Eiríkur Gunnþórsson keypti sér nýjan bát á dögunum. Hann keypti bátinn Sæberg SU-112 frá Fáskrúðsfirði og mun hann heita Björgvin NS-1. Eiríkur sigldi bátnum á Seyðisfjörð þar sem hann var botnhreinsaður og málaður. Hann kom svo á bátnum í höfnina núna á föstudaginn síðasta.
Eiríkur varð 79 ára á dögunum og er þetta sjötti báturinn sem hann gerir út á. Árið 1953 keypti hann sér sinn fyrsta bát, þá 13 ára gamall. Sá bátur hét Rán NS-32 og var smíðaður hér á Borgarfirði af Sigurði S. Sveinssyni. Eiríkur og Dagur Björnsson keyptu saman bát árið 1962 frá Reyðarfirði sem fékk nafnið Skjótanes NS-49. Eiríkur fékk svo Hörð Björnsson til að smíða fyrir sig nýjan bát árið 1971 og fékk sá bátur nafnið Björgvin NS-1. Árið 1990 keypti hann sér nýjan bát, Hafbjörgu NS-1. Svo minnkaði hann við sig árið 2005 og keypti sér minni Hafbjörgu sem hann hefur róið á undanfarin ár. Sá bátur er þó ekki farinn úr firðinum en athafnamaðurinn Helgi Hlynur Ásgrímsson keypti hann.
Óskum við Eiríki til hamingju með nýja bátinn.
Myndirnar tók Helga Björg Eiríksdóttir