(Handrit: Þorsteinn Magnússon)
Þess er fyrst að geta að landamerki milli jarðanna Hafnar og Hofstrandar eru við svonefnda Laxá (1), en hún
hefur upptök sín í svonefndum Vatnsmýrum (2) sem er allmikið mýrlendi, rétt norðan við Geitfell (3).
(Upprunalegt nafn er sennilega Lagsá, sbr. lag, garður = garðslag, sem mun vera = landamerki. Nafnið á ánni er þá skiljanlegt en vegna þess
hvernig framburðurinn er þá er farið að kenna það við fisk). Laxá fellur síðan með nokkrum lykkjum á
leið sinni um fjallið og til sjávar í svonefndri Kolbeinsfjöru (4).
Annað stærsta vatnsfall í Hafnarlandi er Bæjarlækur (5), sem hefur upptök sín í Eiríksbotni (6) en
það er djúpur, sléttur og grasivaxinn botn, norðanvert við Grænafell (7). Bæjarlækur (5) fellur um
túnið í Höfn og í sjó fram niður undan bænum í Bæjarfjöru (8) sem er mjög
stórgrýtt. Þriðja vatnsfallið sem nokkuð kveður að er Vogsá (9). Hún hefur upptök sín í
Búrfellstjörn (10) sem er allstór og djúp tjörn fyrir neðan Búrfell (11). Vogsá (9) fellur
til sjávar í Fossvík (12), sunnanvert við Hafnartanga (13), fyrst í 10 m. fossi og síðan í smærri fossum.
Nú mun ég lýsa örnefnum þeim er ég þekki fyrir norðan, í daglegu tali sagt "fyrir utan" Vogsá (9):
Þar er næst sjónum allmikið undirlendi, mjög grösugt sem einu nafni nefnist Vogur (14). Tanginn næst fyrir norðan
Fossvíkina nefnist Fossvíkurtangi (15) næst sjónum. Hóllinn sem er á vinstri hönd, þegar komið er upp
úr sniðgötunni sem liggur norður úr Fossvík nefnist Einbúi (16).
Við höldum áfram um grasmikið valllendi, sem kallast Innra-Nes (17). Hér eru nokkur stór og jarðföst björg sem munu hafa
fallið úr klettunum sem eru allháir fyrir ofan. Vogsmýri (18) heitir nokkurt mýrlendi er næst liggur sjónum. Þegar
farið er norður Vogsmýri (18) er á hægri hönd hár hóll sem sjáanlega er ofanfall úr hlíðinni fyrir ofan sem er
mjög brött. Þetta heitir Hlaup (19). Það er nú að mestu gróið land.
Nú erum við komin út að Stekk (20) og höldum áfram út á Ytra-Nes (21) en þar er gróður og
landslag mjög líkt og á Innra-Nesi (17) sem áður er lýst. Nyrsti hluti Ytra-Ness er Illabásbakki
(22). Klettaborgin hér fyrir ofan heitir Hnaus (23) en Hnausrák (24) hjallinn næst brúninni en Vogsbrún (25)
einu nafni hjallabrúnirnar frá Hnaus og inn að Vogsá.
Er við höldum hér til fjalls komum við upp á Karlsmel (26), allháan með vörðubroti efst og sjáum yfir
Karlsbotn (27) og áfram liggur leiðin enn á háan mel sem ég hefi aldrei heyrt nafn á og sjáum þá á vinstri hönd
Gýjumýri (28) (þannig ætíð borið fram, en virðist sennilega Gýgjamýri (29)), en til hægri handar
Fénaðarmýrarhall (30) og Árnabotn (31). Um Gýjumýri fellur lítil lækjarsitra,
Gýjulækurinn (32). Upptök hans eru norðvestan við Efri-Selmel. Fellur hann um Gýjumýri til
sjávar í Illabás (182), austan við Tangasund (179).
Við upptök Gýjulæksins að sunnanverðu virðast mjög fornar rústir eftir hús. Það er kallað
Sel (33) en Sellækur (34) sem upptök á sunnanvert við Selmela (36-37) fellur um
Fénaðarmýrarhall, Karlsbotn og í sjó niður í Stóruvík (35). Ofan við
Árnabotn er Neðri-Selmell (36) þá Efri-Selmell 37) og á milli þeirra Selmelasund (38) en
norðanvert við Selmelana er Blautasund (39).
