Einu sinni var stúlka á Bárðarstöðum eða Úlfsstöðum í Loðmundarfirði í Norður-Múlasýslu sem
Þórný hét. Hún var ung og glensmikil, kát og léttúðug og lauslát mjög. Sótti hún mjög eftir
gleðisamkomum, einkum dansleikjum þeim er hétu vikivakar. Var hún og danskona mikil og hafði svo fagra rödd að til var tekið. Fyrir lauslæti
sitt varð hún ólétt og leyndi því allt hvað hún gat því hún hugði á það eina að fyrirfara barninu.
Ól hún það svo án barnsfarssóttar og fól það í kvíavegg því hún var þar þá
stödd. Vissi enginn það með vissu fyrst um sinn. Nú kom að því að þar átti að halda vikivaka. En er hún var
að mjalta ær með annarri konu fáraðist hún mikið um það að hún ætti engin föt sér samboðin til að vera í
í leiknum. Þá heyrist kveðið á veggnum:
Móðir mín í kví, kví,
kvíddu ekki því, því,
ég skal ljá þér duluna mína
að dansa í - að dansa í
Þórnýju brá nokkuð svo við þetta. En ekki lét hún það á sér festa og tók
þátt í dansleiknum með gleðskap og kvað hátt. Þá gerði kuldanepju og hríð úti. En er hæst lét inni
heyrist kveðið á glugga danssalarins með barslegri röddu:
Kátt er hér en kalt er úti veður,
þó er ég sonur1 Þórnýjar
þeirrar sem mest kveður.
Við þetta brá mönnum illa. Er það sögn sumra manna að Þórnýju brygði svo við þetta
síðara ávarp að hún varð aldrei jafngóð því hún vissi að þetta var barnið sem hún hafði borið
út. Hafði það nú tvívegis auglýst sekt hennar og glæpaverk er nú komst upp og kallaði hann hefnd yfir hana seka. hún
varð og ólánssöm fyrir glæpsku sína. En útburðar þessa verður enn vart þar á milli bæjanna og hefir löngum
þótt heyrast til hans á undan stórviðrum og áfellum.
„Partur af þessari sögu er í Þjóðsögum og ævintýrum ( I,217-218 og III, 290 ) og það er fyrri
vísan en sú síðari hefir gengið hér eystra í munnmælum með. En ekki segja nema sumir menn að báðar vísurnar hafi
verið kveðnar við sömu stúlkuna. En ég tók það sem fyllst var. Sm. Guðrún húsfreyja að Úlfsstöðum
í Loðmundarfirði og fleiri menn um 1900. SS
1) dóttir