Hausttónleikar í Loðmundarfirði

Hundur í óskilum í Loðmundarfirði
Hundur í óskilum í Loðmundarfirði
Þann 1. september munu Ferðamálahópurinn og Ferðafélag Fljótsdalshéraðs í sameiningu standa fyrir hinum árlegu hausttónleikum. Í ár koma þar fram snillingarnir í Hundi í óskilum, þeir Hjörleifur Hjartarson og Eiríkur G. Stephensen. Tónleikasýning þeirra, Saga þjóðar í leikstjórn Benedikts Erlingssonar hefur verið að gera allt vitlaust sunnan heiða að undanförnu og því tilvalið að færa sýninguna eins langt frá borginni og hægt er. Þeir munu eflaust taka hluta af þessari leiksýningu sinni í bland við annað efni.

Barnatónleikar verða um daginn, og síðar tónleikar sem taka mið af eldri áhorfendum. Aðgangur verður valfrjáls eins og áður og fleiri viðburðir verða einnig í Loðmundarfirði þennan dag. Gönguferðir og tilboð á gistingu fyrir gesti. Það er von okkar að sem flestir mæti í fjörðinn og geri sér glaðan dag, en það tekur ekki nema tæpar 2 klst að keyra í Loðmundarfjörð frá Egilsstöðum. Nánari dagskrá verður tilkynnt hér á síðunni þegar nær dregur. Það er hægt að lofa stórkostlegri skemmtun með þessum snillingum.

Hér má sjá umfjöllun Íslands í dag um sýninguna og Hund í óskilum

Jón Viðar Jónsson, sá harði gagnrýnandi ritaði eftirfarandi um sýningu þeirra:

(5 stjörnur af 5 mögulegum)


Í verkinu Saga þjóðar fer Hundur í óskilumí gegnum Íslandssöguna á hundavaði í tali og tónum. Þeir Hjörleifur Hjartarson og Eiríkur G. Stephensen munu hafa stofnað þessa tveggjamanna-grúppu á miðjum níunda áratugnum, að því er ég les í leikskrá, og hafa starfað saman síðan. Í leikskrá er þess sérstaklega getið að þeir hafi spilað á fjölmörgum árshátíðum banka og fjármálastofnana og þannig lagt sitt af mörkum til íslenska bankahrunsins. Maður getur vel trúað því eftir að hafa notið þessarar dagskrár, leikstýrðu tónleika eða hvaða nafni sem við viljum nefna það. Báðir eru þeir Eiríkur og Hjörleifur menntaðir tónlistarmenn og þrautþjálfaðir performerar – ég auglýsti einu sinni eftir góðri þýðingu á því orði en hef ekki fengið hana enn þá – einkum þó Hjörleifur sem er aðalsöngvari sveitarinnar. Það fór hvergi á milli mála að það voru sviðsvanir menn sem stigu þarna á stokk á föstudagskvöldið og lögðu salinn þegar í stað að fótum sér. Þar sem hann lá það sem eftir lifði kvölds.

Þetta er besta skemmtun sem í boði er á sviðum höfuðborgarinnar um þessar mundir. Og engin innantóm skemmtun, því get ég lofað ykkur, heldur skemmtun með biti. Það er að sönnu elskulegt og nett, en bit samt. Samfélagssatíra, sagnaskemmtun, gamanvísnadagskrá í nánast gömlum og góðum revíuanda, allt í einum pakka. Langt er síðan ég hef orðið vitni að öðru eins fýrverkeríi af fyndni og andríki og þeir félagar senda þarna í loft upp. Stemningin í salnum frá upphafi til enda eins og hún gerist best í félagsheimilum úti á landi þar sem Menningin býr – ef einhver skyldi halda annað. Það var sannarlega kominn tími til að þeir Eiríkur og Hjörleifur kæmu fram með þessum hætti, leyfðu fleiri en hinum vösku sonum þjóðarinnar á sviðum viðskipta og vafninga að njóta snilli sinnar, stigju út fyrir ramma árshátíða og útvarpsþátta í fullgildri leiksýningu – handa okkur öllum. Sem enginn má sem sagt missa af.

Sýningin var frumsýnd fyrir norðan í haust og hefur nú hreiðrað um sig á Litla sviði Borgarleikhússins. Bæði L.A. og L.R. eiga þökk skilið fyrir framtakið. Benedikt Erlingsson leikstýrir og þó að hér séu flytjendur í fyrirrúmi, efa ég ekki að þeim hafi verið mikill styrkur í leikstjórn hans. Sjálfur hefur Benedikt fengist við ekki ósvipuð verkefni áður í frægum sýningum sínum upp úr Gunnlaugs sögu og Eglu – nokkuð sem hann mætti gjarnan halda áfram með, svo því sé til haga haldið.