Bárðarstaðir

Eftir handriti Stefáns Baldvinssonar frá 1957
Viðbætur innan sviga eru eftir samtöl við Sigurð Stefánsson frá 1971

Bárðarstaðaland er allt í svokölluðum Bárðastaðadal norðan Fjarðarár.

Meðfram dalnum að norðan liggur hátt og bratt fjall er Herfell heitir.  (Herfell er gróið upp í skriður en fremur svart að ofan). 

Fyrir botni dalsins, þar sem farið er upp á fjallveginn , eru nokkuð háir klettar með rák í miðju er heita Klif. Innan við Klifin, norðaustur af Tónni, innst undir Herfellinu, eru gróðurlausir grýttir botnar er Jökulbotnar heita. Í þeim liggja oft stórar fannir mikið af sumrinu. Næst Klifunum innst í Bárðardalnum er nokkurt svæði er heitir Háls. Ofan við Hálsinn, nærri urðunum í Herfellinu, eru tveir klettahöfðar er heita Hvannafell.  (Þarna inn frá við Hvannafell vex talsvert af hvönn og talsvert af njólum). 

Utan við Hálsinn, austar í dalnum, eru nokkuð stórar mýrar er Selmýrar heita. Þar var stundum heyjað fyrr á árum. Austan við Selmýrarnar eru lyng- og hrísvaxnir urðarhryggir frá Herfellsurðum og niður að Fjarðará. Austan við þetta svæði taka við aðrar mýrar er Miðmýrar heita. (Miðmýrar eru ekki samfellt gróið land).  Þær eru minni en Selmýrarnar. Upp af Miðmýrunum, upp undir fjallinu, eru grasivaxnar dældir er Kúabotnar heita.

Svæðið austan Miðmýra, frá Fjarðará og upp að Herfelli og austur að Bárðarstaðatúni, eru móa- og melahryggir, nokkuð gras-, lyng- og hrísvaxnir.

Austan Miðmýranna, vestan til á þessu svæði, liggur djúpt gil upp í gegnum hjalla sem eru í Herfellinu og alla leið upp á brún á því. Gil þetta heitir Hafurgil. Vestan við Hafurgilið eru dálitlir hjallar í Herfellinu en sundurslitnir og mjög lítið undirlendi á þeim. Austan við Hafurgilið eru hjallarnir í fjallinu stærri og eru þeir þrír, hver upp af öðrum. Á þeim eru töluverðar engjar, einkum neðsta hjallanum. Hann hefur stundum verið kallaður Bæjarhjalli og hjallarnir allir eru einnig nefndir Bárðastaðahjallar.

Austan til í brekkunum undir Bæjarhjallanum, norðaustur af Bárðastaðabænum, eru hallandi grassvæði – engjar –  sem heita Hundaenni.

Austan við Bárðastaðatúnið er nokkuð stór hallandi mýri sem nær frá Fjarðará og upp að brekkunum í fjallinu og austur að svokallaðri Bárðarstaðahjáleigu eða Hjáleigu sem hún er venjulega nefnd. Þar eru beitarhús frá Bárðarstöðum og nokkurt tún í kringum þau.

Áðurnefnd mýri á milli Bárðarstaða og Hjáleigu er venjulega nefnd Bárðarstaðamýri. Norðaustur af Hjáleigunni, í brekkunum við landamerkin á milli Bárðarstaða og Úlfsstaða, er töluvert engjasvæði er heitir Hjáleiguengjar.

Í brekkunni við Hjáleigutúnið er dálítil klettahæð er Sjónarhraun heitir.  (Sjónarhraun er það lengsta sem sést í norðaustur frá bænum).

Landamerki Bárðarstaða að austan: Sjá Úlfsstaði.