Svínavík
(Handrit: að mestu eftir Daníel Pálsson)
Svínavíkurland afmarkast af Grenmósröðum að framan, Sultarbotnum að ofan og Flugabrúnum að utan.
Strax utan Steinsfjöru tekur við Urð, þá Litlaneshryggur og síðan Litlanes. Fjaran neðan við Litlanes heitir Litlanesfjara. Utan í Litlanesi er klettastallur sem hægt er að komast eftir af flúðum utan við nesið og upp. Nefnist hann Altari.
Utan við Litlanes, með sjó, er Svínavíkursandur. Upp af honum eru Hvammar. Framan Hvamma, inn að Urð, heitir Hall. Utan við Hvamma er Skálabarð og niður af því gengur vogur inn og heitir hann Skipavogur. Utan við Skipavog er Ónskinnar. Bás við sjó neðan ónskinna heitir Ónn.
Nesið sem gengur fram utan ónskinna nefnist Stóranes. Urðin utan við Stóranes með sjó nefnistLundaurð. Lundaurð heitir einnig neðan við Ónskinnar, utan við Ón. Utan við Lundaurð er Stóranesbás. Fjallöxlin upp af Stóranesi kallast Stóraneshnaus. Milli Stóraness og tangans utan Skipavogar heitir Ónsleira.
Öll Mið-Svínavík, neðan frá Hvammabrúnum heitir Hraun. Er þar grenjaland ágætt. Allur hringurinn, að ofan og framan upp undir kletta, kallast Hlíðar. Norðan Svínavíkur eru Sultarbotnar og liggur fjallsröð á milli. Gengur hún út frá Flötnum sem er getið í Breiðuvík. Úr Sultarbotnum gengur Sultarbotnarák upp á Kjólsvíkurraðir. Norður og niður úr Sultarbotnum gengur Brattijaðar niður í Flug en Flug heita utan í og allt niður að sjó sunnan frá Stóranesi og norður a Kjólsvík. Sunnan undir Flugum er Kringlubás við sjó og þar norðan við Úlfarstorfur. Ganga þær niður á kletta er liggja að sjó. Í stefnu rétt norðan við þær er farið af Svínavík og niður í Flug út ofan við Stóraneshnaus. Norðan við þann stað sem farið er niður taka við Mávatorfur, Efri- og Neðri- en upp undir brúninni upp af Efri-Mávatorfu eru Leirubotnar. Fram af Úlfarstorfu stendur drangur úr sjó er heitir Mávastapi. Fjörurnar sitt hvorum megin við Mávatorfurnar heita Mávafjörur. Enn norðar, við sjó, heitir Fýlungabás. Kaldisteinn er út af Flugum norðan til, æði spöl frá landi.