Gilsárvellir.
(eftir handriti Eyjólfs Hannessonar).
Eins og áður er getið eiga Gilsárvellir ystu spilduna af Tungunum. Nær það land inn að
skálinni sem liggur beina stefnu úr Reiðingskelduósi norðan Fjarðarár í Myrkárgil sunnan
Þverár um djúpan skorning í norðurbarmi Þverárgils.
Innan við Þverána, frá bugnum, þar sem hún beygir frá Suðurfjöllum liggja sléttar eyrar og
grasbreiður, mest harðvelli, allt norður að Fjarðará. Það heita Þverárbakkar en
Þverártangi þar sem árnar koma saman. Samhliða Þverárbökkum en hærra liggur melhryggur,
Þverárásinn. Frá norðurenda hans fellur þverárkíll í Fjarðará innan við
Þverártanga. Inn frá Þverárás liggja Öldurnar sem áður er getið. Sunnan
við þær mýrardrög, Sundin. Sunnan við þau, inn með Þverárgili nafnlaus holtabarða móar en
norðan við Öldur áðurnefndur Flói. Halda þessar landspildur sama heiti inn að landamerkjum.
Yst í Flóanum og innan við Þverárós er Álftatjarnarblá og í henni
Álftatjörn. Inn frá norðurenda á Þverárás og inn norðan við
Álftatjarnarblá hallar landinu meira norður til Fjarðarár. Það er Hallið. Yst undir
Hallinu og innan við Þverákíl er flöt mýri, Borgarbláin. Innan við hana er
Borgin, forn fjárborg. Innan við hana er Borgarkíll er liggur norður í Fjarðará. Norðan við Borgina og
Borgarblána, milli Borgarkíls og Þverárkíls heita bakkarnir meðfram Fjarðaránni
Borgarbakkar.
Norðan Fjarðarár skiptir Merkilækur löndum milli Gilsárvalla og Hvols frá Merkilækjarósi til fjalls.
Liggja síðan landamerkin sömu stefnu til efstu eggja. Landamerki milli Gilsárvalla og Grundar norðan
Fjarðarár eru frá áðurnefndum Reiðingskelduósi upp með Reiðingskeldu í
Stórasteini á Gilsárvallahól sem er hár hóll upp af utanverðu Grundartúni en inn og upp
frá Gilsárvöllum. Hefur þessi hóll á seinni árum verið nefndur Grundarhóll. Liggja landamerki áfram upp
yfir Hólinn og nær beina stefnu upp yfir Rauðamel í Hólmatjörn þar sem innri
Gilsárkvísl á upptök sín og áfram beina sjónhendingu til efstu eggja. Um þvert Gilsárvallaland, við
fjallsrætur, liggur langimelur. Landareign Gilsárvalla fyrir ofan hann heitir einu nafni Gilsárvallafjall. Áðurnefndur
Merkilækur milli Hvols og Gilsárvalla fellur um djúpt gil, Merkilækjargil, í Fjarðará. Inn með
Fjarðaránni frá Merkilækjargili er Miðmundarmelur. Er það hár og því nær veggbrattur hlaupbakki
niður í ána. Fyrir allmörgum árum gekk láglend nestá úr Miðmundarmelnum fram í
Fjarðarána nokkuð fyrir innan Merkilækjarósinn. Sá tangi hét Glæsuoddi. Við hann var
Glæsuoddahylur en út með Miðmundamelnum, fyrir utan Glæsuoddann, var miðmundarmelshylur. Á
undanförnum áratugum hefur Fjarðaráin svo að segja afmáð Glæsuoddann og sér nú aðeins votta fyrir honum hvar hann
var. Inn af Miðmundamel og lítið eitt fjær Fjarðaránni er Vörðumelur. Á honum hefur verið
þurrkaður svörður nokkur undanfarin ár og er hann nú nefndur Svarðarmelur. Ofan við hann er
Pyttalæksmýri. Niður hana fellur Pyttalækur en beygir út í Merkilæk ofan við
Miðmundamel.
Innan við Pyttalæksmýri og Vörðumel fellur Stekkalækur ofan úr fjalli niður í
Fjarðará. Heitir þar Stekkalækjarós sem hann fellur í ána. Innan við hann er Staðartangi yst á
lágri harðvellisræmu sem liggur inn með Fjarðaránni. Af Staðartanga er vað á Fjarðaránni. Það heitir
Kirkjuvað. Svo sem örskotslengd upp frá Fjarðaránni kemur Gilsá fram úr Gilsárgili,
móts við áðurnefndan Borgarkíl, sunnan fjarðarár og fellur þvert yfir umgetnar harðvellisræmur í
Fjarðará. Þar heitir Gilsárós. Frá Gilsárósi liggur lágur harðvellisbakki inn með
Fjarðaránni. Inn frá honum að ánni er flöt eyri. Yst af henni hefir um langt árabil verið grynning sem liggur út og suður yfir
ána, nefnd Stakkabrot. Innar við Kílsósvað. Það er skammt fyrir utan Ytri-Hólma.
