þegjandi utar eftir eldhúsinu svo að alla vega
hrauð eldurinn um hann. Hann gengur utar til lokrekkju þeirrar er hann var vanur að sofa, tekur ofan hjálm og setur á höfuð sér og sverð í
hönd sér, setur skjöld fyrir sig.
Eftir það snýr hann út með brugðið sverðið en kastar eftir umgjörðinni. En í því er hann kom í tún
þá ríður Þiðrandi í túnið og hans menn. Ketill snýr þegar að Þiðranda og höggur til hans með sverðinu.
Þiðranda bar svo nær höggið að hann sá eigi ráðrúm til að skjóta fyrir sig skildinum. Hann hneppir sig aftur úr
söðlinum og kemur standandi niður. En Ketill stöðvar ekki höggið að heldur. Þá riðu menn mjög í standsöðlum smeltum. Ketill
höggur um endilangan söðulinn og tekur í sundur bogana báða og hestinn undir söðlinum. Ketill höggur þegar annað sinn til Þiðranda.
Hann kemur þá skildi fyrir sig. Ketill klýfur þá skjöldinn fyrir utan mundriða svo að sverðið nam í vellinum stað.
Konur þær er á bænum voru hlupu út þangað er menn voru á verki. Annar bær stóð þá í víkinni sá er
að Virkihúsum heitir. Þangað hlupu sumar konur því að þar voru enn karlar nokkrir. Fóru þeir þangað. Þeir urðu alls
tuttugu menn.
Þiðrandi mælti við menn sína að enginn skyldi bera vopn á Ketil "en ef nokkur gerir öðruvísu en eg mæli fyrir þá mun eg bera
vopn á hann þó að hann sé af mínum mönnum."
Eftir þetta biður Þiðrandi Ketil frænda sinn allra samninga "hef eg hér aðrar viðtökur en eg hugði til og ef nokkuð er það í
orðið vorum ferðum að yður þykir málþarfa þá vil eg bótum upp halda svo að þér þyki sæmd í. Nú
með því að þú vilt einskis mín orð meta þá láttu mig njóta móður minnar en systur þinnar og er meiri
ábyrgðarhlutur að halda þessu fram sem nú hefur þú upp tekið."
Ketill þegir við ávallt en Þiðrandi biður hann vægðar einart. Ketill lætur sem enginn væri annar, en Ketill sækir hann í
ákafa.
Þiðrandi mælti: "Hví er nú eigi vel að nú vinni maður það er má annað? En enginn maður skal bera vopn á Ketil
því að hann mun sefast brátt. En eigi bið eg að þér drepið menn hans."
Sem þeir mega þá gera þeir svo. Þá hörfa þeir suður eftir túninu. Tekur nú að líða aftanin mjög og lægir
sólina en hross þeirra voru hér og hvar því að þar hleypur hver af hestum sínum sem kominn var. Þá ber suður eftir vellinum, allt
til þess er þeir koma að læk þeim er fellur fyrir utan garð þann sem liggur fyrir neðan hlaðið. Þá stingur Þiðrandi fram
blóðreflinum og hleypur öfugur yfir lækinn. Þá var höggvinn af Þiðranda skjöldurinn allur svo að enginn spónn var eftir nema
það er mundriðanum fylgdi. Í þessu höggur Ketill til Þiðranda og kemur á öxlina hægri og leysir frá herðarblaðið svo
að sá inn í lungun. Þiðrandi hljóp þá ofan yfir lækinn, tekur sverðið hinni vinstri hendi og höggur til Ketils og í gegnum
hann. Ketill fellur þá dauður til jarðar en Þiðrandi gengur suður yfir lækinn og að þúfu þeirri er stendur fyrir neðan götuna
er nú heitir Þiðrandaþúfa. Hann sest þar niður. Þá stóð ekki fleiri manna upp en þeir Kórekssynir, Þorkell og
Gunnsteinn. Allir voru fallnir aðrir menn Þiðranda. Þeir Kórekssynir settust þá niður hjá honum á sína hönd hvor. Þeir voru
þá móðir mjög. Menn Ketils styrmdu yfir honum og huldu hræ hans. Eftir það gengu þeir heim vígmóðir og þó margir
sárir.
Nú tekur Þiðrandi til orða: "Svo jafnt Gunnsteinn, hversu þykir þér að fara? Hvað mun nú tjá að lasta það er orðið
er? En farið hefur betur að hér megið þér sjá nú hversu einræðið kann að gefast en ekki tjáir nú að
ávíta þig. En hvað hefir þú séð til Ásbjarnar félaga þíns um aftan?"
Gunnsteinn svarar: "Átt hefi eg annað verkefni en hyggja að þeim skelmi."
"Ekki er mér það þó. Eg hefi ekki svo annríkt átt að eg hafi eigi augu til sent hvað hann hefur að hafst. Þegar í kvöld er
Ketill gekk út og menn drifu að honum þá kom Ásbjörn út og hafði hönd fyrir auga og skyggndi til hversu færi á milli vor. En nú
hefur hann farið eftir hermannlega og það hygg eg nú að hann sé hér nú í vellinum fyrir utan lækinn og ætla eg að hann fletti
mannnáinn einn."
Gunnsteinn sér nú hvar hann er og hleypur út yfir lækinn. Hann hafði sverð í hendi og höggur á hrygginn og tekur hann í sundur í
miðju. Eftir þetta gengur hann til sætis síns.
Kona ein gengur út um kvöldið. Það var griðkona.
17. kafli
Gunnar hét maður. Hann var á vist með Katli. Hann var Austmaður og hafði komið út um sumarið. Hann var háleyskur
maður að ætt, mikill maður og víglegur, ungur að aldri og allvel menntur. Hann sat í útibúri fyrir ofan hús. Þar var inni varningur
hans. Ekki hafði hann verið við fund þennan og ekki hafði hann vitað til að styrjöld sjá hafði verið. Konan hleypur til búrsins. Þetta
var vinnukona hans. Gunnar sat í dyrum útibúrsins og fiðraði örvar.
Hún tekur til orða: "Satt er það er mælt er að eigi má mann sjá, hver hvergi er. Mundi Ketill eigi það ætla að hausti er hann bauð
þér hingað að honum mundi enginn brautargangur að þér verða ef hann þyrfti nokkurs við. En þú ert mannfýla því
meiri er þú liggur inni kyrr sem hundur á hvelpum þar sem húsbóndi þinn er lagður við velli og margir hans menn. Er hér kominn
ófriðargangur og hafa þeir vegið Ketil."
Gunnar hljóp upp við þessa tíðindasögu og þrífur boga í hönd sér, leggur ör á streng er hann hafði
nýgert.
Hann gengur þá út og mælti: "Hvort eru þessir menn á burt farnir frá óverkum sínum er þetta hafa gert?"
Hún svarar: "Eigi er það."
"Hvar eru þeir nú þá?" segir hann.
"Þar eru þeir er eftir lifa fyrir sunnan lækinn á vellinum."
Gunnar mælti: "Hvar er hann Þiðrandi? Eg vildi hann sjá."
"Það ætla eg," sagði hún, "að hann sitji á fuglþúfu milli þeirra bræðra Kórekssona."
Gunnar bendir nú bogann og var það allt jafnskjótt að strengurinn gall heima við bæinn og Þiðrandi féll á bak aftur. Kom örin fyrir
brjóst Þiðranda og út í millum herðanna. Gunnar spurði hvað manna sjá hefði verið.
Hún svarar: "Það var Þiðrandi Geitisson."
"Seg allra kvenna örmust. Eigi fékk annan mann vinsælla né betur að sér. Hefi eg þeim manni bana unnið er eg vildi síst."
Þorkell Kóreksson spurði Gunnstein bróður sinn hvort hann væri mjög sár.
Gunnsteinn kveðst hafa sár nokkur "en hvað líður þér Þorkell?"
"Ekki sár er skaðlegt á mér."
Þá mælti Þorkell: "Nú munum við eigi þurfa Þiðranda að bíða enda mun eigi ráð heim að leita til bæjarins. Eigi
get eg að við náum hestum okkrum. Munum við og eigi vera mjúkir til göngu."
