Styrkþegar 2020
Íbúafundur í verkefninu Betri Borgarfjörður var haldinn síðastliðinn föstudag, 26. júní. Um þriðjungur íbúa kom á fundinn og hlýtur það að teljast mjög góð mæting, sérstaklega um hásumar. Verkefnisstjóri fór yfir stöðu verkefnisins sem hefur nú staðið yfir í tvö ár og íbúar fengu tækifæri til að endurskoða og bæta við markmiðum fyrir komandi ár. Ljóst er að mörg markmiða sem íbúar settu sér í upphafi verkefnisins árið 2018 hafa nú þegar náðst eða eru komin vel á veg. Þau eru til dæmis:
Bætt heilbrigðisþjónusta í heimabyggð
Borgfirðingar fögnuðu stórum áfanga haustið 2019 þegar á Borgarfjörð kom hjúkrunarfræðingur til starfa í 50% stöðu með aðsetur á staðnum. Hún hefur til umráða fjarlækningatæki sem er bylting í þjónustu við íbúa. Öryggið sem fylgir því að hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu heima fyrir ef á þarf að halda, í stað þess að þurfa að ferðast um langan veg, verður seint metið til fjár. Í apríl fékk svo vettvangsliðahópur sjúkrabíl til vörslu frá Slökkviliði Fjarðabyggðar svo viðbragðstími styttist til muna.
Verslun í heimabyggð
Búðin á Borgarfirði fagnar nú tveggja ára afmæli en áður en hún opnaði í júlí 2018 höfðu Borgfirðingar verið án matvöruverslunar í um eitt ár. Verslunin hefur gengið vel og eru rekstraraðilar hennar vaknir og sofnir við að tryggja íbúum og gestum Borgarfjarðar góða þjónustu og vöruúrval.
Samgöngur og fjarskipti
Stór skref hafa verið stigin í vegagerð og bættum fjarskiptum á síðustu tveimur árum og öryggi á Borgarfjarðarvegi því stórbatnað. Vegurinn um Njarðvíkurskriður og hluta Vatnsskarðs var klæddur haustið 2019 og lýkur því verki haustið 2020. Þá er forhönnun hafin á veginum frá Eiðum að Laufási en því verki var flýtt í átaki stjórnvalda vegna Covid-19 og eru verklok áætluð 2022. Lagður var ljósleiðari um sveitir Borgarfjarðar 2018 og til Njarðvíkur 2019. 2018 var vegurinn út í Höfn lagaður og útskotum bætt við. Þá er símasamband nú komið á á Vatnsskarði, Njarðvík og í Njarðvíkurskriðum.
Húsbyggingar
Sama dag og íbúafundurinn var haldinn var fyrsta skóflustunga tekin að tveimur nýjum parhúsum í þorpinu. Borgarfjarðarhreppur sótti um stofnframlag til Íbúðalánasjóðs (nú Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar) til byggingar almennra leiguíbúða vorið 2019 og fékkst sú úthlutun staðfest í október sama ár. Í húsunum verða tvær 3ja herbergja íbúðir og tvær 2ja herbergja íbúðir. Stór hluti íbúðarhúsnæðis á Borgarfirði er í dag nýtt sem sumarhús svo uppsöfnuð húsnæðisþörf er metin töluverð, sem sést á því að áhugi á húsnæði er nú þegar mikill.
Úr atvinnulífinu
Þrjú ný fyrirtæki hafa hafið starfsemi eða flutt starfsemi sína á Borgarfjörð á undanförnum tveimur árum:
Íslenskur dúnn ehf. sérhæfir sig í fullvinnslu á afurðum úr íslenskum æðardúni en eitt stærsta æðarvarp á Íslandi er á Sævarenda í Loðmundarfirði.
Fjarðarhjól ehf. var stofnað árið 2019 en þar er hægt að leigja fjallahjól og leiðsögn með reyndu leiðsögufólki um Borgarfjörð og nágrenni.
