Síðasti skóladagur ársins haldinn hátíðlegur.
Fimmtudaginn 19. desember var mikið um að vera í Grunnskóla Borgarfjarðar. Dagurinn var tekinn snemma en klukkan 8:00 komum við öll saman í
miðrýminu okkar, skiptumst á pökkum og áttum saman notalega stund við kertaljós og huggulegheit. Um klukkan 11:00 var svo farið í að skreyta
fyrir Litlu jólin en að því loknu var hátíðarmatur þar sem boðið var upp á yndælis hangikét. Eftir matinn var generalprufa
á leikritinu "Ein ómerkileg setning" og að henni lokinni fórum við öll heim og gerðum okkur klár fyrir hátíðina.
Hátíðin byrjaði svo klukkan 18.00 með því að börnin sýndu okkur leikritið "Ein ómerkileg setning" og er óhætt að
segja að þau hafi farið á kostum á sviðinu bæði í leik og söng. Að lokum var svo alvöru jólaball þar sem gamlir og ungir
skemmtu sér með jólasveinunum og dönsuðu í kringum fagurskreytt jólatréið. Þar fyrir ofan buðu foreldrar upp á hlaðborð af
girnilegum kökum þannig að enginn fór svangur heim. Þess má geta að rúmlega 80 manns mættu á Litlu jólin hjá okkur sem segir
okkur að það hafi ekki margir Borgfirðingar setið heima þetta kvöldið. Við í Grunnskóla Borgarfjarðar þökkum innilega fyrir okkur
og óskum ykkur öllum gleði og friðar. Hér fyrir neðan má sjá myndir frá þessum skemmtilega degi.