Hann er í Fjarðará úti fyrir Reiðingskelduósi. Liggur yfir hann áður tilfærð landamerkjalína úr
Reiðingskeldusósi í Myrkárgil.
Ofan við harðvellisræmu þá er liggur með Fjarðará milli Stekkalækjar og Gilsár taka við hækkandi
holt og móabörð. Þar er Staðarmelur fram við Gilsá. Myndar hann útbrún á neðsta hluta
Gilsárgils. Upp frá Staðarmel og áðurnefndum móabörðum voru áður lítið hallandi móar
og mýrardrög upp undir Stekkamela sem liggja þvert milli Stekkalækjar og Gilsár. Nú er nokkur hluti
þessa lands orðinn að túni og á því byggt nýtt býli, Gilsárvellir II. Það stendur við
Gilsárgilið, skammt fyrir neðan Stekkamela.
Um Stekkamela eykst nokkuð hallinn á landinu og eins upp frá Pyttalæksmýri. Taka þar við
Gilsárvallaenni samfellt graslendi að mestu slétt upp undir Langamel. Utan frá Merkilæk og inn að
Gilsá. Þó eru tveir litlir melkollar skammt fyrir neðan Langamel. Er Kringlóttimelur utar og
Kúamelur skammt fyrir utan Gilsá. Inn við Gilsána, efst á ennum, er Stekkurinn, fornar
stekkjartættur og ber engjabletturinn næsti kring um Stekkinn sama nafn.
Upp frá bökkum Fjarðarár, milli Gilsár og Reiðingskeldu, eru hækkandi holt og mýrardrög upp undir
Börðin sem liggja frá Gilsá, móts við Staðarmel, neðan við
Gilsárvallatún og inn að reiðingskeldu. Allbreitt gil liggur gegnum Börðin upp framan við
Gilsárvallatún og beygir út að bænum. Það heitir Blautafit. Um hana fellur
Bæjarlækurinn. Hann er leiddur í bæinn úr Gilsá, skammt fyrir ofan túnið. Innan við
Blautufit er Barðamelur, var áður harðvellisþýfi. Nú er þar orðið tún frá
Gilsárvöllum III, býli sem byggt hefur verið í túninu, utan við Blautufit og lítið eitt neðan við
Gilsárvallabæinn gamla sem nú er nefndur Gilsárvelli I til aðgreiningar frá hinum býlunum. Neðan við
buginn, þar sem Blautafit beygir heim að bænum er ávalt hólbarð, Smiðjuhóllinn. Túnið fyrir neðan
bæ milli Gilsár og Blautufitjar var nefnt Niðurtún, upp að vegi sem liggur um Gilsárbrú
beint í hlaðið, við túnið er flöt mýri, niður á Börðin. Niður með Blautufit gengur
túnið nokkuð lengra niður eftir þúfnarana sem lítið eitt er hærri en mýrin fyrir utan. Það er Halinn.
Í Gilsárgili, rétt innan við ána neðan vegarins, er Gvendarbrunnur, kenndur við Guðmund biskup góða.
Ofan vegar og bæjar er Upptúnið. Í framhaldi af Blautufit liggur djúp laut upp frá bænum. Hún heitir
Kvíalág. Ofan við túnið er Kvíabrekka. Inn af henni rís Hóllinn – fullu nafni
Gilsárvallahóll sem áður er nefndur í sambandi við landamerki Grundar og Gilsárvalla. Innan við
Gilsárvallatún er auk þess sem áður hefir verið lýst mishæðalítil mýradrög upp að rótum
Hólsins sem eru lynggrónar og fara hækkandi upp að snarbrattri valllendisbrekku sem nær upp undir hólsbrún en þar fyrir ofan er
Hóllinn gróðurlaus. Utan til í Hólnum er Bláberjalág. Hún nær upp í
Hólsbrún. Upp af Kvíabrekku og Kvíamel liggur Hólmýrin upp með
Gilsánni allt upp að Langamel. En Kvíamelur er upp af Kvíabrekku upp með
Gilsá. Út af efri enda Kvíamels er foss í Gilsánni er heitir Gilsárfoss. Ofan
við Langamel er áframhaldandi mýrlendi. Það heitir Neðri-Græfur. Innst og efst í þeim er
Merkidý á landamörkum Grundar og Gilsárvalla. Upp frá Neðri-Græfum taka við
Efri-Græfur, smáhallandi holt með giljadrögum og grafningum en verða hallaminni þegar ofar dregur og samfelldara graslendi. Ofan við
þær, inn frá Gilsárgili, rís snarbrött brekka sem að ofan eru berir melkollar. Það eru Hnausarnir og heitir
ysti melkollurinn Stórihnaus. Nokkru neðar, út af Efri-Græfum er annar melkollur, miklu lægri. Hann heitir
Litlihnaus. Utan í honum eru klettaklitrur. Niður úr þeim fellur Gilsáin í fossum. Þar heita
Neðri-fossar en út af Stórahnaus eru Efri-fossar. Ofan við Stórahnaus er
Hnausamýrin. Inn og upp af henni er Rauðimelur. Yfir hann liggja sem fyrr getur landamerkin milli Grundar og Gilsárvalla. Hann
ber nafn af lit sínum.