Ystu brúnir frá Hnaus (23), sem áður er getið, nefnast Nafir (40), allt upp að Stórhól (41) sem er
há og löng grasivaxin hæð á ystu nöfum. Upp frá Gýjumýri (28) á milli Stórhóls og
Selmela eru neðst, Gýjumýrarhöll (42), þá Stórhólshöll (43) allbrött og loks
Stórhólsmýrar (44).
Upp frá Fénaðarmýrarhalli liggja allvíðáttumiklar valllendiskvosir meðfram Vogsánni (9) að
norðanverðu. Þær heita einu nafni Hvammar (45). Þá tekur við Illamýri (46) og
Illumýrarhöll (47) er liggja upp að Neðsta-Svarðarmel (48) en hann er neðanvert við stórt mýrarsvæði sem
kallast Kjóamýri (49). Nálægt um hana miðja er Ytri-Svarðarmell (50) og Innri-Svarðarmell
(51). Á Kjóamýri (49) var lengi fyrrum aðallega aflað mó til endsneytis í Höfn.
Í framhaldi af Stórhól (41) er áður getur er fyrst Neðri-Tjarnarbotn (52) og þá
Efri-Tjarnarbotn (53) og Tjarnarbotnamell (54) að sunnanverðu við hann. Í Efri-Tjarnarbotni er allstór en mjög
grunn tjörn. Úr Tjarnarbotni (55) höldum við upp lítt gróna melhryggi uns við komum á háan hrygg sem heitir
Þúfuhryggur (56). Þá sést yfir allmarga botna, þar sem skiptist á djúpar kvosir, þaktar votlendisgróðri og
hávaðar með valllendisjurtum. Þar eru Þúfubotnar (57) en Hafnarþúfa (58), allhá og keilumynduð,
rís þar á ystu nöf. Hún er grasi vafin að sunnanverðu en norðanmegin svart hengiflug í sjó niður.
Þegar komið er yst og nyrst á Þúfuhrygg, sést niður yfir hluta af flugum þeim sem nefnd eru einu nafni Hafnarbjarg
(59). Þar er um dálítið land að ræða sem kallast einu nafni Þúfnavellir (60) og mun vera um miðja vegu á milli
Þúfuhryggs og sjávar. Þar eru þessi örnefni: Nyrðri-Þúfnavellir (61),
Mið-Þúfnavellir (62), og Syðstu-Þúfnavellir (63). Þetta land er að mestu gróið. Skiptist þar
á töðugresi og krækiberjaling og jafnvel bláberjaling. Hildibrandsnöf (64) er hátt klettanef sem skagar fram úr
Nyrðri-Þúfnavöllum. Á Hildibrandsnöf er mikil lundabyggð.
Ef haldið er áfram að Kjóamýri, (49) sem áður er nefnd, er komið á lítið sléttlendi sem heitir
Flötur (65). Nyrst á honum hefir verið fært saman allmikið að stóru völdu grjóti og mun hafa verið ætlunin að
reisa þar beitarhús, en engar sagnir munu vera þekktar um slíka byggingu á þeim stað. Fyrir ofan Flöt er
Neðri-Grenismelur (66), þá Efri-Grenismelur (67) en Grenjahlíð (68) upp frá Flöt á
milli Þúfuhryggs og Grenismelanna og nær hún upp á raðir. Grenisbotn (69) heitir krikinn upp frá
Efra-Grenismel og upp neðanvert við Grenjahnaus (70) en svo heitir hnúkur sá er rís allhátt á röðunum, nokkru
fyrir utan Búrfell (11).
Nú munu talin örnefni á milli Vogsár og Bæjarlækjar:
Þar er næst sjónum grashalli, svonefnd Tó (71) en upp frá Tó gengur Skriðugil (72), alldjúpt
neðst en er stutt og grynnist er ofar dregur og hverfur loks alveg en við tekur Skriðugilshall (73), þýft graslendi er nær upp að
Fénaðarmel (74) sem er stór en ekki hár en sléttur mell með vatnsnúnum klöppum þar sem hann er hæstur.