Þeir hvelfa skildi yfir Þiðranda þar á þúfunni, ganga síðan á burt, fara upp til götu, rétta leið upp í brekkur.
Þeim fórst seint því að náttmyrkur var á mikið. Þeir gengu til þess er þeir komu að brekkum þeim er efstar voru í
skarðinu. Þar var hvammur fyrir sunnan götur og heitir Kiðjahvammur. Á fellur ofan úr skarðinu og ofan í hvamm. Þar er mikill foss í. Undir
fossinum er hellir mikill. Í þeim helli eru menn oft á haustum er á fjall er gengið.
Þorkell mælti: "Förum við til hellisins því að mig gerir svo móðan að eg má eigi lengra ganga."
Þeir fara til hellisins. Er þar hlaðið grjóti fyrir framan. Gunnsteinn kastar sér niður þegar því að honum var heitt mjög. Hann
verpur af sér klæðum. Þorkell sprettir af sér belti sínu. Eftir það flettir hann af sér klæðum. Þá falla út
iðrin. Hann sest þá niður og lét Þorkell þar líf sitt. Við þetta hafði hann gengið allt neðan úr Njarðvík.
Nú er Gunnsteinn einn eftir hjá bróður sínum dauðum. Hann var sár mjög. Gunnsteinn sá það af sínu ráði að
ráðast á burt þaðan. Hann stendur þá upp og er hann ætlar þaðan til göngu þá var hann svo stirður að hann
mátti hvorugan fót hræra yfir annan fram. Sest hann þá niður. Verður hann nú þar að vera þó honum þætti eigi
gott.
Þorbjörn kórekur lét illa í svefni þessa nótt. En er hann vaknar þá fer hann skundandi í klæði.
Hann vekur upp smalamann og mælti að hann mundi fara sendiför hans "vil eg að þú takir hesta tvo. Vil eg að þú ríðir út til
Óss og ofan í Gönguskarð til hellis þess er þér eruð vanir að hafa náttból um haustum þá er þér gangið
á fjall og vit við hvað þú verður þar var. En ef þú verður við nokkur tíðindi var þá þigg eg að eg
fengi."
Sauðamaður ríður ofan til Óss og ofan í Gönguskarð. Hann leitar til ferðar. En er hann kemur ofan í Kiðjahvamm, þar stígur hann
af baki og gengur upp undir fossinn. Hann gengur inn í hellinn. Þá var lýst af degi. Hann spurði hvort nokkuð væri þar það sem honum
mætti andsvar veita. Gunnsteinn segir til sín. Sauðamaður spyr tíðinda. Gunnsteinn segir slík sem orðin eru. Sauðamaður spyr hvort hann mundi
fær með honum í burt. Gunnsteinn kvað eigi annað til þess. Hann vildi þá brátt út ganga og mátti eigi, nema hann styddist við
axlir honum, öðrum fæti. Hann kemur honum í söðul og ber að honum klæði og býr um hann sem honum þótti vænlegast,
ríður nú upp yfir heiði og komu heim um hádegisskeið. Þá hafði Kórekur búið laug. Tekur hann nú og fægir sár
Gunnsteins og veitir honum hægindi slík sem hann mátti.
18. kafli
Þessi tíðindi spurðust brátt og þótti mörgum mikil sem var. Hróari Tungugoða féll þetta næst
svo að hann leggst í rekkju af harmi og deyr af helstríði. Eftir þennan fund kemur Þorkell fullspakur heim því að hann hafði farið ofan
í fjörðu eftir skreið. Hann kom þann dag heim er fundurinn hafði verið áður um nóttina. Þorkell fréttir fundinn og að fallinn er
faðir hans og Þiðrandi. Haug verpir hann eftir Þiðranda frænda sinn og stendur hann þar á bakkanum ofan undan bænum. Hann færir í haug
menn þá er féllu. Þorkell rak á burt Austmanninn með miklum hrakningum, kvað hann þeim mikla skömm gert hafa svo eigi mundu menn bætur
bíða, drepið þann mann er aðrir væntu sér af hins mesta yndis. Gunnar hvarf nú á burt og spurðist ekki til hans.
Margir menn hörmuðu þessi tíðindi er þeir spurðu og þóttu þetta miklir atburðir, bæði Þorkell Geitisson bróðir
hans og Bjarni Helgason frá Hofi í Vopnafirði því að hann var náinn frændi Þiðranda, Þórdís todda, er átti Helgi
Ásbjarnarson, systir Bjarna, svo þeir bræður Þorvaldssynir Þiðrandasonar, Grímur og Helgi. Þeir voru allir í eftirleit við Gunnar
austmann og vildu allir Þiðranda hefna en til þessa manns spurðist aldrei. Var það flestra manna ætlan að hann mundi hafa hlaupið til fundar við
aðra Austmenn þá er sátu búðsetu þar er þeir höfðu skip uppi, í víkum milli Njarðvíkur og Borgarfjarðar fyrir
handan Snotrunes. Þar sátu seytján Austmenn og ætluðu menn af því að hann mundi þangað vera farinn.
Líður nú á veturinn allt þar til að daga lengdi. Þá býr Þorkell Geitisson ferð sína norðan úr Krossavík
með tíunda mann austur yfir heiði í hérað. Hann ríður upp eftir héraði fyrir vestan fljót allt þar til er hann kemur á
Arneiðarstaði. Hann fær þar góðar viðtökur af Droplaugu og sonum hennar. Hann var þar um nóttina.
Þá biður hann þá bræður að þeir mundu fara með honum ofan til Njarðvíkur og hitta Þorkel fullspak og þaðan suður
í fjörðu "vil eg vita að eg komist nokkuð á sporð um þennan mann, Gunnar, er nú er kallaður Þiðrandabani, er oss hefir mikla harmsök
unnið. Þetta er öllum oss mikil nauðsyn á að geta hann af ráðið."
Þer bræður ráðast nú til ferðar með Þorkeli og fara út eftir héraði. Þeir kveðja upp einstaka menn og verða þeir
saman átján. Nú fara þeir og koma um kvöldið á Kóreksstaði til Þorbjarnar. Þeim er þar boðið að vera og þeir
eru þar um nóttina. Þeir spyrja Gunnstein vandlega að þeim tíðindum er gerst höfðu um haustið í Njarðvík en Gunnsteinn sagði
greinilega frá og þótti þó mikið fyrir að segja. En er þriðjungur lifði nætur þá stendur Helgi Droplaugarson upp. Var
tunglskin mikið og færðir góðar bæði um héruð og heiðar. Hann vekur þá förunauta sína.
Þá gengur hann til Gunnsteins og mælti við hann: "Þú munt vilja með oss frændi út í Njarðvík."
Gunnsteinn svarar: "Fara skal eg ef þér viljið."
Eftir það ráðast þeir til ferðar, fara út fyrir neðan Sandbrekku og svo út til Óss og upp í heiði til Gönguskarðs uns
þeir koma svo upp að ein brekka var eftir. Þar er hvammur fyrir utan göturnar og heitir Djúpihvammur. Þar liggur leiðin um sumarið hið syðra en
jafnan um veturinn fara menn ofan eftir hvamminum þá er snjáva leggur. Helgi snýr nú af götunni og sest niður. Hann biður þá alla niður
setjast og skipar þeim í garða en hlið í miðju sem í húsgarði.
Þorkell Geitisson mælti: "Hvað skal breytni sú frændi?"
Helgi svarar: "Eg þóttist heyra mannamál upp í skarðið áðan. Nú skulum vér taka þessa menn höndum hverjir sem þeir
eru."
Og er þeir höfðu nýsest niður ríða þar að þeim fimm menn á broddstöfum. Þessir menn allir höfðu stálhúfur
og gyrðir sverðum. Þeir kenndu þessa menn að þar var Þorkell Ketilsson fullspakur neðan úr Njarðvík og heimamenn hans. Helgi sprettur upp og
þeir allir og mælti að þeir skyldu hafa hendur á þeim. Þeir gerðu svo. Helgi gekk að Þorkeli og heilsar honum og spyr hvert hann ætlar
að fara.
