Háskólalestin!

Nanna að æfa sig í japönsku
Nanna að æfa sig í japönsku
Elstu nemendur skólans tóku þátt í Háskóla unga fólksins - Háskólalestinni, föstudaginn 15. maí. Við drifum okkur af stað fyrir allar aldir þann dag, hittum nemendur á Brúarási og fengum far með þeim í rútu til Vopnafjarðar. Á Vopnafirði höfðu nemendur val um fjölbreytt námskeið undir leiðsögn háskólakennara. Krakkarnir okkar sóttu námskeið í forritun, efnafræði, japönsku og vísindaheimspeki og voru sérdeilis ánægð með daginn enda var hann vel heppnaður í alla staði. Það er frábært fyrir okkar nemendur að hafa möguleika á að hitta fjöldann allan af krökkum á sama reki, efla tengslin við nágranna okkar, fá skemmtilega og spennandi fræðslu og takast á við áskoranir í stærra samfélagi.  Háskólalestin er sambærilegt verkefni og Háskóli unga fólksins nema hvað lestin fer í skóla á landsbyggðinni og er eins til tveggja daga fræðsla en Háskóli unga fólksins er staðbundinn í Reykjavík og stendur í fjóra daga. Bæði verkefnin eru starfrækt af Háskóla Íslands. Háskóli unga fólksins 2015 verður haldinn dagana 10.-13. júní í Reykjavík og er fyrir alla nemendur í 6. -10. bekk sem áhuga hafa. Skráning hefst fimmtudaginn 21. maí kl. 18.00 og fer eingöngu fram rafrænt á vefnum þeirra,  sjá ung.hi.is