Ef farið er um Skriðugil upp úr Tó er Hvítaskriða (75) á hægri hönd allbrött en
Drumbafjöruþúfa (76) þar á brúninni, litlu sunnar. Um 200 metrum fyrir sunnan Drumbafjöruþúfu hefir
verið fært saman mikið af stóru grjóti og mætti ætla að þar hefði einhverntíma bygging verið því grjótið
myndar nokkurnvegin skipulegan ferhyrning. Þetta heitir Kró (77) en Króarmelar (78), melarnir þar upp frá allt að
Fremri-Hrossamel (79) og Ytra-Hrossamel (80) en á milli Hrossamelanna er Hrossamýrarhall (81) neðst, en
í því Hrossamýri (82), stórþýfð og blaut mýri.
Stuttu fyrir ofan túnið, rétt fyrir utan Bæjarlækinn er melkollur. Það er Kollóttimelur (83) en upp
frá honum smágert valllendisþýfi, nefnt Holtin (84). Hér byrjar allvíðáttumikið hálendi sem heitir einu nafni
Hellnakambur (85). Það er lítt gróið land nema af mosa og lítilsháttar lyngi á stöku stað. Bergtegundir eru
þar aðallega líparít og eru stórar og þykkar hellur, margar nærri því sem vinkilskornar á þessu svæði.
Þær eru hið ákjósanlegasta hleðslugrjót enda sjást þær í veggjum gamalla húsa í Höfn.
Upp frá Holtum, (84) sem áður eru nefnd, er Neðsti-Hellnakambur (87) nokkru lægri og loks Efsti-Hellnakambur
(88) sem er allhár og nær allt upp undir Búrfellstjörn (10) en hennar er áður getið. Vestan við Vogsá (9) og
Hellnakamba (85) heitir hér fyrst Neðsti-Hjalli (89) þá Mið-Hjalli (90) og loks Efsti-Hjalli (91)
og er þá komið upp að Búrfellstjörn (10). Neðri-Búrfellsbotn (92) heitir botninn næst fyrir sunnan
Búrfellstjörn, en Efri-Búrfellsbotn (93) sunnar og ofar, næst Hafnarskarði (94).
Neðri-Lækjardalur (95) er djúp dalskora frá Neðsta-Hellnakambi, sunnanvert og nær upp að
Eiríksbotnsmel (96), sem er norðanvert við Eiríksbotn (6) en hans er áður getið í sambandi við upptök
Bæjarlækjar.
Upp frá Eiríksbotni, sunnanverðum, gengur langur melhryggur sem nefnist Smjörhryggur (97) en Smjörlág (98)
leyningur, grasigróinn, á milli Smjörhryggs og Grænafells (7) og liggur hún allt upp að Hafnarskarði
(94).
Í sambandi við þessi örnefni er sú sögn að einhverntíma hafi maður sá er Eiríkur hét farið frá
Brúnavík og ætlað norður að Höfn. Hann hafði smjörbagga á baki, sem hann hugðist láta upp í leigur sem
þá var venja. Hann kom ekki fram á eðlilegum tíma. Er hans var leitað fannst hann örendur í botni þeim er síðan er við
hann kenndur en smjörbagginn fannst í Snjörlág.
Nú munu talin örnefni á milli Bæjarlækjar og Laxár.
Kolbeinsfjörubakki (99) heitir frá Laxá og út að Kolbeinsfjörutanga (100) en hann er norðanvert
við Kolbeinsfjöru (4), þá Eiðabásbakki (101) að Hellisfjörutanga (102) sunnanvert við
Hellisfjöru (103).
Fremrabjarg (104) heitir landið upp frá Hellisfjörutanga en Holt (105) melhryggurinn sem hefst rétt fyrir neðan
hliðið á veginum og liggur upp undir Gránípumela (106) sem eru allháir melar innn og upp af bænum. Upp af þeim sunnanverðum
rís strítumynduð hæð. Það er Gránípan (107) en upp af henni, litlu utar, rís klettabrún sem heitir
Snið (108). Þar er alllöng og brött skágata upp á brúnina. Um hana var farið með heybandslestir á meðan
heyskapur var sóttur á Hafnarfjall (109).