Þorkell kveðst ætla að fara upp í hérað og heimta skuldir.
"Því segir þú svo ólíklega að þú munir fara að fjárreiðum í þetta mund missera? Og sé eg að ekki er
þetta þitt erindi. Nú þykist eg vita hvert þú ætlar og svo erindi þitt. Það mundi eg ætla að þú mundir fara upp
í Mjóanes á fund Helga Ásbjarnarsonar og selja honum í hendur Gunnar Þiðrandabana og mun þér það þykja líklegast
að hann muni geta haldið Gunnari fyrir mér. Þú veist að fátt er með okkur."
Þorkell svarar: "Því ætlar þú mér þann hlut að eg muni þann mann halda er oss hefur mesta skömm gert? Og munuð þér
það spurt hafa að eg rak hann í burt þegar hinn sama dag er eg kom heim."
"Ekki hirði eg hvað þú segir til þess. Nú er þér skjótt til að kjósa um tvo kosti, hvort þú vilt að eg drepi
þig hér í Djúpahvammi eða ella seljir þú fram manninn."
Þorkell kvaðst eigi mundu ferðir sjá um þennan mann. Helgi flettir þá Þorkel af vopnum og klæðum og alla hans félaga. Þá
lætur Helgi leggja þá niður og fær til jafnmarga menn að vinna á þeim.
Helgi mælti: "Ei er oss vant við þig ef þú virðir einskis frændsemi við mig. Nú skal eg eigi hlífast við þig."
Nú sér Þorkell í hvert vandræði komið var og mælti: "Fast gengur þú að flestu því er þú vilt þér
afskipti veita. Mér mun fara sem flestum að eg mun kjósa að lifa ef eg á kosti. Mun eg nú segja víst að Austmaðurinn er í minni
varðveislu. Hefi eg hann haldið í allan vetur síðan er tíðindin gerðust. Gerði eg það til ólíkinda að kveðja hann á
burt. Upp í heiðinni fyrir ofan bæinn í Njarðvík gengur hjalli sunnan frá skarðinu út fyrir Skálanes. En á hjallanum gegnt
bænum er hlaupin urðskriða ofan úr hryggnum á hjallann. Það grjót er mjög mosa vaxið og geitaskófu. Þar á milli steinanna
sló eg tjaldi á hausti er eg rak hann á burtu. Það er járngrátt og samlitt við grjótið. Þar setti eg húðfat hans og
bjó eg um sem eg kunni og þar hefur hann verið síðan."
Þá svarar Helgi: "Nú gerðir þú vel er þú sagðir hið sanna til. Eigi fyrir því, vissi eg áður að hann var í
þinni varðveislu. Skal eg nú og eigi gera þér til meins en þú munt nú eigi að sinni laus verða að svo búnu."
Þá mælti Helgi til Þorkels Geitissonar og spurði: "Hvort viltu nú heldur fara ofan yfir heiði og leita Austmanns eða viltu sitja hjá Þorkeli
nafna þínum og gæta hans til hádegis?"
Þorkell Geitisson svarar: "Eg vil vera eftir hjá nafna mínum og gæta hans því að við erum ófráir Vopnfirðingarnir. Mun hér
lítils við þurfa. Þykir mér meiri hamingjuraun eftir honum að leita. Treysti eg þér betur og þinni giftu eftir honum að leita."
"Því bauð eg og kjörs á," sagði Helgi, "að mér þykir vel að þú ráðir en vant er að sjá hverjum þess
verður auðið. Nú skal skipta liði í helminga. Munum við bræður fara ofan yfir heiði við tíunda mann og vita hvað eg komi
áleiðis en þér félagar farið upp á Arneiðarstaði í kvöld og bíðið mín þar uns eg kem á morgun, nema eg
finni eigi Austmanninn, þá mun eg koma á hádegi. Þá skal drepa Þorkel fullspak ef hann hefur logið en ef hann segir satt þá má
hann eigi að hafa þó að hann setji undan. En ef eg kem eigi aftur fyrir hádegi þá skaltu Þorkel láta fara hvert er hann vill því
að ratað mun eg þá hafa hæli Austmannsins hvort sem hann verður fyrir höndum eða eigi."
Nú skiljast þeir þar. Fara þeir Helgi ofan yfir heiði en Þorkell Geitisson situr eftir hjá nafna sínum. En er þeir Helgi komu upp í
skarðið þá lýsti af degi. Þá var bakki mikill til hafs. Dregur upp skjótt á himininn og tekur að drífa. Fylgir vindur af
landnorðri. Þeir sækja ofan í brekkurnar. Þá sjá þeir hvar hjallinn gengur út eftir hlíðinni.
Þá mælti Grímur Droplaugarson: "Vinnum vér eigi tvisvar hið sama. Snúum vér nú hér út eftir hjallanum."
Þeir fara nú eigi lengi áður en þeir sjá urðina og tjaldið svo. Þá var hálfljóst af degi. Nú vex drífa og svo
vindurinn. Tekur nú að kólna.
Í þennan tíma vaknar Austmaðurinn í tjaldinu. Hann þarf að ganga örna sinna. Hann rís upp í skyrtu og línbrækur. Hann kippir
skóm á fætur sér en hneppir ei. Ekki hafði hann yfir sér og ekki í hendi. Og er hann bregður brókum sínum þá heyrir hann
mannamál suður á hjallann frá sér. Þeir áttu þá skammt til tjaldsins. Hann sá að þá var eigi ráð að
snúa í tjaldið er ófriðarmenn voru svo nær komnir. Hann snýr þá út eftir hjallanum slíkt sem hann má fara. Þeir
sjá nú manninn og þóttust í hendi hafa ráð hans og ætluðu að hann mundi skammt undan taka. Eggjaði hver annan að eftir skyldi halda.
Gunnar hleypur nú slíkt sem fætur mega bera svo að af liggja skórnir. Nú dregur þó í sundur með þeim meðan hann var
ómóður. Gunnar hleypur ofan hjá skálanum og út af lautinni. Þá nemur hann staðar og hnýtir línbrókina að beininu.
Þá voru þeir komnir ofan hjá skálanum á völlinn. Þeir gera garð ofan að sjónum. Grímur var þar allra manna
skjótastur. Hann hleypur þá fram frá liðinu og að honum Gunnari og ætlar þegar að sæta áverkum við hann. Gunnar sér
þetta og kastar sér á kaf. Hann drepur þegar vör undir sig. Grímur sér að hann getur eigi með vopnum sótt hann og skýtur eftir honum
spjóti og kemur í hina vinstri hönd Gunnari. Hann tekur til og kippir á burt en hann leggst út á víkina. Þá varð hvasst mjög og
föll stór.
Helgi kveður nú við og mælti: "Hvar vitið þér slíkan mann að áræði sem þennan eða hver er fús eftir honum að
ráðast?"
Enginn kvaðst til mundu hætta.
"Þess er von," sagði Helgi, "því að annaðhvort mun einum endast eða öngum af voru liði. En sá mun eigi fara því að mér
þykir landtakan óvísleg þar er Gunnar er á ströndu fyrir enda er eigi víst hversu sundið tekst. Nú munum vér heldur ganga inn til nausta
og vita ef vér fáum oss þar skip að róa eftir honum þó að oss sé það nokkru seinna. En þó skulum vér að hyggja
jafnan hvert hann leggst."
Þeir Helgi gera nú svo sem hann mælti fyrir en Gunnar leggst yfir víkina og kemur á land fyrir sunnan skriðurnar er nú heitir Gunnarsdæld.
Því hafa þeir menn saman jafnað er hvorttveggja hafa komið og kunnugt er um að það sé jafnlangt sund er Gunnar hefur lagst yfir þvera
Njarðvík og frá Naustadæli og yfir til Vindgjár. Gunnar hleypur þá upp á nesið, Snotrunes. Hásetar Gunnars sátu öðrumegin
nessins búðsetu. Hann leitar þangað til þeirra. Þeir Droplaugarsynir róa yfir víkina og koma litlu síðar á land en Gunnar. Þeir
setja upp skipið og ráðast til göngu og sjá hvar Gunnar fer. Þeir herða nú eftir honum. Gunnar hleypur inn í búðina. Þá
sitja þeir að dagverði.