Borgfirskt athafnafólk keypti harðfiskverkunina Sporð hf. frá Eskifirði í vetur og framleiðir nú bitafisk úr ýsu og steinbít ofan í landann.
Að því sögðu þá eru enn ýmis verk að vinna og hafa Borgfirðingar áhyggjur af stöðu sjávarútvegs í byggðalaginu en almennur byggðakvóti hefur minnkað hratt milli ára og er á þessu ári einungis 26 þorskígildistonn.
Fundurinn sendir því frá sér eftirfarandi ályktun:
Ályktun um sjávarútvegsmál á Borgarfirði eystri
Íbúafundur, sem haldinn var föstudaginn 26. júní 2020 í verkefninu Betri Borgarfjörður (verkefni Brothættra byggða á Borgarfirði eystri) samþykkir einróma að beina því til sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnar að beita sér fyrir nauðsynlegum breytingum á lögum og regluverki um sjávarútveg með það fyrir augum að kerfin taki tillit til hagsmuna samfélagsins á Borgarfirði eystri en vinni ekki gegn hagsmunum þess.
- Borgarfjörður fái úthlutað úr sértækum aflaheimildum Byggðastofnunar.
- Strandveiðikerfi verði breytt þannig að tryggt verði að heimildir á austanverðu landinu nýtist á besta krókaveiðitíma í landshlutanum, þ.e. í júlí og ágúst.
- Lokað verði fyrir togveiðar stærri skipa í kálgörðum dagróðrabáta á Borgarfirði eystri.
Þá var formlega tilkynnt um styrkúthlutun ársins 2020 úr frumkvæðissjóði Brothættra byggða, sem úthlutað er úr árlega á meðan verkefnistíma stendur. Til úthlutunar að þessu sinni voru 14.400.000 kr. en sem hluti af aðgerðum vegna veirufaraldursins veitti Alþingi aukafjármagni til Brothættra byggða á þessu ári, samtals 100 m.kr. og þar af 60 m.kr. í frumkvæðissjóði byggðalaganna.
Samtals bárust 35 umsóknir og hlutu 15 verkefni brautargengi. Óskum við þeim til hamingju með styrkina og góðs gengis við framkvæmd verkefna.
Styrkþegi
|
Heiti verkefnis
|
Upphæð
|
Ár
|
Blábjörg Guesthouse
|
Þróun á náttúrubaði
|
1.050.000
|
2020
|
Blábjörg Guesthouse
|
Vöruþróun á handverksgini
|
950.000
|
2020
|
Trausti Hafsteinsson
|
Sumarbúðir á Borgafirði
|
350.000
|
2020
|
Fjarðarhjól ehf.
|
Hjólaparadísin Borgafjörður
|
300.000
|
2020
|
Ferðamálahópur Borgarfjarðar
|
Borgarfjörður fyrir þig 2020
|
500.000
|
2020
|
Borgarfjarðarhreppur
|
Samfélagsmiðstöðin Fjarðarborg
|
5.000.000
|
2020
|
Minjasafn Austurlands
|
Skráning muna á Lindarbakka
|
510.000
|
2020
|
Teikniþjónustan Jafnóðum
|
Nýlundabúðin
|
700.000
|
2020
|
Guðrún Benónýsdóttir og Andri Björgvinsson
|
Hafnarhús eystra – sýningaröð
|
700.000
|
2020
|
Aldís Fjóla Borgfjörð Ásgeirsdóttir
|
Lagasmíðar á Borgarfirði eystra
|
500.000
|
2020
|
Íslenskur dúnn ehf.
|
Þvottur æðardúns
|
750.000
|
2020
|
Jón Helgason
|
Bíla- og dekkjaviðgerðir
|
900.000
|
2020
|
Sporður hf.
|
Tækjakaup til harðfiskverkunar
|
1.000.000
|
2020
|
Christer Magnusson
|
Púttvöllur
|
190.000
|
2020
|
Ungmennafélag Borgarfjarðar
|
Ærslabelgur
|
1.000.000
|
2020
|