Örnefni í landi Nes
NES
Eftir handriti Stefáns Baldvinssonar frá 1957
Viðbætur innan sviga eru eftir samtöl við Sigurð Stefánsson frá 1971
Eins og segir um Seljarmýri ræður Merkilækur landamerkjum á milli þessara jarða að vestan en að
austan ræður Neshjáleigulækur landamerkjum milli Nes og Neshjáleigu. Lækur þessi hefur upptök
sín upp á svokölluðum Neshálsi sem er á milli Loðmundarfjarðar og Húsavíkur.
Lækurinn rennur til sjávar meðfram vesturjaðri Neshjáleigutúns.
Á milli Nes og Húsavíkur ræður landamerkjum á nokkru svæði fjall er Skælingur heitir.
(Þegar komið er djúpt af hafi leit Skælingur út eins og kóróna eða kínverskt hof. Frá
Loðmundarfirði að austanverðu er hann hallandi upp frá suðri til norðurs). Frá Skælingi liggur bein lína og
um stað á norðurbrún Nesháls er Sandskeið heitir og í vesturröð Nónfjalls en austan
þess eru landamerkin í Fossdalsvarpi. Landamerki þessi eru sameiginleg fyrir Nes og Neshjáleigu gagnvart
Húsavík enda beiti- og afréttarland sameiginlegt fyrir báða bæina. Innri-Álftavík tilheyrir þessum
jörðum og er hún eingöngu beitiland. Landamerki á milli hennar og Ytri-Álftavíku, sem eru jafnframt landamerki á milli
Loðmundarfjarðar og Borgarfjarðar, eru um Miðmundarfjall og ganga því nær lóðrétt í
sjó fram. (Sjá örnefnaskrá Ytri-Álftavíkur)
Mikill hluti af Neslandi er hálent og bratt fjalllendi. Austan Hrafnatinda, sunnan undir fjallinu Skælingi, er stór hvilft
í fjallið er Skollabotnar heita. Neðan við fjallshlíðina, niður undan þeim, eru miklir melar er ná að sjó og heita
þeir Nesmelar. Þeir eru snarbrattir og háir við sjóinn. Ekki er ólíklegt að þeir séu framhlaup úr
Skollabotnum.
Vestan við Nesmelana upp undir fjallinu er allstór melur eða höfði er Sauðahöfði heitir.
(Sauðhöfði er hjalli sem liggur að ofanverðu inn í fjallið en ansi há brekka er sunnan í honum). Brekkurnar í fjallinu ofan
við hann eru stundum nefndar Sauðhöfðahlíðar. Suðvestur af Sauðhöfðanum á milli Nesmela og
Merkilækjar er mýrarsvæði er Sláttumýri heitir. Sunnan undir vesturhorni Nesmela meðfram sjónum er
nokkuð stórt grasivaxið svæði, mikið lægra en melarnir, og nær það vestur að Merkilæknum. Svæði þetta
heitir Gerði. (Í Gerði virðast vera tættur). Gata liggur af því austast upp brekku og upp á melana; heitir
það Gerðisbrekka.
Suðaustan við fjallið Skæling, austan Skollabotna, eru melabungur miklar er liggja austur að Neshálsinum. Sunnan undir
þeim er hjalli; í brún hans eru víða fremur lágir klettar. Hjalli þessi heitir Grjótbrún. Vesturendi hans er við
Skollabotna en austurendinn nær að Neshálsinum. Nokkuð austan til í henni er klauf upp í gegnum klettabrúnina. Hún
heitir Sauðaklauf. Niður frá vesturenda hans liggur brött melbrekka er Hryggjarbrekka heitir. Um Sauðhöfða,
Hryggjarbrekku og Grjótbrún liggja götur til Húsavíkur.
Neðan undir klettunum í Grjótbrúninni er brekka ofan á annan minni hjalla er Sniðahjalli heitir. (Í
Sniðahjalla eru smásnið eða smástallar). Neðan undir honum eru Sniðabrekkur, nokkuð brattar og lengri brekkur en fyrir
ofan hann. Ná þær niður að nokkuð stóru graslendi er Engjahjalli heitir. Vestur af honum, beint upp af Nestúninu upp
undir brekkunum, er grasivaxinn hvammur er Torfhvammur heitir.
