Rita

Rita (Rissa tridactyla)  er algengur sjófugl við Ísland. Ritan er einnig þekkt undir heitunum „Rissa“ „Sigga“ og „Skeggla“ hér á landi.  Erlend heiti eru:  Ride á dönsku, Krykkje á norsku, Kittiwake á ensku, Moutte tridactyle á frönsku og Dreizenhenmöwe á þýsku.  Líkur ritu er stormmáfur en þekkist á grænleitum fótum sem eru svartir á ritu. Evrópuvarpstofn ritu er 2,1-3 milljónir para.  Talið er að varpstofn ritu við Ísland sé ekki minni en 630.000 pör.  Verulegur hluti stofnsins virðist halda sig við Nýfundnalandsmið og líka austur um haf suður undir Marokkó.

Rannsóknir á ritu við austurströndina sýna að samdráttur hefur orðið í varpi milli athugana 1986-1999 og 2005, úr 80.000 hreiðrum niður í 20.000 hreiður.  Talið er að þessi fækkun hafi stafað af fæðuskorti.  Allstórt rituvarp hefur verið í Papey eða um 10.000 pör árið 1961 en um 2.400 pör árið 1996.

Egg ritunnar eru eitt til þrjú, oftast tvö sem er orpið í maí og fram í júní.  Í björgum er hreiðrinu valinn staður á smánibbum.  Hreiðurefnin eru blanda sjávar- og landgróðurs og uppistaðan er gras og mosi.  Rituvarpið í Hafnarhólmanum í Borgarfirði Eystri er dæmigert og einkennandi.  Það hefur minnkað á undanförnum árum og talið er að nú verpi þar um 100-200 pör.  Fyrir 10-15 árum voru um 500 hreiður í Hafnarhólmanum. Við austurströndina eru rituvörp nokkuð vel þekkt en eflaust verpa stök pör víðar. 

Stundum má sjá stóra hópa af ritu sækja í ferskvatn, í árósa og lón, þar sem þær baða sig og er það algeng sjón neðan við brúna yfir Fjarðarána á Borgarfirði.  Á varptímanum heyrist ægilegur kliður úr ritubjörgunum sem er einkennandi fyrir tegundina.

Eitthvað er veitt af ritum og egg eru tekin.  Samkvæmt veiðitölum Umhverfisstofnunar eru veiddar á bilinu 354 til 2.324 ritur árlega við Ísland og hafa rituveiðar farið minnkandi hin síðari ár. Ritur eiga það til að ræna aðra fugla ætinu líkt og kjóar, skúmar og fleiri fuglar gera.  Annars er fæða ritu ýmislegt sjávarfang.  Utan varptíma er ritan óháð landi. 

Ritur líkt og aðrir sjófuglar, einkum þeir smærri, eiga það til að hrekjast langt inn í landið í illviðrum.  Mögulega eiga þær það til að elta aðra sjófugla inn til landsins svo sem kríur,  hettumáfa og stormmáfa.  Ritur hafa sést langt utan við hefðbundið útbreiðslusvæði þ.e.a.s. inn til landsins og getur verið að sókn í ferskvatn valdi því.