Magga Braga og Kalli Sveins ásamt Halla og Auði frá Þróunarfélaginu
Karl Sveinsson, útgerðarmaður á Borgarfirði, fékk hvatningarverðlaun Þróunarfélags Austurlands þegar þau voru afhent fyrir
skemmstu. Karl hefur stundað útgerð á Borgarfirði í 35 ár en hann hefur einnig spreytt sig í öðrum atvinnugreinum, til dæmis
gæsarækt og kaffihúsarekstri.
„Vinnulag Karls einkennist ekki af asa eða átökum heldur er byggt upp hægt og bítandi af öryggi og festu og vandað til allra verka. Hagsýni og
hagkvæmni er í fyrirrúmi og rík ábyrgð gagnvart samfélaginu á Borgarfirði og viðskiptavinum fyrirtækisins er til sérstakrar
fyrirmyndar,“ segir í rökstuðningi fyrir valinu.
„Rekstur Karls á Borgarfirði hefur verið atvinnulífi og samfélagi þar mjög mikilvægur í gegnum árin og jafnframt öðrum
einstaklega góð fyrirmynd. Þó fer ekki á milli mála að skilyrði til reksturs hafa ekki alltaf verið góð þau ár sem Karl hefur
rekið fyrirtæki sitt, en aldrei hefur uppgjöf eða barlómur einkennt starf hans. Í mótbyr hefur seglum verið hagað eftir vindi og skútu Karls
miðar alltaf áfram hvernig sem vindar blása.“
Karl útskrifaðist sem fiskiðnaðarmaður frá Fiskvinnsluskólanum árið 1976. Þá hóf hann útgerð smábáta en
byrjaði einnig að rækta gæsir og byggði upp gæsasláturhús sem hann rakt samhliða útgerðinni til ársins 1986.
Þegar forsendur fyrir gæsaræktinni brustu hóf Karl fiskvinnslu og þjónustu við útgerðarmenn á Borgarfirði. Þar eru nú 15
manns í vinnu en voru 25 þegar mest var fyrir um áratug. Meginvinnslan er í 1500 fermetra iðnaðarhúsi en Karl á fjögur önnur
iðnaðarhús á staðnum og gerir út þrjá smábáta.
Fyrir tveimur árum keypti Karl lausafé og rekstur Álfasteins á staðnum og hóf rekstur kaffihúss. Þá á hann
iðnaðarhúsnæði í Fellabæ og keypti nýverið 600 fermetra iðnaðarhúsnæði á Raufarhöfn.
Tekið af austurglugginn.is. Gunnar Gunnarsson
Fréttasíðan óskar Kalla hjartanlega til hamingju og er hann vel að þessum verðlaunum kominn.