Seljamýri

Eftir handriti Stefáns Baldvinssonar frá 1957
Viðbætur innan sviga eru eftir samtöl við Sigurð Stefánsson frá 1971

Landamerki eru Stóra-Hrauná að suðvestan og vestan og Skúmhattardalsá að norðvestan. Að sunnan er það sjórinn í firðinum en að austan er það Merkilækur er kemur úr gili í Hrafnatindum er heitir Krummagil og rennur þaðan til sjávar. Hrafnatindarnir eru bæði í Seljamýrarlandi og Neslandi. Þetta eru fremur lágir en langir klettar, dálítið ofar en í miðri fjallshlíðinni. Upp á þeim er smágrýtt slétt en nokkuð hallandi svæði, einkum efst, og nær það upp að dálitlum klettum í efstu brún fjallsins. Frá upptökum Merkilæksins í Hrafnatindum eru landamerkin bein lína upp á fjallseggina ofan við tindana, rétt austan við klettabríkur tvær er á fjallsegginni standa og heita Goðaborgir.  (Goðaborgir eru klettatappar).

Nálægt Goðaborgunum að vestan er gjá eða skarð í fjallsröðina og nokkuð vestar er önnur gjá í fjallsröðina. Gjár þessar eða skörð heita Tröllkonuskörð.

Fjöllin norðan við Seljamýrarland ráða landamerkjum á milli Seljamýrar og Húsavíkur. Þau eru, talið frá norðvestri: Skúmhöttur, Flatafjall og Bungufell.

Vestast í Seljamýrarlandi er Skúmhattardalur austan Skúmhattardalsár. Austan við hann gengur nokkuð há melabrík frá Flatafjalli og suðvestur að dalnum. Hún heitir Skúmhattardalsbrík. Fyrir botni dalsins í norðaustri er fjallið Skúmhöttur. Sunnan við Skúmhöttinn, á milli hans og Flatafjalls, er skarð, klettalaust en með bröttum skriðum þeim megin er að Skúmhattardalnum veit. Um það liggur ekki vegur en hægt að fara um það til Húsavíkur.

Austan við Skúmhattardalinn og Fitjar í Stakkahlíðarlandi, tekur við svæði, víða stórgrýtt, er nær frá Skúmhattardalsbrík og suður að Stóru-Hrauná. Þar er grenjaland mikið eða mest í Loðmundarfirði. Svæði þetta heitir Fitjahryggur. Landssvæðið frá Fitjahrygg og austur að svokölluðum Stokkhömrum er allt grýtt melaland en mikið gróið, aðallega lyngi, en gras sums staðar í dældum.  (Stokkhamrar eru eins og stokkar.  þeir standa upp á endann).

Næst Stóru-Hraunánni er allbreitt svæði, mjög hallalítið, er heitir Fjatafjall. Norðaustan við það hækkar landið nokkuð og eru þar hryggir sem byrja rétt austan við Fitjahrygginn og liggja frá norðvestri til suðausturs á löngu svæði eftir fjallinu. Hryggir þessir heita Grenishólar. Á milli þessara hryggja eru sums staðar djúpar dældir og í einni þeirra er stór og djúp tjörn er heitir Grenishólavatn.

Efsti hluti fjallsins norðaustan við Grenishólana og austur að Stokkhömrum eru hallandi og hækkandi melabungur upp að Flatafjalli og Bungufelli.

Austasti endi Grenishólanna er kallaður Grenishólatagl. Upp af því í fjallinu er dæld, grasigróin, er Töðubotn heitir. Lækur rennur úr honum niður austan við Grenishólataglið og sameinast Litlu-Hrauná sem hefur upptök í áðurnefndu Grenishólavatni.

Nokkuð fyrir austan Grenishólana og neðar en þeir að miklu leyti, er brekka er liggur frá Stóru-Hrauná og upp að löngum hrygg er liggur til austurs, dálítið neðan við áðurnefnda Stokkhamra. Brekka þessi heitir Selbrekka en nefndur hryggur er melur að ofan en gróinn til hliðanna og heitir Selhryggur. (Selbrekka kemur þvert í ána en Selhryggur veit frá suðaustri til norðvesturs og kemur í endann á Selbrekku).

