Jónas okkar Sigurðsson kampakátur með gjöfina frá Borgfirðingum
Það er nokkuð ljóst að Borgfirðingar eru Jónasi Sigurðssyni mjög þakklátir fyrir hans framlag til menningarlífs á staðnum
á árinu, en Jónas hélt um 20 tónleika og spilaði fyrir vel á fimmta þúsund manns og átti stóran þátt í
frábæru tónlistarsumri hér á staðnum.
Fyrir tilstuðlan sveitarfélagsins, var útbúið veglegt jólakort, eða réttara sagt jólagjöf handa Jónasi þar sem 96
Borgfirðingar rituðu nafn sitt undir kveðju og þakkarorð til hans og fjölskyldu. Jónas fékk kortið afhent nú skömmu fyrir jólin, en
það var Stella á Lindarbakka sem bankaði upp á hjá honum og afhenti honum gjöfina en hún er formaður Borgfirðingafélagsins í
Reykjavík. Gjöfin er hönnuð og útbúin af Bryndísi Snjólfsdóttur sem hefur komið sér upp glæsilegu handverksverkstæði
á gamla leikskólanum hérna á Borgarfirði.
Á fésbókarsíðu sinni í dag segir Jónas eftirfarandi...
Fékk ótrúlega fallega gjöf frá Borgfirðingum núna um jólin. Sendinefnd að austan færði
mér handsmíðaðan skjöld skreyttan hreindýraskinni og borgfirskum steinum. Inn í skildinum eru svo undirrituð nöfn 96 Borgfirðinga. Ég
verð að viðurkenna að þetta er einhver sú fallegasta gjöf sem ég hef fengið og ég ennþá með netta gæsahúð.
Magnað! Takk fyrir mig dásamlega fólk!
Stella og Jónas
Framhlið Jólakortsins en þar eru nótur viðlagsins í "Hamingjan er hér"