Stjórn Borgfirðingafélagsins fyrir utan einn meðlim
Félag Borgfirðinga eystra var með sinn árlega kaffidag þ. 17.nóvember. Þar sem langt var liðið frá síðasta
aðalfundi þótti það snjallræði að slá þessu tvennu saman.
Stjórnarmenn gáfu allir kost á sér til áframhaldandi setu nema Stella Sveins. Hún lét nú af langri setu í
stjórn félagsins, en þar hefur hún lagt hönd á plóg í 52 ár af þeim 64 árum sem félagið hefur verið
starfrækt. Geri aðrir betur. Félagið er eitt það elsta sem starfað hefur óslitið frá byrjun. Gunna frá Geitavík, formaður
félagsins færði henni að gjöf bók og blóm sem þakklætisvott fyrir vel unnin störf.
Stjórnina skipa þau Gunna Björns, Þórhildur Óla, Sigrún Skúla, Árni Áskels, systurnar Einfríður og Þorgerður
Árnadætur og í stað Stellu, Þorgeir Valur Ellertsson (ættaður frá Ósi). Það var svo ýmsu velt upp í umræðunni
s.s. hvort áframhald yrði á þorrablótshaldi hér syðra, þar sem Borgfirðingar eru nánast hættir að mæta, hvernig efla megi
starf félagsins og hvernig félagið geti stutt við einstök mál eystra. Ýmislegt fleira er í farvatninu og verður vonandi hægt að fylgjast
með á síðu félagsins á fésbókinni.
Frændsystkinin Árni Áskelsson og Hildur Evlalía Unnarsdóttir fluttu nokkur falleg lög meðan fundargestir nutu veitinganna sem voru hinar glæsilegustu.
Það var mikið skrafað og hlegið enda margir sem hittast bara við þetta tækifæri. Öll vorum við sammála um það, að
sárlega vantar yngra fólk á þessar samkomur og verður endilega að ráða bragarbót á því. Allar hugmyndir vel þegnar og
ekki galið ef einhver fær eina slíka að miðla henni inn til félagsins gegnum fésbók.
Myndir frá kaffideginum er að finna á síðu félagsins