Kosið um sameiningu þann 26. október

Sveitarstjórnir Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar hafa samþykkt tillögu samstarfsnefndar um að íbúar fái tækifæri til að kjósa um tillögu um sameiningu sveitarfélaganna þann 26. október næstkomandi.

 

Kosningarnar fara fram í samræmi við lög um kosningar til sveitarstjórna. Kosið verður í hverju sveitarfélagi fyrir sig og ræður einfaldur meirihluti atkvæða niðurstöðunni. Til að sameining verði samþykkt þarf meirihluta atkvæða í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Verði tillagan ekki samþykkt í öllum sveitarfélögunum, er heimilt að sameina þau sveitarfélög þar sem íbúar samþykktu, að því gefnu í þeim búi að minnsta kosti 2/3 íbúanna og að 2/3 hluti sveitarfélaganna samþykki.

Samstarfsnefndinni er falið að sjá um kynningu tillögunnar og er undirbúningur þess hafinn. Gert er ráð fyrir að kynningarstarf hefjist í ágúst með almennri auglýsingu. Í september verði kynningarefni dreift á heimili í sveitarfélögunum og íbúafundir haldnir í annarri viku október. Kynningarefni er jafnframt aðgengilegt á vefnum svausturland.is

Þar er hægt að nálgast skýrslu samstarfsnefndar, fundargerðir og annað efni um sameiningarferlið. Á vefnum má líka finna algengar spurningar og svör við þeim, auk þess eru íbúar hvattir til að senda fyrirspurnir í gegnum vefinn.

Samstarfsnefnd hvetur íbúa til að kynna sér málið vel og mæta á kjörstað 26. október.