Fuglalíf

Lundi í HafnarhólmaAllgóð vitneskja er til um stofnstærðir og varpdreifingu tegundanna sem verpa í Hafnarhólmanum á Borgarfirði eystri.  Allar njóta þær verndar að einhverju leyti samkvæmt fuglaverndarlöggjöfinni þó heimilt sé að veiða þær allar nema æðarfuglinn sem er alfriðaður á Íslandi.

Íslendingar hafa nýtt fugla á ýmsan hátt frá fornu fari og hefur kjöt og egg trúlega vegið þar þyngst framan af en síður í seinni tíð.  Þá hefur æðardúnn verið notaður í svefnbúnað landans og er mikilvæg útflutningsvara sem nýtt er á vistvænan hátt.  Hátt í 100 þús. kr. fást fyrir 1 kg af hreinsuðum æðardúni sem er í um 50-60 hreiðrum. 

Flestar tegundirnar njóta góðs af fiskveiðum Íslendinga en einhver samkeppni kann að vera um fæðuna milli manns og lunda.  Fýlar sveima með fiskiskipum og grípa það sem fyrir borð er borið.  Það gera ritur líka. 

Með aukinni kræklingarækt við strendur landsins er hætt við hagsmunaárekstrum við æðarfugl.  Öll ættum við að geta lifað í sátt við þessar tegundir um ókomna tíð.