Lindarbakki

Lindarbakki er ein helsta perla Borgarfjarðar eystra og vinsæll viðkomustaður þeirra sem heimsækja fjörðinn. Áður fyrr voru hérna meðfram sjónum mörg önnur hús byggð með sama lagi. Þetta voru hús sem voru byggð um aldamótin 1900, um það leyti er verslun hefst í Bakkagerðisþorpi. Þessi hús þóttu ekki merkileg hýbýli á sínum tíma og var þeim flestum rutt um koll eða rifin þegar nútímalegri byggingaraðferðir tóku við. Lindarbakki stendur einn eftir og er ómetanleg heimild um byggingarstíl og búsetuaðstæður liðinna tíma. Húsið er kynt með gamalli Sólóeldavél nánast í upprunalegri mynd. Síðustu íbúar með heilsársbúsetu í Lindarbakka voru Jóhanna Jóhannesdóttir og sonur hennar Jóhannes Kristinsson sem hér bjuggu á árunum 1967-1973. Lindarbakki var lengi í eigu Elísabetar Sveinsdóttur (f. 1929), eða Stellu á Lindarbakka eins og hún er alltaf kölluð af heimamönnum.

Stella fæddist og ólst á Borgarfirði en fluttist ung að árum suður í Kópavog. Hún keypti Lindarbakka ásamt eiginmanni sínum Skúla Ingvarssyni árið 1979 af Elíasi B. Halldórssyni og Ásthildi Sigurðardóttur. Í afsalsbréfi sem gert var við kaupin segir meðal annars: Tómthúsið Lindarbakki er aldið að árum, byggt úr torfi, grjóti, trjáviði og steinsteypu og er á margan hátt eigi í tískustandi. Stella og Skúli lögðu mikla vinnu í endurbætur á húsinu eftir að þau eignuðust það auk þess sem þau reistu litla skemmu í sama stíl þar sem geymdir eru gamlir munir og verkfæri frá liðinni tíð. Skúli lést árið 1987 og eftir það annaðist Elísabet sjálf viðhald á húsinu með mikilli hjálp góðra vina allt til ársins 2019 þegar hún ánafnaði sveitarfélaginu húsið. Húsið er í dag eins og það var þegar Stella bjó þar og mun verða þannig áfram í framtíðinni.

Lindarbakki er um 30m2 að gólffleti með forstofu. Í húsinu er eitt herbergi, eldhús auk salernis. Undir húsinu er kjallari og í honum er brunnur. Kjallarinn er elsti hluti hússins, frá árinu 1899, en innviðir hússins hins vegar að mestu frá árinu 1934.