Kvíar stóðu áður ofanvert við túnið og upp frá þeim lá stórgert valllendisþýfi, um fjórar
dagsláttur að stærð. Það var Kvíaþýfi (110) en nú er það slétt tún. Upp frá
því suð-vestanverðu gengur Kvíahryggur (111) en Heygarður (112) kvosin sem er þar fyrir utan, allt að
Bæjarlæknum. Háu brúnirnar fyrir ofan Heygarðinn, allt frá Sniðum út að
Bæjarlæk, heita Heygarðsbrún (113) en Hjalli (114) nefnist stallur sem liggur á ská frá
Kvíahrygg efst og út og upp á Heygarðsbrún, úti við Bæjarlæk.
Beint upp af bænum, utanvert við Heygarðinn, er mjög mishæðótt land, melkollar, en djúpar grónar lautir á
milli. Það heitir einu nafni Botnar (115) en Botnabrún (116) rís hátt upp yfir þeim með klettabelti efst.
Hvítabrík (117) heitir melöxlin sem liggur upp með Bæjarlæknum, yst úr "Botnunum" og ber hún
nafn með réttu. Ef haldið er þar áfram, nokkru lengra upp fjallið er komið í alldjúpan botn með grunnri tjörn sem þornar að
mestu í miklum þurrkum. Er það Efri-Lækjardalur (118).
Ef við förum upp frá Eiðabásbakka og höldum til fjalls förum við upp bratta og háa brekku, sem er mjög grösug neðst
en endar sem hár melhryggur. Það er Eiðabrekka (119). Næsta hæð þar upp frá og liggur samhliða brekkunni er
Litlafell (120) en Litlafellsbotn (121) kvosin sem er norðaustan í því og er hún allmiklu lægri en
"Fellið".
Af Litlafelli förum við fyrst um flatt og mjög blautt mýrarsund og því næst upp bratta brekku og þá komum við upp á
Miðfell (122) en Miðfellsbotn (123) er norðaustanvert við það og nokkru lægra. Í framhaldi af
Litlafellsbotni eru Miðfellsmýrar (124) og þá Grænafellsmýrar (125). Þessar mýrar fara
smá hækkandi upp að Grænafellsgontum (126) sem eru mjög brattir grasivaxnir leyningar, sem ganga upp í hlíðar
Grænafells (7) sem er bratt og hátt fell og er áður nefnt. Ofanvert við Grænafell er stór en fremur grunn
tjörn. Það er Grænatjörn (127).
Nokkru fyrir ofan Botnabrún sem lýst er áður, en vestan við Efri-Lækjardal, er vörðubrot á allháum
melkolli. Það heitir Steinka (128). Laxárhvammar (129) heita einu nafni grashvammar nokkrir upp með
Laxá. Upp frá þeim liggja Klofar (130) lyng og grasbrekkur sem ná upp að löngum melhrygg sem liggur í suðaustur
upp frá Laxá og heitir Langimelur (131). Upp með Langamel að utanverðu er Árnagonta (132),
slétt valllendisstykki.
Nokkru ofar en Langimelur er Stórusteinsmelamýri (133) en út og upp af henni er Miðfellshall (134), vestan
á Miðfelli (122). Upp frá Stórusteinsmelamýri taka við Stórusteinsmelar, en það er
samheiti á mörgum og háum melum með stórum líparítbjörgum víða á melkollum en tjörnum eða mýrarsundum á
milli. Þetta svæði nær út að Grænafelli og allt upp á fjallseggjum.
Draugabotn (135) heitir mjög djúpur hvammur við Laxá, alllangt fyrir ofan Stórusteinsmelamýri
(133).
Hér munu nefnd fjöll þau sem eru á fjallgarðinum milli Hafnar og Brúnavíkur og skipta landi þeirra jarða eftir
því sem vötn falla frá þeim:
Yst, næst sjónum, er Almenningstindur (136) og í framhaldi af honum í suður, Almenningseggjar (137). Eftir það
kemur Stekkhvammsfell (138) sem er miklu hærra og Grenjahnaus (70) og Búrfell (11) en þeirra hefi ég getið
áður. Búrfell er allmiklu hæst þessara fjalla, burstamyndað efst. Í framhaldi af Búrfelli en miklu
lægri er Búrfellsöxl (139) sem lækkar vestur í Hafnarskarð.