Upp frá Langamel, utan Gilsár, eru samfelldar brekkur, allbrattar, upp á Gilsárvallabrún sem liggur út
frá Gilsárgili, gegnt Stórahnaus. Það eru Gilsárvallakinnar, venjulega nefndar
Kinnar. Skiptast þar á graskinnar og melbrekkur. Neðan til í Kinnum, því nær út við
Merkilæk, er hár stakur hóll. Hann heitir Jafnahóll. Utan við hann heita Hjallar. Niður af
Jafnahól er lítill melkollur, Kollóttimelur, en inn og niður frá Jafnahól heita Balar.
Innar og ofar liggur Breiðimelur inn að Gilsárgili. Ofan við Gilsárvallabrúnina er tjörn sem ekki er vitað heiti
á. Út og upp frá henni heitir Vörðumelur. Milli Brúnarendans og Stórahnauss skiptist
Gilsá í tvær kvíslar, Innrikvísl og Ytrikvísl utan og ofan úr krika sem síðar verður
nánar getið. Utan við Ytrikvísl upp frá Gilsárvallabrún og Vörðumel er mikið
landflæmi, að mestu flatt eða lítið hallandi mýrlendi, allt grasi vafið. Það heitir Mælismýrar og dregur nafn af
háum og bröttum fjallshnúk sem er út og upp frá Vörðumel og út af neðan verðum Mælir liggur hár
og langur fjallshryggur, upp utan við Mælismýrarnar. Er snarbratt út af honum til beggja hliða niður á Mælismýrar að
innan en niður í Jökuldal að utan. Rétt ofan við Mælirinn er alldjúpt skarð í hrygginn.
Það heitir Mælisskarð. Fyrir ofan Mælisskarð er hryggurinn tiltölulega mishæðalítill ofan nema að
smá klettaklitur eru hér og þar.
Þess er áður getið að Gilsá skiptist í tvær kvíslar milli Brúnarendans og Stórahnauss.
Milli kvíslanna heita Gilsártungur en Tungusporður neðsti tangi þeirra þar sem kvíslarnar koma saman. Upp af honum er
Tungusporðsmelur og enn ofar lítill melkollur. Hann heitir Litli-Kollóttimelur. Annars eru Tungurnar
mikið grónar. Skiptast á mýradrög, holt og börð sem fara hækkandi eftir því sem ofar dregur og ber fljótt hærra en
Mælismýrarnar fyrir utan sem eru eins og að framan getur nær því flatar. Jafnframt því sem bilið milli kvíslanna
breikkar ganga hæðirnar milli þeirra lengra og lengra út að Mælismýrunum. Út af ofanverðum rauðamel sem áður
er nefndur rísa háir gróðurlausir melhryggir, hver upp af öðrum, frá Innrikvísl út að
Mælismýrum. Ganga melhryggir þessir því lengra út sem ofar dregur þar til efsti hryggendinn nemur saman við hrygg þann
sem liggur upp frá Hvolsmælir. Utan við Mælismýrarnar er enda þarna aðkrepptar á þrjá vegu af
háum melum. Þar er Krikinn. Í honum er lítill stakur melur er heitir Krikamelur. Inn og niður frá
Krikanum, utan við endann á neðsta melhryggnum sem liggur út frá Innrikvísl ofanvert við Rauðamel er
allstór tjörn. Ekki er kunnugt að henni hafi verið gefið nafn en melhryggur heitir Hái-Langimelur en hryggjarsvæðið
Byrgisurðir. Milli hryggjanna eru djúpar lautir eða geilar, víðast með litlum eða engum gróðri. Þær heita
Skot. Yfir Byrgisurðirnar og samhliða þeim rís Byrgisfjallið upp frá Efsta-Skotinu sem er
djúp sumstaðar saumhöggslaga geil. Ofan við efsta hrygginn í Byrgisurðunum þar sem hryggur þessi rennur saman við hrygginn upp
frá Hvolsmælir og áður er getið myndast lítill slakki eða flötur. Þar heitir Dimmadalsvarp. Upp af
ofanverðu Dimmadalsvarpi rís enn brött brekka með klettaklitru efst. Það er ysti endi Byrgisfjallsins. Liggur
Birgisfjall þaðan inn með endilöngu Efsta-Skotinu. Nokkuð inn a´fjallsröðinni rís há bunga
sem lækkar aftur inn á fjallsendanum. Kemur Byrgisfjall þar saman við neðri brekkur Tindfellsins, sem næst beint upp af
lægð eða slakka sem liggur upp frá Rauðamel innanvert við Byrgisurðir. Upp af slakkanum, allhátt í brekkunni
þar sem Byrgisfjall og Tindfell koma saman er hjalli, grýttur og gróðurlaus. Hann heitir Urðarhjalli.
