Allir starfsmenn leikskóla skulu koma fram við börn af virðingu,
taka tillit til þeirra og hlusta á þau. Starfsmenn skulu leitast við að vera í
gefandi samskiptum við börn, samstarfsfólk og fjölskyldur barna ásamt því að
vera góð fyrirmynd í hvívetna. Starfsmönnum ber að vinna í anda aðalnámskrár og
tileinka sér þá sýn sem þar er sett fram í skólanámskrá hvers leikskóla.
Skipulag og búnaður leikskóla á að stuðla að því að vekja forvitni barna, efla
sjálfstæði þeirra og frumkvæði, virkni, áhuga og gleði.
Leikskólakennari á að vera leiðandi í mótun uppeldis- og
menntastarfsins, fylgjast með nýjungum og miðla þekkingu. Hann á að vera góð
fyrirmynd í starfi með börnum og leitast við að styrkja faglegt hlutverk
leikskólans. Litið er á leikskólakennara sem leiðandi samverkamann barna,
foreldra og annars starfsfólks leikskóla. Honum ber að sjá til þess að hvert
barn sé virt að verðleikum og að námsumhverfið sé skipulagt á þann veg að börn
fái að njóta sín.