Listamenn Bræðslunnar 2016

Tónlistarhátíðin Bræðslan fer fram hérna á Borgarfirði eystra laugardagskvöldið 23. júlí. Dagskrá hátíðarinnar liggur nú fyrir og segja má að hún sé alþjóðlegri en oft áður, en þrír erlendir listamenn koma fram þetta árið.  Frá Írlandi kemur Gavin James, ungt söngvaskáld sem meðal annars hefur hitað upp fyrir Sam Smith og Ed Sheeran, frá Kanada kemur David Celia, sem m.a. hefur spilað með Emiliönu Torrini á tónleikum hennar í Kanada á síðasta ári og þá mun hin danska Tina Dico koma fram í Bræðslunni ásamt Helga Jónssyni.

Þarna er þó aldeinis ekki allt upptalið því að auk áðurnefndra koma þau Soffía Björg, KK band, Amaba Dama og Nýdönsk fram á Bræðslunni þetta árið.

Hátíðin verður eftir sem áður haldin í góðu samstarfi við Rás 2 sem mun senda tónleikana út í beinni útsendingu.

Miðasala á Bræðsluna mun hefjast þriðjudaginn 15. mars kl. 10:00.  Mjög takmarkaður fjöldi miða er til sölu og síðastliðin ár hafa þeir selst upp á mjög skömmum tíma.

Allar nánari upplýsingar um hátíðina og um Borgarfjörð eystra er að finna á vefsíðunum braedslan.is og borgarfjordureystri.is.