Úr Skollabotnum kemur lækur er rennur niður austan Hryggjarbrekku, niður Nesmela og um Nestún vestan
við bæjarvegginn og til sjávar í Nestjörn. Lækur þessi heitir Fosslækur.
Nesmelarnir liggja að Nestúninu að vestan. Skammt frá túninu er nokkuð hár melur hryggmyndaður er
Skeggjahraun heitir.
Upp á Grjótbrúninni, nálægt miðju hennar, sprettur upp lækur er rennur niður brekkurnar og í gegnum
Nestún austan til og til sjávar í svokallaðri Hellisfjöru. Lækur þessi heitir Borgarlækur en
gilið, í Nestúni er hann rennur um, heitir Borgargil.
Neðan undir áðurnefndum Engjahjalla meðfram sjónum á milli Nestúns og Neshjáleigulæks er
nokkuð stórt, dálítið hallandi, mýrlent graslendi en meðfram sjónum eru þurrir og nokkuð þýfðir bakkar. Svæði
þetta heitir Nesengjar eða Nesmýrar. Austan í endanum á Sniðabrekkunum og Sniðahjallanum er
brött brekka frá hjallabrúninni og niður í Neshjáleigudal er tekur við þar fyrir austan. Brekka þessi heitir
Sniðakinn. (Sniðakinn er alveg slétt upp úr og niður úr). Á henni á dálitlu svæði er
lítill hjalli er Litli-Hjalli heitir.
Meðfram sjónum fyrir Neslandi eru þessi örnefni frá vestri til austurs: Merkilækjarbás heitir þar sem
Merkilækur rennur til sjávar. Austan við hann er tangi er Merkilækjartangi heitir. Austan hans er Keflafjara heitir og austan
hennar önnur fjara er Gerðisfjara heitir en á milli þeirra heitir Gerðistangi. (Í Keflafjöru rak
mikið af keflum (stuttum rekaviðarbútum)).
Austan við Gerðisföruna er löng fjara undir Nesmelunum er Melafjara heitir. Hún nær austur á móts
við Nestún vestan til. Austan við hana er klettatangi og austan í honum vogur er Hundavogur heitir. Austan við hann er stakur klettur
í sjónum, toppmyndaður, er Kerling heitir. Í vog þessum er hægt að afferma og ferma báta er sjóveður leyfir. (Í
Hundavogi er leiðindalending. Þar gátu menn lent í hrakningum og blotnað. Af þessu gæti nafnið verið dregið sbr.
að vera eins og hundur dreginn af sundi. Vogurinn er eiginlega beint fyrir neðan bæinn, aðeins gentið til suðvesturs).
Austan við vog þennan er alllöng nokkuð stórgrýtt malarfjara er Nesfjara heitir. Austan við hana er forvaði og austan hans
önnur fjara er Hellisfjara heitir. Bakkinn yfir báðum þessum fjörum er hár og brattur, klettalaus yfir Nesfjöru en klettar
yfir Hellisfjöru og nokkur skúti undir þeim.
Mikinn þara rekur oft í Hellisfjörum og er þá ágæt þarabeit þar fyrir sauðfé en hættuleg í miklum
brimum vegna forvaðans er áður er nefndur. Stórgrýtt fjara er austan við Hellisfjöruna en austan við hana er vogur er
Hvalvogur heitir. Nokkuð fyrir austan hann er dálítill tangi er Hjalltangi heitir. Á honum stóð áður fiskhjallur er
notaður var fyrr á árum er róið var til fiskjar frá Nesi á árabátum. (Hjalltangi gæti dregið nafn af hjalla
undir fiskmeti).
Dálítið frá tanganum að austan er sérstæður, nokkuð stór klettur í sjónum og mjótt sund á milli hans og tangans.
Austan við tangann er dálítið breiður en stuttur vogur og austan við hann lágar hallandi klappir en dálítið hár bakki fyrir ofan. Vogur
þessi og klappir og dálitil malarfjara við enda vogsins heitir einu nafni Miðlending. Klappirnar halda áfram dálítið austur frá
Miðlendingunni og enda þar sem áðurnefndur Neshjáleigulækur rennur í sjóinn. Austasta hornið á þeim
heitir Lækjarklöpp. Er þar stundum lagt að á árabátum þegar erfitt er að lenda.
Upp af bænum á Nesi er hóll í túninu er Hesthúshóll heitir og dálítið fyrir ofan hann er
svæði í túninu er Björnskofatún heitir.