3. maí 2017
Fundur í umhverfisnefnd.
1. Umhverfisdagar: Rætt um hvaða skemmtilegt væri hægt að gera á umhverfisdögum í vor. Við höfum sótt um í Yrkjusjóð og fengum úthlutað 67 plöntum sem við ætlum að gróðursetja í uppeldisreitinn upp í kartöflugarði. Einnig ætlum við að setja niður útsæðið sem við settum upp í byrjun apríl. Stefnt er að því að fara í síðustu gönguferðina út í Vog og nýta þá okkur það sem Hafþór Snjólfur fræddi okkur um í valinu í sambandi við fjallamennsku. Einnig er áhugi fyrir því að endurtaka leikinn frá því í fyrra og velja okkur fjöru til að hreinsa. Nokkrar hugmyndir komu fram en ákveðið að taka fjöruna frá Merki og inn að Bakká. Hún er tiltölulega þægileg fyrir leikskólabörnin, svo þau geti tekið þátt í þessu með okkur.
2. Grænfánaumsókn. Nú stendur fyrir dyrum að sækja um grænfánann í fjórða sinn. Nemendur völdu ný þemu og fyrir valinu urðu: neysla, loftslagsbreytingar og hnattrænt jafnrétti. Við ætlum að vinna áfram með átthagana og náttúruvernd ásamt líðheilsu en erum komin á þann stað í þessum verkefnum að við þurfum ekki að hafa þau sem sérstök þemu heldur eru þau orðin hluti af skólastarfinu. Jónu og Maríu skólastjóra falið að sækja um.
19. apríl. 2017
Fundur í umhverfisnefnd.
1. Jón sveitarstjóri tók vel í beiðni okkar um að kaupa moltutromluna og vonumst við til að geta tekið hana í notknun haustið 2017. Hún mun trúlega geta annað meiru en bara úrgangi frá skólanum svo við getum þá boðið einhverjum heimilum að taka þátt í þessu með okkur.
2. Komin er niðurstaða í málefni Nínu og Símons. María skólastjóri ætlar að ættleiða þær og búa um þær í garðinum sínum. Fögnum við þeirri niðurstöðu. Kanínukofinn verður nú eingöngu notaður sem leiktæki fyrir leikskólabörnin.
22. mars 2017
Fundur í umhverfisnefnd
1. Farið yfir stöðu mála í umgengni okkar innanhús. Minnt á að slökkva ljós nú þegar er orðið svona bjart. Muna flokkunina í rusladallana.
2. Rætt um kanínubúskapinn. Fundarmenn ekki spenntir fyrir því að halda þessum búskap áfram næsta haust. Þeim finnst þetta meira mál en þau hefðu haldið í fyrstu og erfitt að standa í þessu þegar allir eru í fríi og þess háttar. Jákvæðu hliðar málsins eru þær að kanínurnar borða matarafganga og svo er stundum gaman að leika sér að þeim. Rætt um hvað gera eigi við Nínu og Símon. Ákveðið að skoða þessi mál betur og vísa þessu til kennarafundar.
15. febrúar 2017
Fundur í umhverfisnefnd
Fundarefni:
1. Moltutunnan.
Kennarar tóku vel í hugmynd okkar og útbjuggum við bréf til hreppsnefndar og ætlum að þjóða sveitarstjóranum í heimsókn til okkar og afhenda honum bréfið.
2. Gönguferðir. Vel gengur með þær. Við höfum nú farið í þrjár ferðir og unnið ljósmyndir og texta um þær. Stefnt að því að fara í tvær í viðbót í vor og þá verður önnur þeirra jafnvel á Reykjavíkursvæðinu.
14. des. 2016
Fundur í umhverfisnefnd
Fundarefni:
1. Molta
Ekki hefur gengið sem skyldi að búa til moltu úr matarafgöngum. Við sáum auglýsingu á netinu frá Garðheimum þar sem þeir auglýsa litlar moltugerðartromlur. Ætlum að kynna þetta fyrir kennurum á næsta kennarafundi.
2. Ný markmið á umhverfissáttmálann.
Ákveðið að Alexandra og Zlata muni búa til tvo nýja geisla og tvö ný ský á umhverfissáttmálann með nýju markmiðunum okkar sem eru: Draga úr loftmengun og hnattrænt jafnrétti.