Nú hækka raðirnar aftur og er Ytri-Gránípa (140) næsti hnúkur fyrir suðvestan Hafnarskarð en
Innri-Gránípa (141) fjær og loks Brúnavíkurskarð (142) miðja vegu milli Innri-Gránípu og
Geitfells. Geta skal þess að klettahjallinn norðaustanvert í Búrfelli, næst klettunum, efst, heitir
Búrfellshjalli (143) en Búrfellskinn (144) hlíðin grasivaxna nokkru neðar og vestar í fjallinu.
Nú mun getið örnefna meðfram sjó fyrir Hafnarlandi:
Eins og ég gat áður fellur Laxá í sjó fram í Kolbeinsfjöru, syðst. Þar myndar hún
allháan foss. Hann er um fleira en eitt sérkennilegur. Fyrst er það að þar sem hann fellur fram er allstór skúti undir berginu svo að
vel má ganga á bakvið fossin. Hið annað er það að fossinn fellur jöfnu báðu í sjó niður eða í fjöruna
þegar lágsjávað er en aðeins þegar háflæði er fellur fossinn í sjóinn. Þetta er Laxárfoss
(145).
Stuttu utar en Kolbeinsfjörutangi (100), sem áður er getið, er þröngur og stórgrýttur bás sem heitir
Eiðabás (146) en Eiðanaust (147) hefi ég heyrt kallað tóftarbrot þar uppi á bakkanum. Sagt er að
Margrét ríka á Eiðum hafi haft uppsátur og útræði úr Eiðabás og munu örnefni þau er kennd eru við
Eiða tilkomin í sambandi við það. Eiðabrekka (119) sem áður er getið er hér nokkru ofar en engar sagnir hefi ég heyrt
um það hvernig hún fékk það nafn en vafalaust hefir það gjörst í sambandi við veru Eiðamanna hér.
Hellisfjara (103) heitir næsta fjara, stór og breið malarfjara. Hún er talin bera nafn af helli einum í bakkanum eða réttara sagt
berginu suðvestantil við hana því hellir fyrirfinnst nú engin þar. Hefir annaðhvort hrunið fram eða fallið fyrir hellisopið.
Í klöppunum norðan við Hellisfjöru er djúpur en mjór vogur sem heitir Færeyingavogur (148). Þar settu
færeyingar upp fisk og bundu báta sína á meðan þeirra útgerð stóð í Höfn. (Við vegagerð niður
á nýja hafnarsvæðið hefur þessi vogur að mestu horfið).
Frá Færeyingavog liggur leiðin um urðarfjöru sem heitir Eldhúsbás en framundan honum er langt sker sem
Skarfasker (150) heitir og virðist það réttnefni því sjaldan minnist ég þess að hafa séð svo skarf fyrir Hafnarlandi,
að hann, eða þeir, hafi fleiri verið en einn, hafi ekki einmitt setið á Skarfaskeri. Í skerinu er allmikil flæðihætta fyrir
sauðfé því að ganga má þurrum fótum í það um fjöru en um flæði er allbreitt sund úr því til
lands. Blindsker er utanvert við Skarfasker er Fúsasker (151) heitir og er það upp úr sjó um
fjöru.
Úr Eldhúsbás liggur leiðin um stórgrýtta urð og út á malarfjöru sem heitir Eyri (152) og var
þar þrautalending í úfnum sjó. (Eyri er nú horfin í plan við nýju höfnina). Norðanvert við
Eyri var allvíðáttumikil klöpp, Kambsklöpp (153) en efst á honum klettadrangur, Kamburinn (154) sem klöppin
ber nafn af. (Brimvarnargarðurinn sem lokar nú sundinu (gerður 1973) liggur ofan á Kambsklöppinni svo hún er alveg horfin og
Kamburinn líka).
Héðan liggur leiðin áfram í austur eftir fremur mjórri fjöru sem heitir Karlsfjara (155). Um flæðarmál í
henni eru þrjú geysistór björg. Stærð þeirra má nokkuð marka af því að Ægir karl hefir ekki megnað að hreyfa
þau úr stað.