Á milli Selhryggsins og urðanna neðan við klettana í Stokkhömrum er djúp dæld, lokuð með hárri brekku í norðvesturendanum en opin austur úr og heitir hún Hamrakverk. Stokkhamrarnir eru dálítið háir klettar niður af miðju Bungufellinu sem er norðaustan við þá. Þeir eru ekki langir frá vestri til austurs. Upp af austurenda þeirra gengur töluvert stór klettabrík suður úr Bungufellinu er Rjómatindsbrík heitir og er hún samnefnd dálítilli klettabrík upp á suðurbrún Bungufellsins, beint upp af Rjómatinsbríkinni og heitir hún Rjómatindur. (Rjómatindur var af ömmu Sigurðar engu síður kallaður Ljómatindur heldur en Rjómatindur..  Í sólarupprás byrjaði oft að ljóma á þessari brík.  þetta er klettabrík og enginn rjómalitur á henni).

Neðan við Selhrygginn, austan selbrekkunnar suður að Stóru-Hrauná og austur undir graslendi, er Litla-Hraunáin rennur um, er allstórt mólendi er Selmóar heita og eru þeir allmikið lægri en landið vestan við Selbrekkuna. Skammt austan við Selbrekkuna, á móunum sunnan við Litlu-Hraunána, stóðu fyrir allmörgum árum beitarhús frá Seljamýri er Sel hétu en eru nú niðurlögð.

Austan við Stokkhamrana er nokkurt harðvillisgrassvæði er Engi heitir. Austan við það eru hallandi móar og háir melar. Nokkuð fyrir austan Selmóana sveigir Litla-Hraunáin meira til suðausturs og síðan til suðurs og rennur til sjávar nokkuð fyrir austan Stóru-Hrauná. Meiri hlutinn af fjallshíðinni austan Stokkhamra og Rjómatindsbríkur er að miklu leyti nokkuð brattar urðir og melabungur.

Selmamýrartún eldra er neðan undir þessu fjallasvæði austan til. Vestur frá því, meðfram fjallinu, liggur grasslétta, mýri, vestur að Litlu-Hrauná. Svæðið frá Seljamýrartúninu og alllangt vestur á mýrina er kallað Myllublá en þar fyrir vestan og vestur að Litlu-Hrauná er svæðið kallað Vörðumelsblá. Réttara mundi þó ef til vill vera að kalla þessar einu nafni Seljamýrarblá.  (Í Myllublánni var lækur sem Myllulækur heitir.  Þarna eru rústir af myllu.  Þar var kvörn til að mala korn).

Ofan við svæðið sem kallað er Vörðumelsblá er nokkuð langur en lágur melur sem heitir Vörðumelur. Nokkurt graslendi er ofan við melinn á milli fjallsins og hans og heitir þar Hestasund og Hestabalar.

Austan við Engið sem áður er nefnt og er austan við Stokkhamrana eru háar og nokkuð fyrirferðarmiklar melabungur er Hnausar heita.

Ofan við Seljamýrartúnið er nokkuð hár og umfangsmikill melur er Króarmelur heitir. Austan við hann en ofan við túnið er djúp dæld er Króardokk heitir. (Var einnig nefnd Kró).  Vesturendi hennar gengur að Króarmelnum en til austurs er hún opin og slétt grasmýri austur frá henni.

Norðvestur af Króarmelnum eru nokkuð stórir grasbotnar er Botnar heita og skammt frá þeim harðvellisgraslendi er Kúabalar heita. Skammt suðvestur af vesturenda Hrafnatinda, dálítið neðar í fjallinu, er hallandi graslendi, uppgróið hlaup. Þar stendur stórt bjarg er heitir Einbúi. Nokkuð norðaustur af Króarmelsdokkinni er brött brekka neðst í fjallinu er Þrepabrekka heitir.  (Þrepabrekka er í smá þrepum).
 