Gunnar bað þá ásjá "vildi eg að þér verðust með mér. Munum vér þá eigi uppgefnir fyrir þeim er eftir
sækja."
Þeir kváðust aldrei mundu gefa sig upp fyrir ógiftu hans. Hann gaf nafn víkinni og kenndi við félaga sína og kallaði Geitavík, og svo
heitir hún ávallt síðan. Og er hann sér að hann fær ekki af þeim þá snýr hann burt og upp á Snotrunes. Hann stefndi
suður til Borgarfjarðar með ekki meirum birgðum en áður hafði hann. Þeir Droplaugarsynir sjá að Gunnar hleypur burt úr víkinni. Koma
þeir ekki þar. Þeir hlaupa hið efra fyrir ofan búðirnar. Gunnar tekur nú að hrymjast mjög á fótum er hann hljóp berfættur
um klakann og kuldi mikill. Frýs að honum línklæðin. Dugði honum það að hann kostaði um ferðina slíkt er hann mátti. Fékk
honum því vermans. Nú dregur þó saman með þeim uns hann kom upp í ásinn. Þá hallar burt af suður.
19. kafli
Sunnan undir hálsinum stendur bær er heitir á Bakka. Sá er næst, hyggja þeir. Þar bjó sá maður er
Sveinungur hét. Hann var kraftamaður mikill og átti góða peninga, kvongaður maður og átti einn son, níu vetra gamlan þá er þetta
varð tíðinda. Ekki var þar fleira karla. Voru þar fleira konur nokkrar. Sveinungur var einrænn maður og var mál manna að hann væri eigi allur
þar er hann var sénn. En þó var hann góður þá er hann vildi en gerði við fá eiga. Sveinungur var þennan dag farinn að torfi
þá leið sem Gunnar var á för. Hann er þá að gera hlassið er Gunnar hleypur þar hjá. Hann hafði þá borið í
hripin en eigi hlaðið í milli.
Gunnar hleypur að Sveinungi og mælti: "Bjargaðu mér."
Sveinungur svarar: "Hvers þarftu við?"
Gunnar svarar: "Fjandmenn mínir hlaupa eftir mér og vilja drepa mig ef þeir ná mér."
Sveinungur spyr hver hann væri.
Hann svarar: "Eg heiti Gunnar og er eg kallaður Þiðrandabani."
Sveinungur spurði: "Hverjir hlaupa eftir þér?"
Gunnar svarar: "Eg veit það eigi víst. Þó ætla eg að þeir séu Droplaugarsynir."
"Það er vel," segir Sveinungur, "og mun hér eigi að sökum að spyrja. Er það gott að vita þó að þú fáir hegning fyrir
þann glæp er þú hefir unnið, drepið þann mann er allir hugðu best til."
Gunnar svarar: "Ei dyl eg að verkið sé illt orðið. Er ekki þörf að minnur. Er það öllum boðið að bjarga sér meðan hann
má."
Sveinungur mælti: "Leggstu niður á milli hripanna ef þú vilt en ekki mun þér þetta fyrir slíkum köppum sem eftir sækja."
Sveinungur steypir af sér kuflinum og færir hann í. Gunnar leggst nú í sleðann milli hripanna en Sveinungur þrífur í tauma hestsins og
léttir eigi fyrr en hann kemur heim á Bakka. En þá er Gunnar lagðist niður í sleðann bar hálsinn í milli þeirra. Voru þeir
Droplaugarsynir þá vestan í hálsinum en torfin eru austan í hálsinum og sáu þeir eigi fyrir því. Sveinungur ekur fyrir þver
dyr hlassinu. Sveinninn ungi stóð í dyrum. Hann var í hvítum stakki og söluvoðarbrókum.
Sveinungur mælti við sveininn: "Taktu staf þinn og hlaup suður og upp í fjall og safna saman fé okkru því að veður gerir illilegt og rek
í hús."
Sveinninn mælti: "Fara mun eg inn í stofu og taka hött minn og vöttu."
Nú hleypur sveinninn slíkt er hann má fara því að hann var hræddur við föður sinn. Sveinungur beitir hestinn frá hlassinu og leiðir
til brunns, lætur síðan inn í hús. Eftir það gengur hann heim. Hann leysir þá úr sleðanum reipin og reisir hann við vegg
upp.
Í þessu bili koma þeir Droplaugarsynir þar í tún. Sveinungur heilsar þeim glaðlega. Þeir tóku því vel. Hann spyr hversu af
stæðist um ferðir þeirra. Helgi spyr hvort hann hefði nokkuð manna séð hlaupa hjá sér áðan "er þú ókst
torfinu."
"Öngvan sá eg nema sjálfan mig en heimill er greiði við ykkur sá sem þér viljið þiggja."
Helgi kvaðst einskis við þurfa "er dags mikið enn eftir. Er mér miklu meiri forvitni á um þennan mann er áðan hljóp um torfgrafirnar.
Þykir mér það eigi vera mega að þú sæir hann eigi."
Sveinungur svarar: "Aldrei veit eg hvort eg sá eigi áðan mann hlaupa fyrir ofan torfgrafirnar í ljósum klæðum og sá hinn sami hleypur nú
þar suður í fjallið."
Hann réttir til höndina og vísar þeim til. Þeir sjá nú hvar maðurinn hleypur. Eggjar Helgi nú að þeir skyldu leggja eftir manninum.
Þeir gera nú svo. En er hann hljóp í burt þá hafði Sveinungur velt hlassinu inn í anddyrið. Varð Gunnar þá undir en hripin
á hann ofan. Þar lá hann þá er þeir komu Droplaugarsynir og nú þegar er þeir voru burt þá ryður hann af honum torfinu. Hann
tekur hníf úr skeiðum, ristir af honum klæðin. Eftir það fylgir hann Gunnari í fjóshlöðuna, kemur honum á heystál upp. Eftir
það gengur Sveinungur inn og hleður upp torfinu.
Droplaugarsynir gengu suður yfir Brunnlækjarbrunna. Það er á sunnanverðum vellinum.
Þá stingur Helgi við fótum og nemur staðar og mælti: "Þó fer þessi maður frálega er áður er nýkominn af sundi er
hér hleypur í fjallinu. Þætti mér sem hann mundi nú mjög hrymdur er hlaupið hefir berfættur á klaka í allan dag. Eða hvort
æpir hann eigi að fé?"
Gunnsteinn Þorbjarnarson svarar: "Hvað muntu það mega marka? Má hann það gera til ólíkinda."
Helgi svarar: "Ei sýnist mér sjá maður svo vera sem mér væri von að Gunnar mundi vera. Munu eigi þau töfl í vera að Sveinungi muni hafa
sent heiman son sinn að safna heim fé en hafi borgið hinum og komið undan? Nú skulum vér ekki elta þennan mann. Skal nú snúa af og eiga við
Sveinung bónda."
Þeir ganga nú heim til bæjarins en Sveinungi er inni í anddyri og hleður upp torfinu og mælti: "Hví farið þér svo hverft?"
Helgi svarar: "Því, að það er vor ætlan að maðurinn muni vera í þinni varðveislu en eigi í fjalli uppi sem þú sagðir.
Er þar son þinn."
Hann svarar: "Eg ætlaði að hann mundi í stofu inni. En þó veit eg eigi hversu eg mundi nú fara að fela hann."
Helgi svarar: "Þú munt hafa látið hann í milli hripanna og velt honum af sleðanum með torfinu. Munum við hafa gengið á hann. Nú viljum
vér rannsaka hér."
Sveinungi svarar: "Hafið þér nú ríki til þess fyrir liðfjölda sakir en aldrei hef eg fyrr rannsakaður verið sem þjófar."
Nú ganga þeir inn og rannsaka hús öll og finna hann eigi inni.
Þá mælti Helgi: "Bæði skal koma í fjós og hlöðu."