Í framhaldi af Karlsfjöru er víðáttumikil lág klöpp sem heitir Hjallaklöpp (156). Á bakkanum upp yfir henni var
skreiðarhjallur og hákarlageymsla Hafnarbænda fyrrum. Nú sjást hans engin merki.
Næsta fjara, beint undan bænum er Bæjarfjara (8) sem ég hefi áður getið. Í Hólmasundi (157) eru
þrjár flúðir sem koma að nokkru upp úr sjó um stórstraumsfjöru. Þær heita Kúabökur (158) en
Hlass (159) skerið nær hólmanum. Það er nokkuð úr sjó en lítið ummáls.
Brimsker (160) er allstórt sker norðanvert við Bæjarfjöru, en Smiðjuvogsklöpp (161) upp af
því. Upp með henni að austan er Smiðjuvogur (162) alldjúpur en Smiðjuvogstangi (163), langi tanginn austan við hann og
Smiðjuvogsfjara (164) þar næsta fjara. Lambhúsbás (165) er næsta fjara en Hulduhóll (166)
hár klettahóll, grasigróinn efst, rís hátt þar yfir.
Nú er farið um hríð um stórgrýti eða nokkurnvegin sléttar klappir, svæði sem ég hefi aldrei heyrt sérstakt nafn á og
farið yfir hátt og slútandi klettahorn og komið í Innri-Drumbafjöru (167). Austan við hana gengur allhá klettahlein fram sem
sjór fellur að um háflæði en um fjöru er nokkurt bil frá henni til sjávar, ef sjór er ekki bólginn. Þetta er
Forvaðinn (168). Við hann er mikill háski fyrir sauðfé er sjór er úfinn.
Þegar kemur fyrir Forvaðann er komið í Ytri-Drumbafjöru (169) og í framhaldi af henni er Tóarfjara (170), undir
Hvítuskriðu (75) sem áður er nefnd. Tóarurð (171) er mjög hrikaleg urð undir Tó (71) en nafn
á löngu og allháu skeri sem liggur hér stutt framundan hefi ég aldrei heyrt.
Undan Drumbafjöru, u.þ.b. 90 - 100 metra frá landi er klettadrangur mjög lítill að ummáli sem kemur varla upp úr sjó um
mestu fjöru. Hann heitir Pinkill (172).
Næstu fjöru, Fossvíkina (12) hefi ég áður nefnt og tangann næst henni, Fossvíkurtanga (15). Næsta
fjara er Stóravík (173) en Stóruvíkurtangi (173) að norðanverðu við hana. Í framhaldi af honum er langur
tangi í stefnu í suður-norður. Hann er lágur að vestanverðu en allhár að austanverðu og þar er nokkuð stór grastorfa.
Þetta er Áttæringsklöpp (174) en Áttæringsvogur (175) að austanverðu við hana.
Stuttu fyrir vestan Áttæringsklöpp er blindsker sem heitir Grímhildur (176). Hún er á
smábátaleið inn á Borgarfjörð, (ef siglt er um Tangasund (179)).
Þjófabás (177) er næsta fjara norðaustan við Stekkinn, en Styrbjörnsskora (178), djúp klettaskora
sem sker Hafnartanga frá landi. Við Hafnartanga (13) er þröngt en djúpt sund sem heitir Tangasund (179) (stundum
nefnt Róðrarsund), en Hlass (180) skerið norðan við það. Hér er smábátaleið inn á
Borgarfjörð.
Skotta (181) heitir löng og djúp en þröng klettaskora sem sjór fellur í. Hún er fyrir austan
Styrbjörnsskoru, næst Illabásbakka (22) en Illibás (182) er urðarfjara næst hér fyrir austan. Upp
frá Illabás gengur allstór hallandi bergflái. Það er Svartabjarg (183) en grasjaðarinn hér næst fyrir
austan er Innri-Gýjutorfa (184) og Ytri-Gýjutorfa (185) nokkru austar en Gýja (186) er djúpur en þröngur
vogur með urðarfjöru á milli þeirra.