Formlega hljómar þetta svona:
Markmið 1: Draga
úr aukinni loftmengun til að vernda lofthjúp ( sólgleraugu ) jarðarinnar.
Leið að markmiðinu: Nota umhverfisvænan ferðamáta, minnka notkun bíla, brenna ekki efni
sem menga, endurnota og endurnýta.
Markmið 2:
Hnattrænt jafnrétti. Kynnast lífi barna frá öðrum löndum og heimshornum.
Leið að markmiðinu: Koma á tengslum við krakka í öðrum löndum. Fá að kynnast þeim og þeirra lífi og segja þeim frá okkur.
30. nóvember 2016
Fundur í umhverfisnefnd
Klárað að fara yfir umhvefisgátlistana og þeir kynntir nemendum. Einnig voru þeir afhentir Maríu skólastjóra til þess að hún gæti kynnt þá á kennarafundi.
23. nóvember 2016
Fundur í umhverfisnefnd
Fundarefni:
1. UmhverfisgátlistarFarið yfir umhverfisgátlista. Nemendum skipt upp í þrjá hópa, hver og einn fór yfir einn lista og kynnti svo fyrir hinum niðurstöður. Verkefnið ekki klárað. Ákveðið að klára það í næsta umhverfismenntartíma.
Ákveðið að bjóða Kristinu ( 4 ára ) að vera hluti að umhverfisnefnd og þá sem fulltrúi leikskólans þar sem tveir nemendur hafa hætt í skólanum og eru því nemendur grunnskólans aðeins orðnir fjórir.
Fleira ekki gert.
21. sept. 2016
Fundur í umhverfisnefnd.
Fundarerfni:
Verkefni vetrarins innan þeirra þemu sem við ákváðum s.l. haust.
1. Halda áfram með verkefnið "gönguferðir" frá því í fyrra. Ákveðið að fara í fimm gönguferðir þetta árið. Hugmyndir af gönguferðum: Bjargselsbotnar, Sesseljuhamrar, Hrafnatindur, Svartfell, Hellarnir í Njarðvík, Vogur.
2. Nú erum við komin með kanínu í kofann, ákveðið að bæta við það verkefni að fóðra smáfugla og nota þakið á húsinu sem fuglabretti.
3. Hjólreiðar
4. Safna nokkrum minningar Borgfirðinga og vinna með þær á mismunandi máta.
5. Tengja saman nýsköpun og vatn/orku.
6. Endurnýja markmið og leiðir á umhverfissáttmálanum okkar.
Ákveðið að gera ástandskönnun á skólanum með nýju matsblöðunum fyrir næsta fund.
Fleira ekki gert.
19. ágúst 2016
Fyrsti fundur umhverfisnefndar sem var sjálfkjörin í þetta skiptið þar sem aðeins eru 6 nemendur í grunnskólanum þetta haustið og elstu nemendur leikskólans of ungir til að sitja fundi ( 4 ára ).
Ákveðið að Júlíus Geir í 6. bekk skuli vera formaður nefndarinnar og okkar talsmaður út á við.
Farið yfir verkefnalista síðasta vetrar og athugað hvað varð þar útundan og hvort við viljum taka einhver verkefni af þeim lista og vinna þau í vetur.
Við nánari skoðun kom í ljós að við stóðum okkur nokkuð vel á síðasta skólaári að vinna að þessum verkefnum.
Valin voru samt nokkur verkefni en þau eru:
Hafa gæðapappírstunnuna á aðgengilegri stað, safna uppáhaldsminningum Borgfirðinga og útbúa gullkorna- og fróðleikstöflu í miðrýminu.
Ræddar hugmyndir af nýjum verkefnum fyrir þennan vetur. Ákveðið að bíða með ákvarðanatöku þar til allir nemendur eru viðstaddir.
Fleira ekki gert.
19. ágúst 2016
Grænfánadagurinn.
Dagskrá þessa dags fór svolítið út um þúfur þar sem aðeins helmingur af nemendum var mættur í skólann. Þeir nemendur og kennarar sem eru nýir og áttu að fá fræðslu um grænfánavinnuna og verkefnin sem við værum að vinna að voru fjarverandi. Niðurstaðan var að halda þess í stað fund með umhverfisnefndinni og leggja línurnar fyrir vetrarstarfið.