Út frá honum er hlið Byrgisfjalls samfelld snarbrött lausagrjótskriða með klettaslitrum á efstu röð utan til en inn á
bungunni samfellda bergröð. Ekki er vitað af hverju Byrgis-nafnið er dregið á fjallinu og urðunum. Inn ofan við
Byrgisfjall og jafn langur því liggur djúpur dalur. Hann heitir Dimmidalur. Hinum megin dalsins gnæfir
Innra-Dyrfjall. Mynda þessi fjöll hliðar dalsins en fyrir botni hans er Tindfellið. Að utan er Dimmidalur opinn
útí Jökuldal. Aðgreinast dalir þessir aðeins af lágum melhrygg sem liggur frá ytri enda Dyrfjallsins þvert
fyrir Dimmadalinn, niður á móts við ytri enda Byrgisfjallsins þar sem það myndar olnboga við hrygg þann sem liggur neðan
frá Hvolsmælir. Út endilangan Dimmadal fellur Dimmadalsá, innan til um lítið gildrag en utan til um
sléttar eyrar út að melhrygg þeim sem liggur fyrir enda dalsins en þver-beygir niður með honum og rennur síðan í alldjúpu gili niður
utan við margnefndan hrygg sem liggur upp frá Hvolsmælir að ytri enda Byrgisfjalls en framhald af hryggnum sem liggur fyrir mynni
Dimmadals myndar hina gilbrúnina sem er miklu lægri því há og brött brekka er frá ánni upp á áðurnefnt
Dimmadalsvarp sem er að heita má á sjálfum olnboganum. Dimmadals megin er Birgisfjallið ein samfelld
grjótbrekka, gróðurlaus ofantil en lítils háttar gróðurgeirar og mosadrög er nær dregur ánni. Nær inn á miðjum dal,
skammt frá ánni, er stór klettahrúga. Liggur þar hvert stórbjargið á öðru ofan en geilar og holur á milli. Þar er
Dimmadalsgreni. Hafa þar lagst tófur öðru hvoru svo lengi sem elstu menn muna. Yst á dalnum, norðan árinnar, er slétt
flöt, víða deig, vaxin venjulegum mýrargróðri en sumstaðar aurar og ber moldarflög og stakir klettar. Inn frá mýrinni hækkar
dalurinn nokkuð. Eru þar uppgróin hlaup og urðir með stórum staksteinum hér og þar alla leið inn í dalbotn. En á milli eru
grasgeirar og gróin drög upp eftir rótum Dyrfjallsins sem fara ört hækkandi upp undir klettabelti sem liggur um endilangt fjallið og í bug
fyrir nokkurn hluta dalbotnsins. Þar heitir Dimmadalsstafn. Utan til í klettum þessum eru víða rákar og syllur en meira samfellt
standberg þegar kemur inn um dalbotninn. Víða er mikill gróður og blómskrúð í þessum syllum enda skjólgott sunnan í
fjallinu. Ofan við þetta klettabelti eru víðast snarbrattir bergfláar, berir og gróðurlausir en á köflum þverhníptir bergstallar
og klettahorn. Upp af innanverðum Dimmadal, ofan við áðurnefnt klettabelti, er hvilft í fjallinu. Hún heitir
Hvolf. Efst í því er Jökulbunga. Hallar frá henni niður í bergbrúnina. Í hvolfinu er ekki
teljandi gróður nema æpingsstrá hér og þar á milli steina en niður á Bergbrúninni, inn og niður frá
Hvolfinu, eru smá grasgeirar. Öðru hvoru fór fé í Hvolfið en kemur oftast sjálft úr því
aftur.
Auk þess sem hér hefir verið getið eiga Gilsárvellir hluta af Blánni milli Grundar og Hólalands. Það heitir
Gilsárvallablá. Yst í henni á landamörkum Grundar er stakt holt. Það heitir Heygarður.
Merkilækur fellur norður um Blána, ofan undan fjalli. Innan við hann er Aurinn, niður undan
Merkilækjargili þar sem það endar við brekkurætur.