Fjaran næst fyrir austan er Langamöl (187) en flugin þar yfir, klettahjallar og rákir, heita einu nafni Jaðrar (188), allt austur
að Sæluvogsjaðri (189) sem bratt graslendi norðan við Sæluvog (190) sem er allstór vík sem skerst hér inn í
landið. Indriði (191) heitir blindsker um 100 metra framundan Löngumöl. Gálmur (192) er blindsker allmiklu
lengra frá landi. Uxafallsfjara (193) er fjara við mynni Sæluvogs en Uxafall (194) mjög há og
víðáttumikil flug upp yfir henni.
Á Sæluvog eru þessi sker: Nyrst er Flatasker (195), stórt en lágt sker, þá Ribba (196)
burstamyndað sker, um 30 metra hátt og Stapi (197) austast, hátt og stórt sker. Á Sæluvogi er þrautalending undir
Hafnarbjargi, enda orðið mörgum þreyttum sjófaranda kærkominn hvíldarstaður fyrr á tímum á öld
árabátanna. Um hann kvað líka Árni Gíslason í Höfn.
Þegar ég skil við þennan heim,
þreyttur og elliboginn,
Eg mun róa árum tveim,
inn á Sæluvoginn.
Nokkru austar er mjög hár klettaskúti með nokkurri fjöru undir berginu. Það er Hildibrandur (198). Rétt austan við
hann er mjög brött torfa, nokkuð gróin með miklu hvannstóði. Það er Lundatorfa (199). Þar er lundabyggð mikil sem
nafnið bendir til.
Þegar áfram er haldið með "Bjarginu" (200) er komið á mjög bratta jaðra, nokkuð gróna neðst. Það heita
Atnefðutorfur (201). Þar tepptist veturgömul ær niðri um hausttíma fyrir nokkrum árum, því kindur komast ógjarnan
þaðan aftur. Það dróst úr hömlu að hennar væri vitjað, enda ótryggt mjög að lenda þar. Þegar skyggnst var
eftir henni síðar um haustið sást hún ekki og aldrei um veturinn, þótt farið væri á sjó með Hafnarbjargi og
hugðu allir hana dauða. En um 20. maí næsta vor er Bakkagerðisbúar fluttu vörur sjóveg til Húsavíkur sáu þeir kind
á Atnefðutorfum. Þeir lentu þar og gátu handsamað hana og reyndist það sama ærin og sást þar haustið
næsta þar á undan. Hafði hún alið aldur sinn þar um veturinn, en kröpp munu þau kjör hafa verið. Ærin lifir enn er
þetta er ritað (1957) en ekki hefir hún farið í kletta síðan.
Fjaran hér fyrir austan er Ólafsvogur (202) en Skinnbrókargil (203) gengur upp frá honum austanverðum og allt upp vestanvert
við Hafnarúfu (58). Hraungarður (203b) heitir tanginn hér fyrir austan, en Hellnafjara (204) löng en mjög
mjó fjara norðanundir Hafnarþúfu og eru það mestu flug með Hafnarbjargi. Kaupmannsstapi (205) er um 20
metra hár klettastapi hér litlu austar, um 50 metra frá landi en Skipavogur (206), alldjúpur vogur vestan við hann. Frá
Kaupmannsstapa er mjótt sund út að háu skeri sem heitir Háaklöpp (207) en þar eru landamerki Hafnar og
Brúnavíkur og telst norðurhluti fjörunnar Höfn en sá syðri Brúnavík. Hér liggur stórt sker og allhátt,
einkum að norðaustan, fyrir landi. Það er Almenningsfles (208) en sundið á milli er Flesjarsund (209). Blindsker er vestan
við Almenningsfles sem heitir Dugguboði (201).
Um örnefni á túninu veít ég mjög lítið. Þau munu fá hafa verið þekkt í seinni tíð. Ég
tel hér þau sem ég hefi heyrt:
Syðsti hluti af túninu er kallað Bjargtún )211). Í Bjargtúni, sem í daglegu tali er nefnt "Á
Bjarginu" (212), hafa staðið og standa enn tvö fjárhús. Það voru sauðahús áður fyrr er þær skepnur voru
til.