Sveinungur svarar: "Það er víst að þar sé Austmaðurinn því að hún baula er jafnan taðdrjúg."
Helgi svarar: "Aldrei hirði eg um skrýtyrði yðar."
Sveinungur gengur til rúms síns og tekur ofan sax eitt mikið. Það var níu álna hátt. Hann festir það á sig. Síðan gengur
hann til fjóss og lýkur upp fjósinu.
Hann snýst þá við honum Helga og mælti: "Vita munuð þér Helgi hvað lög eru því að þú ert lagamaður mikill,
að eigi skulu fleiri menn inn ganga en fyrir eru. Nú er eg einn. Vil eg að einn yðar gangi inn því að ekki eru hér fleiri fylgsni en brátt munu
ratast í básum mínum og stíum hjá geitfé mínu. Vil eg ekki hark manna að fé mitt skemmist af vopnum þeirra. En í
hlöðu eru dregnar geilar umhverfum hey. Myrkt er þar því að eg lét þar inn færa mikið úthey á hausti og byrgja öll vindaugu
með myki, en frosin hart. Láttu menn þína höggva upp vindaugu en Helgi gangi með mér og rannsaki."
Helgi svarar: "Svo skal vera sem þú leggur ráð til."
Hann gengur inn í fjósið. Helgi gengur með honum en þeir Grímur og hans menn höggva upp vindaugun. Þeim gengur seint því að hart var
mjög frosið. Helgi rannsakar fjósið í básum og stíum. Eftir það ganga þeir til hlöðu.
Þá mælti Sveinungur: "Nú skaltu standa í dyrum en eg mun ganga í hlöðuna og umhverfum heyið. Eg mun og ganga upp á heyið og velta af
ofan því er vott er. Er þér ófært að fara upp á heyið fyrr en eg hefi hreinsað áður því að þú ert
skartsmaður mikill. Vil eg eigi að saurgist klæði þín."
Sveinungur fer nú upp á heyið, leggur Austmanninn niður á stálið innanvert, vefur nú að honum flögu mikla og þurra, veltir nú
öllu saman út af stálinu og lætur liggja flögurnar. Og er hann er að velta hinni þriðju flögunni þá hafa þeir uppi vindaugað og
var þá ljóst í hlöðunni. Þá sjá þeir að þar eru öngvir afkimar.
Þá stendur Sveinungur upp af heyinu og mælti: "Nú hafið þér séð hér fylgsni öll. Er nú að leita í heyinu og fletta
öllu upp í flögum. Mun annaðhvort að hann mun eigi hér vera eða í heyinu. Ella farið út til og brjótið upp heyið ef
þér viljið en eg mun standa hjá."
Helga fannst fátt um og mælti: "Aldrei nenni eg að brjóta það upp. Ætla eg að eigi þurfi hér lengur að leita."
Eftir þetta fara þeir burtu og biðja ekki Sveinunga vel lifa. Þaðan á leið fara þeir sem fyrr og er þeir koma suður í garð
þá rekur sveinninn féð þar í móti þeim. En þegar þeir Droplaugarsynir eru á braut þá tekur Sveinungur Austmanninn
á braut en lætur liggja flögurnar. Hann fylgir honum til sjóar og til nausts síns. Þar var velt fyrir framan skip er Sveinungur átti er hann sótti
sér farm á suður í fjörðu um haustið. Voru grafnir stafnarnir niður í jörð en nú fokinn undir snjór hið neðra með
borðunum. Þar var og inni sauðfé er Sveinungur átti þá er illt var úti. Sveinungur tekur nú pál og grefur nú inn undir
skipsborðið. Hann lætur Gunnar koma inn undir skipið. Síðan mokar hann að snjónum og sauðamyki en í þessu kemur sveinninn með
féð og reka inn og byrgja aftur hrófið. Treður féð svo að ekki sér nývirki á. Sveinungur brokkar þar eftir en sveinninn fer
heim.
Droplaugarsynir fara suður frá garðinum. Þá stingur Helgi við fótum og mælti: "Þar kemur að því sem mælt er að eftir koma
ósvinnum manni ráð í hug. Þykir mér sem vér munum enn hafa vanleitað hér."
Grímur svarar: "Hvar ætlar þú hann muni verið hafa?"
"Flögur þrjár velti Sveinungur utar af heyinu. En mér þótti sem sú fyrsta væri þyngst en þá var myrkt að og þá
sagði hann að eg skyldi til ganga."
Grímur svarar: "Hví sástu eigi þetta þá sem nú?"
Helgi svarar: "Því mér þótti þá eigi jafnlíklegt sem nú. Nú skal þó aftur hverfa að sinni," sagði Helgi.
Sjá hlutur er sá að mörgum aflar tvímælis á að Helga muni áræðisfátt orðið hafa þá er þeir voru tveir
inni og muni hann þá séð hafa en þótt eigi til ráðanda.
Grímur mælti: "Skulum vér nú til fjóss ganga?"
"Nei," sagði Helgi, "eigi get eg þess við þurfa."
Þeir ganga nú ofan eftir vellinum. Þá er Sveinungur kominn upp úr klifum neðan úr fjörunni.
Og er þeir finnast þá tekur Sveinungur til orða: "Enn stýrir þú hverft Helgi."
Hann svarar: "Svo mun þér það þykja."
"Hvert skal nú á leita?" sagði Sveinungur.
Helgi svarar: "Mér þykir vanleitað enn í þínum herbergjum."
Sveinungur svarar og brosti að: "Hvar mun hann nú verið hafa?"
Helgi svarar: "Það get eg að hann hafi verið í flögu þeirri er þú veltir fyrst, sú valt þunglegast."
Sveinungur svarar: "Þá mundi eg nú ganga þangað og grípa hann í klær þér."
Helgi svarar: "Hafa muntu slægð til þess að koma honum þaðan á braut og í annað leyni."
Sveinungur mælti: "Hvert viltu þá þess leita?"
Helgi svarar: "Nú vil eg leita hans niðri í naustahúsi þínu."
Sveinungur mælti: "Þetta er miklu ráðlegast að þær gymlur muni hafa tekið við honum því að þær hafa ráð undir
hverju rifi. Eg á þar fé mart inni og hefi eg byrgt en ef þér látið hrófið upp þá fel eg yður alla ábyrgð á
hendi því að fénaður er þegar í fjöru en nú er hafrænlegt. Kann hér jafnan það á að verða í
Borgarfirði að flæði féð sem áður er kunnugt. Nú ef þér látið út féð en eigi inn þá ætla eg
yður að ábyrgjast bæði við hríðum og sjávargangi. Eg á þar skip inni er eg hvelfdi að hausti. Það eitt er þar fylgsni.
Nú munuð þér það verða úr stað að færa ef þér viljið þar rannsaka. Nú fel eg yður þar slíka
ábyrgð á hendi sem öðru ef nokkuð verður að."
Helgi svarar: "Það hirði eg aldrei. Veit eg eigi hvað að ábyrgð verður. Allt skal nú leita að nýju."
Helgi gengur ofan í einstigið en Sveinungur sest niður á bakkanum og horfir út á sjóinn. Þeir ganga nú að hrófinu og hleypa
út fénu.
Þá mælti Helgi: "Jafnt er sem Sveinungur segir, ekki eru hér fylgsni fleiri en undir skipinu. Skuluð þér höggva hjá umhverfum skipið.
Síðan skal færa úr stað skipið."
Þá mælti Grímur: "Ei munum vér þess við þurfa bróðir," sagði hann. "Stingum vér heldur spjótum vorum inn undir
borðin. Munum vér þá varir við verða ef nokkuð verður fyrir en vér megum eigi upp koma skipinu nema vér brjótum nokkuð að. Er
það skaði mikill ef brotinn verður svo góður gripur."
