Í apríl 2014 unnu nemendur í 7.-10. bekk með ýmsar heimildir til að komast að því hver saga skólans á Borgarfirði eystra væri. Meginmarkmið kennslunnar var að kynna þeim sögu skólans en jafnframt að þau myndu kynnast nokkrum leiðum í heimildaöflun og úrvinnslu heimilda. Nemendur ákváðu að segja hér sögu skólans út frá þeim húsum sem kennsla hefur farið fram í í þorpinu og nær samantekt þeirra til ársins 1997 eða þess tíma þegar skólinn flutti úr félagsheimilinu Fjarðarborg í núverandi skólahúsnæði. Heimaverkefni hjá nemendum var að spjalla við foreldra sína um skólagöngu foreldranna. Í tengslum við þetta verkefni heimsótti ég Magnús í Höfn sem sagði frá eigin skólagöngu en því næst fengu nemendur að heyra af þeirri upplifun Magnúsar. Nemendum þótti skólaganga hans merkileg, enda mjög óvenjuleg saga þar á ferð miðað við þeirra eigin skólagöngu. Magnús gekk einn vetur í skóla og gisti hjá vinafólki í Bakkagerði þann vetur, þar sem Höfn var ekki í göngufjarlægð frá skólanum. Þá var kennt 6 daga vikunnar í húsnæði sem nú er hreppsskrifstofa. Kennslugögn voru fábrotin og aðferðir sumar aðrar en nú tíðkast en einna merkilegast þótti nemendum að brot úr hauskúpu hefði verið uppi í hillu í skólastofunni á þessum tíma. Það brot sagði Magnús að hefði verið eignað Valtý á grænni treyju en nú ekki er vitað hvar brotið er niðurkomið.
Foreldrar sögðu börnum sínum margar skemmtilegar sögur sem krakkarnir síðan deildu með samnemendum sínum. Meðal annars heyrðum við af ýmsum óknyttum og viðburðum þar sem nemendur tóku málin í eigin hendur! Við heyrðum um stranga, góða, erfiða og hjálpsama kennara, allskonar fjöri og námsaðstæðum. Af þessu höfðu allir gaman og sögurnar kenndu okkur að saga skólans er litskrúðug og margbreytileg eftir því hver segir frá, hvenær viðkomandi gekk í skóla og hverju sagnamaðurinn velur að segja frá.
Aðrar heimildir en munnmæli foreldra og annarra Borgfirðinga, voru ljósmyndir sem finna má á borgarfjarðarsíðunni og ritið Saga Borgarfjarðar eystra frá 1995 í ritstjórn Magnúsar H. Helgasonar notaðar en nemendur rituðu þann texta sem hér fer á eftir.
Svandís Egilsdóttir skólastjóri 2013-
Gamli skólinn
1880 kváðu lög á um að íslensk börn skyldu fá fræðslu í reikningi og skrift. Áður en venjulegt skólahald í sérstöku skólahúsnæði varð byggt sáu prestar oft um kennslu barna. Fyrsta húsnæði undir skólahald í þorpinu í Bakkagerði var í Bindindishúsinu en það hús brann árið 1905. Eftir brunann var kennt í húsum í Bakkabyggð segir í Sögu Borgarfjarðar eystra.
Fyrsta byggingin sem byggð var undir skólahald var timburhús sem flutt var inn frá Noregi í bútum. Bútunum var púslað saman og húsið reis á Hjallhólnum árið 1906, en þá um haustið hófst kennsla í því. Á þessum tíma var skylda að kenna tvær kennslustundir í kristinfræði á viku og þrjár í söng. Þorstein M. Jónsson var skólastjóri á árunum 1910 -1920. Hann stofnaði unglingaskóla á Borgarfirði 1909 og hafði umsjón með honum í 10 ár, eða þar til sá skóli hætti. Í tengslum við unglingaskólann var stofnað sérstakt unglingaskólafélag árið 1915 sem starfaði sem ungmennafélag. Því félagi var breytt í ungmennafélagið UMFB árið 1917.
Í grunnskólanum sungu börnin á árunum 1913-1914 á hverjum morgni, sálm eða ættjarðarljóð segir í Sögu Borgarfjarðar eystra.
Þann 5. mars 1938 skemmdist gamla grunnskólahúsið mikið í ofsaveðri og var nánast ónothæft til kennslu eftir það. Nýtt skólahús var byggt sumarið 1939 á svokölluðu Skólatúni. Sérhver sem hafði heilsu til og var á aldrinum 16-60 ára sá um eitt dagsverk við nýju bygginguna.