Þegar komið er sunnan að heimatúninu og farið heim að bænum höfum við Hjallbakka (213) fyrst á vinstri hönd en þar
stóð fyrr skreiðarhjallur á bakkabrún sem ég hefi áður lýst. Um miðja vegu milli Hjallbakka og bæjar var
mjög há þúfa, sjávarmegin við heimreiðina. Það var Háaþúfa (214).
Á bakkabrúninni, hjá Háuþúfu, hefir myndast um fjögurra til fimm metra djúp rauf við það að fremsti hluti
bergsins hefir sprungið frá án þess þó að falla fram í fjöruna. Það heitir Guðríðarhola (215).
Efst í Bæjarþorpinu var hús kallað Karlskofi (216) en túnið inn og upp af honum var nefnt
Karlskofastykki (217) allt upp að brekkunni sem hét Ærhústún (218), upp að Kvíum (111), sem ég hefi
nefnt áður. Ærhúsin stóðu úti undir Bæjarlæknum, efst í
Ærhústúni.
Fyrir utan Bæjarlæk var Hesthústún (219) efst og þar stóð hesthúsið á lækjarbakkanum en
Lambhúsið (220) þar litlu utar.
Smiðjutunga (211) var túnið meðfram Bæjarlæk, fyrir neðan hesthúsin. Huldukofi (222) var
lítill kofi ofanvert við Hulduhól (166) sem áður er nefndur og Huldukofatún (223) þar í kring.
Bakkakofi (224) stendur á Bakkanum (225) upp af Smiðjuvog. Þar er nú ærhús.
Fyrir Hafnarlandi er allstór eyja, sem heitir Hafnarhólmi (226) en er eign Njarðvíkurkirkju. Þar er æðarvarp nokkurt en hefir
farið mjög minnkandi á síðustu árum. Rita og fýll verpa þar mikið í björgum sem eru allhá að austanverðu í
"Hólmanum" (227) en hann lækkar mjög til vesturs og er þar mjög lágur.
Lundi er líka mikill í Hólmanum og kríuvarp var þar mikið fyrrum en nú hefur hún flutt sig þaðan að
mestu. Krosshöfði (228) er hæstur austast í Hafnarhólma og tengdur við aðalhólman með mjóu eiði
aðeins. Nyrsti hluti hólmans er Norður-Hólmi (229) og er djúp skora þar á milli sem sjór fellur þó ekki í
nema í miklum brimum.
Norðaustan við Hólman rís hár og gróðurlaus klettur úr sjó. Hann heitir Stapi (230). Nokkur
fjara er sunnan við Krosshöfða og heitir Eyri (231) en aðallending er í Hundavogi (232) suð-vestan í
Hólmanum og vestanvert á Hólmanum er líka allgóð lending og er það Heyjavogur (233).
Þar er hey venjulega borið á báta þegar heyjað er hér. Mestur heyskapur sem ég man eftir hér er 45 hestburðir, en venjulega 30
hestburðir.
Góð beit er hér fyrir sauðfé og var venja áður að hafa hér um 20 - 25 lömb, sem stundum lifðu hér allan veturinn. Á
seinni árum eru höfð hér á vetri 30 - 40 lömb en nú sjaldan lengur en þar til seinni hluta janúar eða öndverðum febrúar.
Ég hefi nú lýst þeim örnefnum sem ég þekki á landi við sjó og með landi fram í Höfn og teljast
þau vera 227 alls.
Ritað í desembermánuði 1957.
Örlítil viðbót og skýringar.
Í töluskrá eru númeruð 233 örnefni en því miður eru þrjár tölur ritaðar tvisvar þannig að örnefnin
ættu að vera 236. Mismunur við handrit Þorsteins kemur fyrst og fremst af því að við númerum t.d. nöfn eins og
Hafnarhólmi, og "Hólminn" sitt með hvorri tölunni.
Handritið birtist hér nær alveg óbreytt og eru menn beðnir að hafa það í huga að það er ritað 1957 og síðan hafa
staðhættir breyst svo sem höfnin við Hólmann og peningshús Hafnarbænda en flest annað stendur óhaggað.
Þorsteinn las yfir handritið 1981 og inn var skotið því sem innan sviga er þar sem fjallað er um svæðið við höfnina.
H.M.A.