Þá taka þeir þetta bragð, stanga spjótum alla vega undir skipið. Þá verður Gunnar var við og þrífur upp innviðuna en
spyrnir í bitana og þar hrökkvist hann að upp en þeir lögðu fyrir neðan. Fékk Gunnar mikinn þykk af eins manns vopni. Hann fékk lagið
í gegnum lærið fyrir neðan þjóhnappana. Þetta var mikið sár. Við þennan áverka brá Gunnar sér ekki og ekki fann
sá er hélt annað en hann hefði stungið í snjóinn. Og er þeir höfðu leitað sem þeir vildu þá ráðast þeir
á burt, ganga úr naustinu og láta eigi féð inn. Þeir ganga upp einstigið. Situr Sveinungur þar á bakkanum. Hann mælti ekki orð við
þá. Sveinungur var þústinn mjög og litverpur. Stundum var hann bleikur sem bast en stundum svartur sem jörð. Nær horfðu fram öll hárin
eftir hans haus. Þeir þóttust þá mega sjá að honum var mikið í skapi og áttu þar ekki við hann fyrir það að
þeir höfðu það fyrir satt að þá mundi Sveinungur hafa tryllst að þeim ef þeir hefðu Austmanninum náð. Eftir það fara
þeir Droplaugarsynir á burt en Sveinungur vitjar Austmannsins og færir hann heim á því kvöldi í sín herbergi og bindur sár hans. Eftir
það færir hann Gunnar í jarðhús er hann átti. Það var eigi heima á bænum.
Þeir héldu suður með hlíðinni og stefndu suður til Dysjarmýrar, komu þar svo að liðið var dagsetur. Þar drápu þeir
á dyr. Þar bjó sá maður er Gunnsteinn hét. Hann var goði þeirra Borgfirðinga og hafði þar mannaforráð. Gunnsteinn var
samborinn bróðir Sveinunga. Gunnsteinn var manna mestur og sterkastur, búþegn góður og hinn harðasti í skapi við hvern sem hann átti. Var
það enn og orðtak manna að hann væri í þvílíkri náttúru sem Sveinungur, að hvorgi væri einhamur. Þeir bræður
kalla út Gunnstein. Hann fagnar þeim vel og býður þeim þar að vera og það þiggja þeir. Er þeim fylgt í stofu og dregin af
þeim klæði. Þar höfðu menn lokið náttverði. Var þeim unninn beini góður. Þá sest Gunnsteinn framan að stóli og
spyr að ferðum þeirra og erindum. Helgi segir honum léttilega frá öllum rekstri þeim er þeir höfðu haft við Sveinunga um daginn. En er hann
heyrði að Sveinungs var getið þá spyr hann vandlega hversu með þeim hefði farið. En Helgi segir jafnt sem farið hafði.
Enginn maður hafði þá hníf á belti. Þá er menn fóru úti höfðu þeir tygilhnífa og festu á háls
sér. Helgi bregður hnífinum og ætlar að matast. Hann tekur þann hlut sem eftir var á diskinum. Það var skammrif eitt. Nú bregður hann
hnífi og ætlar að skera af.
Hann mælti þá, Helgi: "Ei er ofsögur sagt um fé þetta er hér gengur um Miðfjörðu því að mér þykir þetta
líkara af nautum muni vera."
Gunnsteinn svarar alls öngvu. Hann seilist upp yfir borðið og þrífur hönd hina hægri fyrir ofan úlfliðinn og kreistir höndina svo fast að hann
lýr alla hana og úr hrýtur hnífurinn og niður á borðið. Þá kastar Helgi niður skammrifinu en þrífur til handarinnar og
lítur til Gunnsteins. Hann sér að Gunnsteinn var svo bleikur í andliti sem nár og fram horfðu öll hár á höfði honum.
Helgi mælti þá við Gunnstein: "Hvort ætlar fjandi þinn að hamast á oss?"
Gunnsteinn svarar: "Ekki mun eg tryllast á þér en halda mun eg þér þangað til er þú hefur sagt mér með röskleik hvort
þú hefir ekki mein gert bróður mínum."
Helgi svarar: "Láttu mig lausan. Ekki mein hef eg gert honum. Ei fyrir því, slíkur skratti er hann sem þú og eigi ætla eg hann sé betri."
"Trúa mun eg að þú hafir drengskap til að segja satt en ef öðruvísi er skulum við eigi skildir."
Gunnsteinn lætur þá lausa höndina en Helga var svo stirð höndin að hann kenndi einskis fingurs á þeirri hendi. Hann sprettur þá upp
undan borðinu og allir þeir, ganga innar að pallinum og setjast þar niður. Enginn þeirra tekur til matar. Er þá fram borinn maturinn. Fóru heimamenn
þá í rekkjur. Enginn þeirra Helga manna þiggur þar greiða. Leggjast þeir niður í klæðum sínum og eru þar um
nóttina. Og er lifa mun þriðjungur nætur þá gengur Helgi út. Er þá ljós vegur en tungl óð í skýjum.
Þá snýr Helgi inn og vekur upp menn sína, segir að allgóður sé vegur.
Þeir fara nú burt þaðan og biðja Gunnstein ekki vel lifa, ganga upp á heiðina. En er þeir komu upp að bæ þeim er í
Fannstóði heitir, sá er efstur í Borgarfirði, þá lýsti af degi. Þeir ganga upp heiðina. Helgi gekk fyrir en illt var að fara mjög.
Helgi vildi niður setjast og hvílast. Hann skaut frá sér spjótinu en falurinn lá í knjám honum. Hann sér að spjótið var allt
blóðugt.
Þá tekur Helgi til orða: "Satt er það sem mælt er að oft verður lítils vant og get eg svo hér hafa orðið. Gefast annarra ráð
verr en mín. Þar hefur Austmaðurinn verið undir skipinu. Hefur hann fengið geig nokkurn af spjóti mínu en eigi veit eg hversu mikill er. Mundi yfir hafa
tekið ef svo hefði með verið farið sem eg gaf ráð til."
Þeir svöruðu: "Förum vér aftur hvatlega og drepum Sveinung ef vér náum eigi Austmanninum."
Helgi svarar: "Hefði hann maklegleika til þess en eigi sýnast mér þeir bræður hvers manns færi við að eiga. Get eg Sveinungur muni hafa
brögð undir brúnum. Munum vér eigi auðnu til bera yfir höfuðsvörðum Gunnars að standa er dregur þá undan er í hvekkingum var
með oss. En það er nú satt að segja að eg hygg að Gunnar sé fárra maki í hreysti og eljun. Mun nú skilja með oss að sinni."
Stendur Helgi þá upp og tekur til göngu. Léttu þeir eigi fyrr en þeir komu á Arneiðarstaði. Hitta þeir Þorkel Geitisson. Hann spyr
hversu farið hafi en Helgi segir alla atburði svo sem gengið hafði. Þorkell kvað mjög vaxa ófrið en ekki við meðalmenn að eiga þar sem
þeir voru bræður.
Þorkell kvaðst þar hafa setið yfir nafna sínum til hádegis í Djúpahvammi "en þá er eg lét hann lausan, sneri hann þá
heim til Njarðvíkur."
Nú skiljast þeir. Fer Þorkell Geitisson heim í Krossavík en Helgi fer heim á Arneiðarstaði.
20. kafli
Þessi atburður spyrst nú víða og þótti mörgum sjá maður mjög úr öngum ekið hafa.
Líða nú stundir og eigi langar áður en Sveinungur fer heiman og Austmaður með honum. Þeir fara upp yfir heiði og létta eigi fyrr en þeir
koma í Mjóvanes. Þeir finna Helga Ásbjarnarson. Fer Austmaður heim í hérað. Helgi tekur við honum og lætur hann koma í
útibúr sitt er stóð úti í túni. Ekki vissu þetta fleiri menn en Helgi og Sveinungur að Austmaður var þar kominn til varðveislu.
Er hann þar það er eftir var vetrarins. En flestra manna ætlan er það að Gunnar mundi með Sveinungi vera.
Líður nú vorið og svo fram að þingi. Þingstöð manna var að Helga Ásbjarnarsonar að Kiðafelli. Helgi átti að helga
þing. Hann sá að eigi mátti hann bæði fara að helga þing og varðveita Austmann svo að eigi yrði nokkur var við að hann væri
þar.