Norðaustur af Seljamýrartúninu, en ofan við svokallaðan Selmýrarlæk, er nokkuð stórt graslendi er nær austur að Merkilæk og heitir það Selmýri. Ofan við hana ganga harðvelliskrikar upp í fjallið er Örvakrókar heita. (Örvakrókar eru smágeirar (gontur) upp í fjallið og því kallaðir svo). Suðaustur af þeim neðst er nokkurt grassvæði afmarkað af lækjum er Tunga heitir.

Neðan við áðurnefnda Myllublá suðvestur af Seljamýrartúninu eru nokkrir grjóthólar sem ná nærri vestur að Litlu-Hrauná. Þeir heita Hólar. Syðsta svæðið af Seljamýrartúninu heitir Borgarhóll.

Austur af Seljamýrartúninu sunnan Seljamýrarlæks er allstórt mýrarsvæði er Borgarhólsblá heitir. Hún nær austur að lyngmóum sem eru vestan Merkilæks. Móar þessir ná frá Seljamýrarlæk og niður að sjó. Þeir eru mikið breiðari, ná lengra til vesturs næst sjónum og heita þeir þar Mólönd. Vestan við Mólöndin er dálítið hallandi graslendi sem nær frá Borgarhólsblánni og ofan á sjávarbakkann og vestur að nýju túni á Seljamýri. Svæði þetta heitir Höll.

Allmikið nýtt tún hefur verið ræktað niður við sjóinn, bæði fyrir og eftir að íbúðarhúsið var byggt og önnur hús í nánd við tún þetta en gamli bærinn á eldra túninu lagður niður ásamt öllum útihúsum. Mikill hluti af þessu nýja túni er nefndur Grundir og nær hann niður að sjónum. Vestan við túnið og húsið eru dálitlir móar sem ná að Litlu-Hrauná. Vestur af húsinu er hár foss í Litlu-Hraunánni er steypist fram af þverhníptu bergi. Frá honum og til sjávar er stuttur spölur og rennur ánin þar í djúpu gili. Annars staðar er árgilið fremur grunnt.

Á milli Litlu-Hraunár og Stóru-Hraunár er allmikið landssvæði. Neðsti hluti þess næst sjónum er mýri og þýft harðvelli er Þýfi heitir. Sjávarbakkarnir neðan við þetta svæði eru háir og brattir og hæstir af sjávarbökkum í Seljarmýrarlandi.

Örnefnin við sjóinn fyrir Seljamýrarlandi verða hér á eftir talin frá vestri til austurs eða frá Stóru-HraunáMerkilæk. Næst Stóru-Hrauná er bás nokkuð stór er Rauðkollubás heitir. (Í Rauðkollubás er bergið dálítið rauðleitt upp af sjónum og gæti hann dregið nafn sitt af því).  Austast í honum er dálítill hellir inn í bergið.

Nokkuð austar, nærri Litlu-Hraunánni, er annar bás, nokkuð minni, er Bogabás heitir. (Hann er bogadreginn).  Fram af básnum vestast gengur tangi fram í sjóinn og er hann áfastur bakkanum fyrir ofan en opið vestur úr básnum undir klettaboga sem liggur frá tanganum og upp í bakkann.

Skammt austan við Litlu-Hraunána er dálítill bás með nokkuð háum bríkum til beggja hliða. Hvítleitt grjót er í berginu ofan við básinn og heitir hann Mjólkurskúti. Austur frá honum er stórgrýtt fjara austur að tanga sem gengur út í fjörðinn. Hann heitir Snorrakirkjutangi. Nokkuð frá tanganum að austan er sérstakur, nokkuð langur klettur í sjónum, og er nokkuð djúpt sund á milli hans og tangans en beint upp af sundinu, undir bröttu og nokkuð háu bergi, er bás og í honum mjó malarfjara. Básinn, sundið og kletturinn heita einu nafni Snorrakirkja. (Aldrei fengið skýringu á nafninu Snorrakirkja.  Á klettunum við sjóinn eru tveir klettadrangar sem standa upp úr.  Við þá lágu bátar og var taug þá slegin utan um þessa dranga).  Austan við Snorrakirkjubásinn er annar bás er heitir Hvalbás. Í þessum básum er hætta fyrir sauðfé í miklum brimum.

