Hvoll

Hvoll.  
(eftir handriti Eyjólfs Hannessonar).

Utan við Hvolsbæinn rís hár stakur hóll, Hvolshóllinn.  Af honum er víðsýnt.  Niður við Fjarðará blasir við Hvolsnesið, lágt og flatt.  Ofan við það er brött brekka sem gengur fram í Fjarðará utan við nesendann og aftur framan við túnið.  Upp frá brekkunni er innst túnið.  Um það, rétt utan við bæinn, fellur Bæjarlækur.  Hann skiptir túninu fyrir neðan bæ með djúpu gili.  Heitir Hjáleiga utan gilsins.  Þar eru nú fjárhús en var áður bærinn Hvolshjáleiga.  Út frá túninu og Hólnum taka við Hvolsmóarnir.  Ofan við þá taka við Hvolshraun.  Þar er Kistuklettur, hár og stór kistulagaður, að mestu sléttur að ofan en hliðar og endar svo til lóðrétt.  Þar sem mætast Hraunin og Móarnir heitir Hraunabrekka.  Upp úr ofanverðum Hraununum rís hár stakur melhóll.  Hann heitir Ærhóll.  Út neðan við hann og niður utan við Hraunin er graslaut sem heitir Ærhólsdalur.  Upp með framan- og ofanverðum Ærhól er Strípalág, grasi gróin.  Inn af Ærhól er Hraunamýrin sem liggur upp og niður framan til í Hraunum.  Ofan við Ærhól er Ærhólsmýrin en upp frá henni er Strípahraunið.  Framan við það er Strípalág.  Í henni standa Stríparnir sem lágin og hraunið fyrir utan draga nafn af.

Upp frá túninu á Hvoli er Hvolsmýri.  Ofan við hana taka við Ennin, hallandi ennaland sem liggur frá Merkilæk á landamerkjum Hvols og Gilsárvalla og út að Hrygg.  Hryggurinn er ber melhryggur sem hefst lítið eitt ofan við Hvolshólinn og liggur upp innan við Hraunin og Hraunamýrina, allt upp undir Hjalla.  Miðlækur skeftir Ennunum í Út-enni og Fram-Enni en Ystilækur fellur niður rétt innan við Hryggi, niður um utanverða Hvolsmýri og er sami lækurinn sem áður er getið utan við Hvolsbæinn en út á Hjáleigunni sem áður er nefnd er Lindin, skammt fyrir ofan fjárhúsin, uppsprettulind sem neysluvatn bæjarins er tekið úr.

Ofan við Ennin og Hraunin rísa Hjallarnir, innan frá Merkilæk og út að Jökulsárgili sem þar skiptir löndum Hvols og Jökulsár.  Skammt frá Jökulsárgilinu neðan við Hjallann en út og upp af Hryggendanum er Jökulbotn, í bug undir hárri Hjallabrekkunni.  Þar liggur stundum gaddur allt sumarið.  Upp frá Hjöllum er Hvolsbrúnin.  Upp af henni rís hár og brattur fjallshnúkur, Hvolsmælirinn.  Upp með Jökulsárgili beygir ysti hjallaendinn og fer smá hækkandi upp með rótum Mælisins.  Þar fyrir ofan tekur við Jökuldalur.  Út af Mælinum gengur hryggur út að Jökulsárgili.  Þetta svæði kallast Skagi.  Í krika ofan við Mælirinn er allstór mýrarskák, Mælismýrin.  Utan og ofan við Mælismýrina rennur Dimmadalsá, innan og ofan úr Dimmadal í Gilsárvallalandi.  Sameinast hún nokkru utan Jökulsánni og falla svo báðar saman út og niður í Jökulsárgil og sameinast þar Ystukvíslinni í mynni Jökuldalsins.  Uppi í dalnum eru árnar oft nefndar Kvíslar - Ystakvísl, Miðkvísl og Dimmadalsáin, eftir að hún kemur út úr Dimmadal, Innstakvísl.  Í bug sem Innstakvíslin myndar, utan og ofan við Mælismýrina, er allstór mýrarspilda.  Utan við hana eru klettaholt og hryggir með graslautum á milli.   Þvert ofan við mýrina og holtin rís hár og brattur melhryggur.  Það eru Þverhryggirnir.  Ofan við þá er dalurinn allur eitt net af graslautum og drögum sem liggja alla vega milli hóla og hraundranga en upp yfir gnæfa Dyrfjöllin og blasa Dyrnar við upp frá miðjum dalnum.