Hörn Halldórudóttir Heiðarsdóttir, starfsmaður Ferðafélagsins og Ferðamálahópsins í vinnugallanum í blíðunni í Húsavík síðasta sumar
Landvarðarverkefnið á Víknaslóðum sem hóf göngu sína í fyrra heldur áfram í sumar og til viðbótar verða Stórurð, Stapavík og gönguleiðin um Gönguskörð tekin inn í verkefnið. Þessi viðbót er tilkomin vegna samstarfs við sveitarfélagið Fljótsdalshérað og landeigendur að Stórurð.
Landverðirnir okkar verða þau Hörn og Bjarni og byrja þau um 22. júní og verða fram í ágúst mánuð og munu þau búa í Höfn á Borgarfirði líkt og síðasta sumar. Unnið verður að úrbótum samkvæmt úttektarskýrslu frá sumrinu 2018 og einnig gerð sambærileg úttekt á gönguleiðum í Stórurð.
Mikil vinna hefur átt sér stað í vetur við að afla fjármagns í þetta verkefni og nú er svo komið að starfið telst nær full fjármagnað.
Í sumar verður lögð áhersla á að lagfæra leið frá Borgarfirði til Breiðuvíkur um Brúnavík. Leiðin verður endurstikuð að mestu og stefnt að því að færa hana að hluta til að færa hana á land sem þolir meiri ágang og þar sem er ekki eins villugjarnt. Eins er komið að viðhaldi á mörgum öðrum stöðum og munu þau sinni þeirri vinnu í samvinnu við sveitarfélag, Ferðafélagið og Ferðamálahópinn.
Búið er að smíða stikur,brýr og prílur í vetur sem bíða þess að fara á sinn stað í náttúrunni.
Markmið verkefnisins er eins og áður að vinna að sjálfbærri uppbyggingu ferðamennsku á Víknaslóðum og nágrenni í sátt við náttúru og samfélag.
Meðlimir Ferðafélag Fljótsdalshéraðs og Ferðamálahóps Borgarfjarðar sem saman standa að þessu verkefni trúa því að landavarsla eins og var síðasta sumar og verður í sumar, sé komin til að vera.
Hægt er að lesa skýrsluna sem var unnin síðast liðið sumar um ástand gönguleiða á Víkum hérna.