Hann tekur það ráð að hann sagði Þórdísi toddu um kvöldið það hið sama og hann skyldi heiman ríða um morguninn eftir
að þar væri Gunnar Þiðrandabani í hans varðveislu "vil eg nú að þú takir við valdi hans meðan eg er í burtu og gætir
að eigi verði menn varir við að hann sé hér."
Þórdís svarar: "Undarlegur maður ertu Helgi er þú ætlar að eg muni halda þann mann er oss hefir slíkt mannspell gert. Skal eg láta
drepa hann ef eg næ honum og skal eg þetta efna sem eg hét. Sýnist mér sem þó sé ærinn agi meðal vor frænda. Er það eigi
ólíklegt að af þessu gráni enn meir með yður en áður. Eg skal þegar á morgun senda mann Bjarna bróður mínum og skal
hann hafa virðing af."
Helgi svarar: "Það gerir þú sem þér líkar. Þér mun eg selja hann. Máttu og muna hversu mikils þú varst virð meðan
þú varst heima. Varstu þá í einum sloppi og gekkst þar fyrir búi. Sá eg þig ekki betur haldna en eina ambátt áður en eg
tók við þér. Nú máttu hugsa hvað þú átt mér að launa því að þú gerist nú að litlu
færra kvödd en eg. Svo tekur nú að vera þín virðing að nálega vill svo hver maður sitja og standa sem þú vilt. Nú er
þér það að segja ef þú selur fram manninn undir öx Bjarna að jafnskjótt skaltu í burtu verða og norður til Hofs og hafa
slíka sæmd sem Bjarni bróðir þinn hyggur þér og aldrei skaltu í sama húsi mér vera meðan þú lifir."
Hún svarar: "Það hirði eg aldrei hverju þú heitir mér. Mun Bjarni mig að öngvu verr halda en þú."
Þau skilja nú tal sitt og þótti sitt sinn hvoru þeirra. Líður af nóttin en um morguninn drífa menn að honum Helga. Hann lætur reka
að hesta. Ríður Helgi á burt með sínu liði og upp á háls. Hann helgar þing. En er Helgi er á burtu þá gekk
Þórdís til útibúrsins og lýkur upp. Hún gengur að Gunnari og veitir honum beina. Hún mælti ekki við hann. Líður dagur
sá til aftans. Er þá híbýlum á leið snúið í Mjóanesi. Og er menn eru undir borð komnir er drepið á dyr og til
hurðar gengið. Þar eru komnir menn úti, nær átta tigum manna. Þeir láta kalla út Þórdísi. Hún gengur út og
kennir Bjarna bróður sinn. Hún tekur við honum með allri blíðu. Bjarni þekkist það vel. Er þá tekið af hestum þeirra og er
þeim beini veittur. Og er lokið er náttverði þá fara menn í hvílur. Þórdís gengur þá til hvílu þeirrar er
Bjarni hvílir í. Hún leggst á rekkjustokkinn. Þau taka tal með sér því að þeim varð mart til tals.
Þar kom þó um síðir að Bjarni tekur svo til orða: "Það er mitt erindi hingað að eg hefi haft njósn að Gunnar hefur hér
verið um hríð. Nú vissi eg að Helgi mátti eigi annast hann meðan hann var á þingi. Mun hann nú vera í þinni
varðveislu."
Hún svarar, kvað eigi það vera "og eigi veit eg hví þú ætlar mér það að eg mundi varðveita þann mann er svo mikið
skarð hefur gert í ætt vorri að vér munum aldrei bætur bíða."
"Ekki hirði eg hvað þú segir til þess því að það veit eg að hann er í þínum híbýlum. Fór eg af
því hingað til þín að eg þóttist vita að þú mundir mína fór góða gera. Nú er ekki að dylja
þess er satt er. En veit eg fyrir hvað þú dylur. Hann mun hafa boðið þér varnað á um að segja til hans og heitið þér
ógnun, talið upp hversu ósællega þú varst sett meðan þú varst heima. Mun hann hafa heitið þér að reka þig á
burt með hrakningum. En þó að svo sé að þú komir til Vopnafjarðar þá skaltu eigi minna ráðandi en hér í
Fljótsdalshéraði ef þú gerir nú mína sæmd sem eg beiði."
Þórdís kvaðst eigi mega það segja er eigi var til og hún vissi eigi hvar væri.
"Ekki hirði eg nú um dulkofra þinn því að eg mun nær geta hvar hann er ef eg vildi eftir leita. Nú mun eg mark til gera að mér þykir
mikið undir að ná manninum. Eg hefi sjö hundruð silfurs í einum sjóð. Það er hið besta fé. Það skal þér gefa til
þess að þú seljir fram manninn mér í hendur."
Þórdís svarar: "Ófésparari ertu nú við mig en þá er eg var heima að Hofi. En ekki þætti þér það verra
þó að eg ætti það því minna. Mundi eg og við taka fénu ef eg vissi hvar hann væri."
Bjarni svarar: "Þá mun eg segja þér hversu fara mun. Eg mun hér rannsaka öll híbýli á morgun þar sem mér þykir
líkast til. Það get eg að hann sé í vöruhlaða þínum og skal eg hann þaðan draga og drepa hann fyrir augum þér til
hörmungar."
Þórdís svarar: "Ei mun sú raun á verða að hann sé hér."
Snýr hún nú til rekkju sinnar og er skapþungt sem von var til. Sofa menn af nóttina. Og þegar menn eru sofnaðir stendur Þórdís upp
í klæði sín. Hún vekur upp sauðamann sinn, bað hann ganga út með sér.
Og er þau koma út þá mælti Þórdís: "Þú skalt fara sendiför mína skyndilega upp undir Kiðjafell á
þingvöll. Þú skalt segja Helga að hann komi heim sem hann má fyrst og fari eigi fámennur. Seg að þeir eru hér gestir komnir að eg
þykist eigi fulla sæmd veita mega nema hann sé við því að eg á öngum manni meira sóma að veita en Bjarna bróður mínum.
Eg veit að hann mun skjótt við bregða. Ríð nú mikið og far ákaft því að eg heiti þér því að
þú skalt eigi sauðreki þurfa að vera héðan af meðan við lifum bæði ef þú gerir nú vel þetta erindi."
Hann tekur hest og ríður upp á hálsa og léttir eigi fyrr en hann kemur á þing. Hann ríður til búðar Helga og stígur af baki.
Hann gengur inn í búðina og að þar er Helgi hvíldi. Hann fagnar vel húskarli og spurði tíðinda en hann sagði erindi sín þau
er Þórdís bauð honum. Þá var í næturelding. Hann býst skjótt og kveður upp menn sína og biður reka að hesta.
Ríður hann þegar burt af þinginu með hálft annað hundrað manna og út eftir hálsum og svo heim í Mjóvanes.
En um morguninn snemma í Mjóanesi þá stendur Bjarni upp og lætur menn sína brátt reka að hesta sína "vil eg ríða á
burt."
Þórdís gengur að honum og bað að hann skuli eta dagverð "áður þér ríðið."
Bjarni kvaðst eigi nenna að rannsaka hana sem þjófa fyrir frændsemis sakir "en hefur þú maklegleika til. Viltu alls kostar illa til mín gera. Mundi eg
finna hann ef eg vildi leita með harðindum því að þar mun hann vera sem eg sagði þér í nótt."
Eftir þetta ríður Bjarni á burt með menn sína. Skiljast þau systkin með lítilli blíðu að sinni. Síðan ríður
Bjarni út með vatni. Og er þeir eru komnir út með vatni sjá þeir jóreyk ofan að garði í Mjóvanesi. Ríður Helgi
ákaft. Hann kemur í tún. Er Þórdís þá eigi inn gengin. Hún snýr að Helga bónda sínum og fagnar honum vel.
Hún segir honum allar viðræður þeirra Bjarna og hversu farið hafði allt með þeim "hefi eg þig meira metið en alla aðra."
Hann þakkar henni allan góðvilja "vissi eg að eg var vel kvongaður en eigi vissi eg að þú varst slíkur skörungur sem þú ert. Hefur
þú miklu betur þetta gert en þú hést. Nú mun eg ríða aftur á þing ef þú þykist birg heima."
