Þjóðleiðin um Njarðvíkurskriður.
Samgöngur á landi til og frá Borgarfirði hafa löngum verið erfiðar einkum vegna erfiðra skilyrða til vegagerðar og
hættulegrar leiðar með sjó fram. Frá fornu fari lá aðalleiðin frá Héraði út með Selfljóti að Krosshöfða og
þaðan yfir Gönguskarð til Njarðvíkur og síðan um Njarðvíkurskriður til Borgarfjarðar.
Njarðvíkurskriður voru áður fyrr taldar afar erfiðar yfirferðar, einkum á vetrum vegna snjóflóðahættu og hættu á
aurskirðum í stórrigningum.Við slíkar aðstæður gátu vegfarendur verið þar í lífshættu. Í skriðunum eru
þverhníptir klettar með sjónum en ofan við þá brattar lausaskriður, sundurgrafnar af giljum.Gamla reiðleiðin mun hafa legið talsvert neðar
en núverandi vegur en þó með mörgum bugðum bæði upp og niður og sums staðar niður undir klettanafir. Þetta var aðeins mjó
reiðgata og ef mönnum eða hestum skrikaði fótur á svelli eða harðfenni eða þeir lentu í snjóflóði var þeim voðinn
vís.
Fyrr á öldum má ætla að einhver banaslys hafi orðið í Njarðvíkurskriðum umfram þau sem heimidir greina frá, en vitað er
um sex menn sem þar hafa farist. Síðasta banaslysið í skrið-unum varð 9. desember 1909, er tveir menn frá Borgarfirði fórust þar í
snjóflóði, en þriðji maðurinn, sem var spölkorn á eftir félögum sínum þegar snjóflóðið féll, slapp
heill á húfi. Ferð þeirra hafði verið heitið upp að Krosshöfða við Selfljótsós, en þar var þá verslun á
vegum Framtíðarinnar á Seyðisfirði. Maðurinn sem ekki lenti í snjóflóðinu 1909 hét Benedikt Gíslason. Hann var
hálfbróðir Sigfúsar á Hofströnd og faðir Sigvarðar er síðar varð bóndi þar. Benedikt bjó þá á
Hjallhól á Bakkagerði ásamt konu sinni Þorbjörgu Steinsdóttur og börnum þeirra. Auk heimilda um mannskaða í skriðunum eru
varðveittar heimildir um að hestar vegfarenda hafi hrapað þar og sauðfé sömuleiðis.
Akfær bílvegur frá Egilsstöðum um Vatnsskarð til Njarðvíkur og síðan um Njarðvíkurskriður til Borgarfjarðar var loks
opnaður 1954. Var vegurinn þá færður talsvert ofar í skriðurnar en gamli reiðvegurinn sem fyrr getur. Nýi vegurinn var í fyrstu mjór og
lítið páss til að mætast en hann hefur smám saman verið breikkaður mikið. Er vegurinn nú orðinn mun öruggari og betri en áður
var, þó snjóflóð geti enn fallið þar við vissar aðstæður að vetri til.
Krossinn í skriðunum og óvætturinn Naddi.
Krossinn í
skriðunum með latneskri áletrun og ártalinu 1306 hefur lengi verið mönnum ráðgáta. Hefur margt verið skrifað um krossinn og ýmsar
skoðanir komið fram um aldur hans og tilefni þess að hann var settur upp og alltaf endurnýjaður. Þjóðsagan um óvættinn
Nadda tengist skriðunum og krossinum, sem stundum var kallaður Naddakross samanber þessa gömlu vísu: Nú er fallinn Naddakross./Nú er fátt er styður
oss,/ en – þú helgi klerkakrafur -/ krossinn láttu rísa upp aftur.
Virðist mega ráða af vísunni að höfundur hafi trúað þvi að krossinn veitti mönnum er fóru um skriðurna vernd gegn
óvættum eða illum öflum og því væri fátt til varnar er krossinn var fallinn.