Apríl 2014. Karó, Bóas og Jónatan
Nýi skóli
Nýtt skólahús var byggt á Skólatúni en yfirsmiður var Sigurður Jónsson á Sólbakka. Veturinn 1936-1937 byrjuðu 7-9 ára börn í skólanum og voru þau í þrjár vikur. Aðrir fengu kennslu eftir það. Á tímabilinu 1942-54 var Sigrún Pálsdóttir eini kennari skólans og skólastjóri, en Sigrún starfaði sem skólastjóri til 1966. Kennt var sex daga á viku árið 1946 en þá voru nemendur frá Borgarfirði einu ári lengur en flestir aðrir í skóla. Fyrsta árið sem unglingaskóli var starfræktur var nemendum kennt í húsinu Vinaminni árið 1963-1964. Þá voru nemendur 10-15 í deildinni. Flestir nemendur voru í raun eldri en þeir áttu að vera í deildinni. Unglingaskóli þessi var utan við hefðbundið menntakerfi þar sem unglingaskóli var ekki viðurkenndur hér á þessum tíma. Stofnuð var unglingadeild árið 1964-1965, en þá fór nánast öll kennsla fram í Ásbyrgi. Það fór þannig að árið 1967 flutti skólinn í Fjarðarborg. Var þessu skólahúsnæði (nýja skóla) þá breytt í sjoppu og olíusölu en síðar hafði saumastofan Nálin aðsetur sitt þar. Í dag er húsnæðið notað undir skrifstofu hreppsins og Landsbankann.
Apríl 2014. Jörgen, Hrafnhildur og Nanna
Fjarðarborg
Skólinn flutti yfir í Fjarðarborg árið 1967. Það ár breyttist nafn skólans úr Barnaskóla Borgarfjarðar í Barna og unglingaskóla Borgarfjarðar. Frá þeim tíma sá skólinn um kennslu barna til 15 ára aldurs. Haustið 1966 var öll kennsla unglingadeildarinnar flutt í barnaskólann og deildin viðurkennd af skólayfirvöldum árið 1967. Það skólaár voru nemendur 16 að tölu. Skólaárið 1970-1971 voru nemendur 64 að tölu sem er af heimildum greinilega mesti fjöldi barna við skólann frá upphafi. Eftir þann tíma fór fólksfækkun áþreifanlega að segja til sín á Borgarfirði sem og fjöldi nemenda í skólanum. Skólaárið 1975-1976 voru nemendur 35 en fimm árum síðar einungis 17. Eftir 1981 fjölgaði á ný þrátt fyrir áðurnefnda fólksfækkun. 1990-91 voru nemendur 30 en 25 að tölu árið 1993-94.
Á árunum 1971-94 eða á tuttugu og þremur árum gegndu 13 manns skólastjórastöðu við skólann á Borgarfirði eystra, þar af 9 aðeins einn vetur. Aðeins fjórir skólastjórar störfuðu lengur, einn í tvö ár, tveir í þrjú ár og Ólafur Arngrímsson í sjö ár.
Skólablaðið Fjarðarpósturinn kom út þegar Auðunn Bragi Sveinsson var skólastjóri og kom blaðið út árlega í mjög mörg ár eða frá árinu 1981-2011.
Apríl 2014. Sylvía, Sara og Michal
Skólinn starfaði í húsnæði Fjarðarborgar til ársins 1998 en þá fluttist starfssemi hans í núverandi byggingu. Skólinn kallast nú Grunnskóli Borgarfjarðar eystra. Undir sama þaki og sömu stjórn er þar nú rekinn leik- og grunnskóli. Fjarðarborg er einnig nýtt daglega því þar er mötuneyti skólans og samkomusalur.
Skólastjórar frá árinu 1910
Þorsteinn M Jónsson 1910 - 1920
Anna Guðný Guðmundsdóttir 1920 - 1942
Sigrún Pálsdóttir 1942 - 1966
Sigurður Óskar Pálsson 1966 - 1971
Karl Erlendsson 1971 - 1972
Jón Daníelsson 1972 - 1973
Sigurður E.R. Lyngdal 1973 - 1975
Einar Þorbergsson 1975 - 1978
Sigurlaugur Elíasson 1978 - 1979
Páll Haraldsson 1979- 1980
Auðunn Bragi Sveinsson 1980 - 1983
Ólafur Arngrímsson 1983 - 1989
Hrafnhildur Valgarðsdóttir 1989-1990 ( leysir Ólaf af í leyfi )
Óðinn Gunnar Óðinsson 1990-1991
Sigríður Kristinsdóttir 1991-1992
Bergljót Njóla Jakobsdóttir 1992-1993
Sverrir Kristinsson 1993-1997
Gunnar Finnsson 1997-2007
Helga Erla Erlendsdóttir 2007-2013
Guðrún Ágeirsdóttir 2010 -2011 (leysir af í námsleyfi Helgu Erlu)
Svandís Egilsdóttir 2013-2016
María Ásmundsdóttir Shanko 2016-2018
Sigþrúður Sigurðardóttir 2018 -2020
María Pálsdóttir 2020-