Ketillinn í Bræðslunni

Bræðslan í fullum gangi
Bræðslan í fullum gangi
Borgarfjarðarvefnum barst skemmtilegt bréf frá Guðlaugi Ingasyni sem var áður fyrr verksmiðjustjóri í Sildarverksmiðju Borgarfjarðar. Þar segir hann söguna á bakvið ketilinn sem nú stendur við hlið Bræðslunnar. Einnig sendi hann okkur gamlar myndir sem gaman er að skoða frá þessum árum. Hér birtum við bréf Guðlaugs eins og það barst okkur.


Heilir og sælir Borgfirðingar.

Ég heiti Guðlaugur Ingason og var verksmiðjustjóri við síldarverksmiðju Borgarfjarðar (Bræðsluna, sem nú er orðin „tónlistarhöll“ þó hrörleg sé) og dvaldi þar hluta úr árunum 1963 – 1967.   Ég vann m.a. við uppbyggingu verksmiðjunnar og voru þetta nokkrir umsvifa tímar í sögu byggðarlagsins. Við hjónakornin komum oft austur á land og reynum þá að skreppa niður á Borgarfjörð, höfum enda miklar taugar til staðarins eftir dvölina þar, þó svo þeim fari nú fækkandi sem við þekkjum. Svo var það í fyrra að ég held (eða árið áður) að  ég sé mér til mikillar ánægju að búið er að reisa upp gamla gufuketilinn úr „Bræðslunni“ og koma honum fyrir á plani, sem áður voru á þróartanktar fyrir síld.  Ketillinn  hafði áður legið niðri í fjöru og er nú nokkur illa farinn enda hafa möl og ryð unnið sitt verk vel. Og kem ég nú að ástæðu fyrir bréfakorni þessu.

Þessi  gamli gufuketill  á sér reyndar nokkuð sérstaka sögu. Heimildarmaður minn hét Ármann Sigurðsson, fyrrum starfsmaður Vélsmiðjunnar Héðins,  en hann er látinn fyrir allmörgum árum. Ármann hafði umsjón með byggingu verksmiðjunnar á Borgarfirði.  Í frásögnina vantar ártöl en þau man ég ekki og er þá betra að sleppa þeim en giska rangt á,  enda skipta þau ekki öllu máli.Þessi tegund katla eru nokkuð sérstök að byggingu, þeir standa upp á endann og voru oft nefndir  „Donkey-katlar“ en venjulegir gufukatlar eru lágréttir.  Eldhólfið er nokkur veginn hálfkúla og reykrörin óvanalega stutt.

Fyrst er vitað um ketil þennan á plantekru í Suður-Ameríku.  Þar hefur hann framleitt gufu og drifið vélar við sykurframleiðslu.  Það  næsta sem vitað er um ketilinn er að hann er kominn um borð í seglskip og drífur þá vindur skipsins.  Skip þetta bar beinin hér við land, hefur líklega strandað,  og hefur katlinum þá verið  bjargað. 

Næst er vitað um ketilinn á Kirkjusandi í Reykjavík,  þar sem hann framleiðir gufu fyrir vélar við fiskþurrkun í nokkur ár. Eftir það liggur hann í reyðuleysi í um nokkurn tíma,  en þá tekur Vélsmiðjan Héðinn hann til handargagns, gerir hann upp,  stækkar eldhólfið,  setur í hann olíubrennara og selur hann til Síldarverksmiðju Borgarfjarðar. Þar er hann í notkun til ársins 1966, en þá er hann tekinn niður enda orðin of lítill því verksmiðjan hafði stækkað.

Mér þótti rétt að halda til haga sögu þessa gamla gufuketils,  sem nú stendur  á planinu við þann fræga stað „Bræðsluna“. Ekki býst ég við að fleiri en ég þekki söguna, sem nú er komin í ykkar hendur.  Það er nefnilega svo að það glatast oft margur fróðleikur er gamlir kveðja.

Með kveðju og gangi ykkur allt í haginn,

Guðlaugur Ingason   

Myndasafn frá Guðlaugi má sjá hérna