Hjartasteinn
Tökur á kvikmyndinni Hjartastein hófust á Borgarfirði um miðjan mánuðinn
og er áætlað að seinasti tökudagur verði í október. Anton Máni
Svansson, aðalframleiðandi myndarinnar hjá framleiðslufyrirtækinu Join
Motion Pictures, segir tökur ganga glimrandi vel. Tökur hófust
12. ágúst og við stefnum á að ljúka þeim 8. október. Það er æðislegt
veður hérna í dag og erum við því að taka opnunarsenuna á myndinni núna.
Við höfum fengið aðstoð heimamanna við að koma bátum fyrir hérna á
gömlu bryggjunni sem hefur nú ekki verið notuð fyrir báta í nokkurn
tíma, segir Anton í samtali við Austurfrétt í gær. Það er heppilegt að
fá núna allavegana einn alvöru sumardag en miðað við veðurspánna þá
virðist þetta vera eina tækifærið sem við höfum til að taka þetta atriði
upp.
Kvikmyndin Hjartasteinn er svokölluð þroskasaga og er
lauslega byggð á æskuminningum leikstjórans Guðmundar Arnar
Guðmundssonar, en hann ólst upp á Þórshöfn. Þetta er þroskasaga sem
fjallar um sterka vináttu tveggja stráka, 13 og 14 ára, sem eru að taka
sín fyrstu skref inní unglingsárin og uppgötva ástina. Þetta er svona
vináttusaga í anda kvikmyndanna Stand by me eftir Rob Reiner og Fucking
Åmål eftir Lukas Moodysson, segir Anton.
Aðalleikarar
myndarinnar eru ungir og Anton segir þá hafa staðið sig virkilega vel.
Sumir þeirra hafa þó nokkra reynslu og aðrir nánast enga en allir eru
að standa sig eins og hetjur og eiga mikinn heiður skilinn. Þau tóku
þátt í heljarinnar æfingarferli sem hófst nokkrum mánuðum fyrir tökur og
það hefur skilað sér líka svona vel, því að þau eru að standa sig eins
og fagfólk hérna hjá okkur.
Rosalega heppin með Borgarfjörð eystri
Okkur
finnst við vera rosalega heppin með Borgarfjörð eystri. Þessi bær og
allt landsvæðið í kring er falinn gimsteinn í okkar augum og undarlegt
þykir manni að ekki hafi verið tekin upp bíómynd hérna áður en svo
virðist sem aðeins núna nýlega sé það mögulegt þar sem gistiplássum
hefur nú fjölgað. Það er mjög góður andi hérna og fólkið hefur verið
mjög hjálpsamt. Heimamenn hafa tekið þátt í verkefninu með okkur og lagt
hönd á plóg við ýmislegt, segir Anton.
Í byrjun sumars voru
haldnar áheyrnarprufur fyrir myndina á Egilsstöðum og Anton segist mjög
ánægður með aukaleikarana, sem koma flestir frá Seyðisfirði og
Egilsstöðum, auk heimamanna frá Borgarfirði.
Í sumar hafa
leikmyndahönnuðir verið á staðnum og unnið hörðum höndum að því að skapa
umhverfi myndarinnar. Það er t.d. búið að breyta gamla pósthúsinu í
niðurnídda sjoppu og að sögn Antons hefur fengist mjög skemmtilegt lúkk á
það. Þá er einnig búið að umbreyta nokkrum heimahúsum og taka þau sem
tökustaði.
Íbúafjöldinn á Borgarfirði hækkar töluvert á meðan að
tökur kvikmyndarinnar standa yfir. Þetta eru í kringum 30 manns sem
fylgja kvikmyndinni en fjöldinn fer aðeins upp og niður yfir tímabilið.
segir Anton. Tökur fara þó ekki eingöngu fram á Borgarfirði, heldur var
einnig einn tökudagur á Seyðisfirði og tveimur dögum var eytt í tökur
við Selárdalslaug í Vopnafirði.
Einhverjar senur í myndinni
krefjast þess að það sé snjór og vonast Anton eftir því að snjórinn láti
sjá sig áður en tökum lýkur í október. Þá verðum við mjög sátt með
veðrið, segir Anton að lokum.
Frétt tekin af austurfrett.is
Höfundur: Arnar Þór Ingólfsson