Þjóðsagan um Nadda er til í fleiri en einni útgáfu. Sagan segir að á dögum niðja Björns skafins hafi að
mestu lagst af þjóðleiðin um Njarðvíkurskriður vegna óvættar.Var hann að hálfu í mannslíki en að hálfu í
líki dýrs og hélt hann sig í gili sem síðan er kallað Naddagil. Sat óvættur þessi þar fyrir mönnum, einkum er dimma
tók, réðist á þá og drap marga. Segir sagan að um haust og vetur hafi heyrst heim að Njarðvík eins og eitthvað væri að nadda og
glamra á grjótinu í skriðunum, og þess vegna hafi menn kallað óvætt þennan Nadda.
Eitt sinn síðla hausts er sagt að Jón sonur Björns skafins hafi komið að Snotrunesi í Borgar-firði seint um kvöld og
ætlað til Njarðvíkur. Bað heimilisfólkið hann að leggja ekki svo seint í ferð yfir skriðurnar. Hann vildi þó ekki breyta
ætlan sinni, kvað sig ekki myndi saka og hélt sína leið. Er hann kemur að fyrrnefndu gili réðist óvætturinn á hann.
Urðu átök þeirra bæði hörð og löng. Bárust þau á jaðar þann er Krossjaðar heitir. Þar sleit
óvætturinn sig lausan og dragnaðist niður í sjó. Var síðar settur upp kross á þessum stað sem er þar enn. Sagt
er að Jón hafi komist til Njarðvíkur eftir átökin við Nadda þjakaður mjög.
Á krossinum er eftirfarandi áletrun á latínu: EFFIGIEM CHRISTI QUI TANSIS PRONUS HONORA: ANNO MCCCVI. (Þú sem framhjá gengur,
fall þú fram og hreiðra mynd Krists: Árið 1306). Íslenska þýðingin á þessari latnesku áritun hefur einnig verið
færð í bundið mál í eftirfarandi vísu eftir óþekktan höfund:
Þú sem framhjá fer
fram fall í þessum reit
og Kristí ímynd hér
auðmjúkur lotning veit.
Fyrrnefnd áletrun á latínu er víða þekkt og mun vera upphaf á ævafornu latnesku kvæði, sem er að finna í
bréfabók Gregoríusar páfa mikla d. árið 604. Upphaf kvæðisins hljóðar svo: Effigiem Christi qui transis pronus honora
non tamen effigiem sed quem designat adora. (Tilbiðjið þó ekki myndina heldur þann er hún sýnir). Stór róðukross með þessari
áletrun var lengi í dómkirkjunni í Skálholti. Hann er nú varðveittur á Þjóðminjasafni Íslands. Þetta gæti
hugsanlega bent til þess að krossinn í skriðunum hefði upphaflega verið róðukross, en áletrunin verið látin halda sér þegar
krossinn var endurnýjaður, þó Kristslíkneskið væri horfið.( Sbr.: Þorvaldur Thoroddsen 1914. Ferðabók III. b. bls.305-306).
Greinilegt misræmi er milli ártalsins 1306 og sögunnar um Jón þann Björnsson er átti að hafa glímt við Nadda. Jón þessi var
uppi nálægt siðaskiptum eða á fyrrihluta 16. aldar og munar þar 200 til 250 árum. Ef ártalið á krossinum væri rétt eða
nærri lagi hefði krossinn verið settur upp í kaþólksum sið en ekkert verður fullyrt um aldur hans eða tilgang.
Við þessa samantekt hefur einkum verið stuðst við bók Ármanns Halldórssonar. Í neðra og efra. Reykjavík 1979, grein um
Njarðvíkurskriður eftir Ármann Halldórsson og Andrés Björnsson í Múlaþing 6. h.1971og Magnús H. Helgason o.fl. 1995.Saga
Borgarfjarðar eystra.
Guðgeir
Ingvarsson frá Desjarmýri.