Svo er mælt að fyrrum hafi tvö systkin verið; hét pilturinn Herjólfur og er Herjólfsvík við hann kennd, en
stúlkan hét Gunnhildur og er Gunnhildardalur við hana kenndur. Þau áttu kafla úr Húsavíkurlandi, það er að segja allan Gunnhildardal
ofan í á og alla Herjólfsvík.
Eitt sinn töluðu þau það með sér að þau skyldu fara að búa og kom þeim ásamt um að skipta milli sín því
er þau áttu saman; hlaut hann þá Herjólfsvíkina, en hún dalinn.
Fjölgaði fé þeirra óðum og gekk fé hennar á land hans; mislíkaði honum það mjög og beiddi systur
sína að gæta fjár síns betur og kvaðst hann ekki vilja mæta ágangi af fé hennar. En Gunnhildur svaraði illu um og sagði að hann
skyldi gæta síns eigin fjár betur svo það gjörði sér ekki ágang.
Heittist hann þá við systur sína, en hún kvaðst ekki mundi hræðast stóryrði hans; en hana grunaði hvað
hann ætlaði sér og flutti því þegar allt úr bæ sínum um kvöldið ofan undir hól einn sem er niður með Gunnhildará
og er hann nú kallaður Hlífarhóll.
Um nóttina hleypti Herjólfur skriðu ofan úr fjallinu og á bæ hennar og sést enn hlaupið fyrir neðan
Gunnhildará. En hún lét sér ekki bilt við verða, heldur hleypti á hann skriðu úr fjallinu sem er fyrir ofan Herjólfsvík og liggur
hann þar undir með allt sitt. En hún flutti ofan á Gunnhildarsel og bjó þar til elli.