Austan við Hvalbásinn er nokkuð löng fjara, sums staðar stórgrýtt, er nær austur að stórum tanga er Seljamýrartangi heitir. Tangi þessi liggur nokkuð út í fjörðinn. Vestan í honum er hægt að setja árabáta á land en austan í honum er dálítill vogur er Seljamýrarvogur heitir. Þar er hægt að ferma og afferma báta er sjór er sæmilega stilltur.

Frá Seljamýrartanga og austur að Merkilæk eru klettarnir við sjóinn fremur lágir og jafnir. Austan undir Seljamýrartanganum er lítill bás eða skúti undir berginu er Gránuskúti heitir. (Gránuskúti dregur nafn sitt af því að upp af honum er bergið svo grátt).  Skammt fyrir austan hann er stuttur en nokkuð breiður tangi er Langavogstangi heitir. Vestan í tanganum er nokkuð langur grunnur vogur sem liggur frá vestri til austurs inn í tangann. Framan við hann á nokkru svæði eru lágir klettar en vogurinn opinn vestur úr. Hann heitir Langivogur.

Við austurhorn tangans er sker, dálítið frá landi, er Kristínarsker heitir. (Kristínarsker er flatt sker, berghallur upp úr sjónum og flæðir alveg yfir það á flóði.  E.t.v. eitthvað um það hjá Sigfúsi Sigfússyni).  Á nokkru svæði austur frá tanganum heita klettarnir fyrir fjörunni Votubjörg. Undir þeim er fjaran sums staðar grýtt en annars staðar flúðir sem eru undir sjó nema um háfjöru. Austan við þetta svæði er lítill vogur er Tvöfaldavogur heitir. Fram undan honum eru tvær klettabríkur með skoru á milli og lausar frá berginu fyrir ofan. Þær heita Tvöfaldi.   Fram undan þeim er grynning í sjónum og á henni boði er Tvöfaldiboði heitir. (Þegar róið var á árabátum og sá í Einbúann var maður frír af Tvöfaldanum).

Nokkru austar eru klappirnar dálítið hærri við sjóinn og tangi þar, allbreiður en fremur stuttur, er Tjaldstapatangi heitir. Inn í hann gengur djúpur vogur, fremur mjór er Tjaldstapavogur heitir. (Í Tjaldstapavogi var ágæt lending).  Nokkru austar við Merkilækjarbás heitir Merkilækjarklöpp.

Viðbót frá Örnefnastofnun.

Sigurður Jónsson, Sólbakka, Borgarfjarðarhreppi (f. 12. 1. 1900), skráði athugasemdir og viðbætur við örnefnaskrá Seljamýrar í desember 1974.

Sigurður nefnir Krummagil  Hrafnagil.
Vestan Skúmhattar er skarð til Borgarfjarðar.
Höllabotnar heita hækkandi melbungur upp að Flatafjalli og Bungufelli.   Sigurður nefnir Töðubotn Töðubotna. Lækjamót heita, þar sem lækur úr Töðubotnum sameinast Litlu-Hrauná.
Austan við Hnausa  er Kollóttimelur, þar upp af Langihryggur og Grjótbotnar.
Sigurður nefnir Bogabás Helli.
Tjaldstapavogur gengur inn í klappirnar utan við Tvöfaldahæð. Sigurður segir, að klöppin, sem nefnd er Merkilækjarklöpp í skránni, heiti Flataklöpp. Hann nefnir Tröllkonuskarð, ekki Tröllkonuskörð, og segir það vera innar á fjallsegginni en Goðaborgir.