Hún segir Helga þá hvað Bjarni hafði fram lagið og hvað hann hafði um mælt. Eftir þetta ríður Helgi til þings.
Þórdís stjórnar búi heima. Bjarni ríður norður til Hofs en þau Þórdís og Helgi höfðu Gunnar með sér og
gerðu vel til hans. Er hann þar um sumarið í góðum fagnaði og fæddur þó á laun.
21. kafli
Þeir Droplaugarsynir héldu svo ríkt vörð á um skip það er Gunnar átti að hann náði aldrei
þangað að koma og öngum fjárhlut náði hann nema nokkrum gripum og þó fám. Austmennirnir fara utan um sumarið, koma til Noregs og segjast
aldrei vita hvort Gunnar mundi fara til Hálogalands eða eigi. Nú segja þeir öll tíðindi og undanrekstur þann allan er hér hafði
verið.
Þetta sumar ríða menn til þings og leggur Þorkell Geitisson fé til höfuðs Gunnari og fékk öllum höfðingjum umboð að hann
skulu höndum taka. Allir hétu góðu um þetta en þeir þó mestu er Þorkell átti heitast vinfengi við ef hann kæmi því
fram. Það var Þorkell Eyjólfsson. Hann bjó vestur að Helgafelli og átti Guðrúnu Ósvífursdóttir. Hún var í
kærleikum við Helga Ásbjarnarson. Höfðu þau fyrr senst gjöfum í millum. Þó hafði Þorkell Eyjólfsson eigi vitað til
þess.
Og er af líður sumarið þá lætur Helgi járna hesta þrjá. Hann fær mann til föruneytis við Gunnar og sendir hann norður á
Möðrudalsheiði og svo norður hið efra til Mývatns og fara svo vestur til sveita uns hann kom til Helgafells, því að hann var sendur þangað til
umsjár og halds með nógum jarteiknum til Guðrúnar Ósvífursdóttir að hún skuli taka við honum með blíðu og halda hann
þar fyrst um veturinn og koma honum utan um sumarið eftir. Bar og vel í móti nú. Er Þorkell eigi heima. Hann hafði heitið Þorkeli Geitissyni að
taka Gunnar af lífi ef hann næði honum. Þorkell hafði farið út í eyjar eftir skreið. Guðrún tekur við Gunnari ævar vel. Dvelst
förunautur Gunnars skamma hríð. Sendir Guðrún Helga Ásbjarnarsyni góðar gjafir. Fer hann til þess er hann kemur í Austfjörðu.
Gellir hét son þeirra Guðrúnar og Þorkels. Hann var ungur maður og vel menntur og farmaður mikill. Hann kom út þetta sumar í
Laxárósi en nú var hann að vist með föður og móður að Helgafelli.
Og er Gunnar hefir þar verið eina nátt þá kemur Þorkell heim síð um aftan. Þar var fjölmenni mikið. Eru gervir eldar fyrir þeim og
dregin af þeim klæðin. Menn ganga fram úr stofu til eldanna. Þorkell sér að þar gengur fram maður einn í blám kyrtli og heklu
grárri. Sá maður var ákaflega þreklegur en eigi hár. Hann hafði bjarta öxi í hendi. Maðurinn var ljós á hár,
réttleitur og vel í yfirbragði. Þorkell spyr hver sá maður væri hinn drengilegi. Hann segir til sín og kveðst Gestur heita.
Þorkell starir á þennan mann um hríð og mælti: "Furðu líkur ertu þeim manni að frásögn er heitir Gunnar og er kallaður
Þiðrandabani og hefur verið í Austfjörðum um hríð. Eða hvar er heimili þitt eða hvert ætlar þú að fara?"
Þá varð honum orðfall og svarar öngvu.
Þorkell svarar: "Svo virðist mér sem þú munir annar maður en þú segir og rétt get eg að eg fari um nafn þitt og athöfn."
Gunnar svarar: "En ef svo er sem þú segir hvað mundir þú þá til taka?"
Þorkell svarar: "Það skaltu vita brátt."
Hann sprettur nú upp og þrífur sverð eitt er lá í sætinu og hét Sköfnungur er síðan týndist með honum á
Breiðafirði. Þorkell bregður þegar sverðinu og hleypur innar yfir eldinn og höggur til Gunnars. Hann bregður við öxinni og upp yfir höfuð
sér. Þorkell höggur í öxarfetann en missti mannsins. Svo fast hjó Þorkell að mjög svo festi sverðið í öxarfetanum. Gunnar
bregður við og færir upp öxina. Menn hlaupa innar í stofuna og sögðu Guðrúnu hvað um var í eldaskálanum.
Hún gengur fram og biður Þorkel bónda sinn stöðvast "vil eg að þú gerir honum ekki grand nema þú viljir að við skiljum okkart
félag upp frá þessum degi ef þú gerir honum nokkurt mein því að Gunnar var mér sendur af vinum mínum til halds og trausts. Skal eg hann
svo annast sem son minn til þess er skip ganga af Íslandi í sumar. En ef nokkur maður vill hár af höfði honum blása þá skal eg þeim
líkan grimmleik gjalda sem eg má mestu á leið koma. En það mæla sumir að það sé lítið gaman þeim sem það hafa
reynt að verða fyrir reiði minni. Skal eg þá og ekki af spara það er illt er ef eg verð vör við að nokkur geri honum mein. Það vil eg
að þú eigir ekki við hann því að honum mun einhlít mín umsjá og velgerningur."
Þorkell svarar: "Oftast ertu ráðgjörn Guðrún. Verður oftast engin hæfa á ef þú ræður eigi því sem þú
vilt. Verðum vér jafnan lítilmenni af ef þú hlutast til."
Sefast Þorkell nú brátt og rennur honum reiðin. Er Gunnar þar um veturinn í góðum fagnaði.
22. kafli
Það er sagt einn aftan um fardaga sjálfa að þau Guðrún eru komin í rekkju sína.
Þá tekur hann til orða: "Hversu er þess gert við Gunnar félaga þinn að þér þyki vel vera?"
Guðrún svarar: "Það mun eg skjótt segja þér. Skip stendur uppi í Laxárósi það er Gellir son minn hélt hingað
í fyrra sumar. Það vil eg láta hlaða þar og búa utan í sumar og hlaða varnaði og góðum reiða. Þetta vil eg gefa honum en
Gellir skal sitja eftir í sumar."
Þorkell sagði ekki í móti "því að mikill er ofsi þinn en þó mun enn sem oftar að lítið samþykki mun á verða
ef eigi er svo gert sem þú vilt."
Slitu þau talið. Líður af nóttin. En þegar um morguninn lætur Þorkell snemma að vera. Er flotað skipinu en fluttur til mikill varningur og
góður. Hafa þau stórkostnað fyrir. En þá er albúið er skipið þá leiða þau Gunnar til, gefa honum skip með rá
og reiða og miklum fjárhlut. Gunnar þakkar þeim vel þessa gjöf og marga aðra virðing er þau höfðu honum veitt. Skiljast þau nú
allgóðir vinir.
Siglir Gunnar í haf þegar honum gaf byri. Varð hann allvel reiðfara, tók þar land sem hann kaus á og faðir hans átti byggðir fyrir. Gunnar var
hersis son en hann réð fyrir Hálogalandi. Þar var honum vel fagnað því að nálega þóttust menn hann úr helju heimtan hafa. Og er
það flestra manna sögn og orðtak bæði hér og annars staðar að eigi muni einn maður meir úr öngum ekið hafa en Gunnar, slíkir
garpar sem eftir leituðu.
Annað sumar eftir býr Gunnar þetta skip með miklum fjárhlut og sendir út til Íslands með gripum til Þorkels og Guðrúnar
Ósvífursdóttir og annarra þeirra er hann þóttist góða hluti eiga að launa. Skipið kemur í Laxárós. Tekur Gellir við
skipinu og hefur lengi í ferðum síðan. En Gunnar situr í búi sínu á Hálogalandi og kemur hann lítt við þessa sögu
héðan í frá.