Samkaup hætt verslunarrekstri á Borgarfirði - Verslunin seld

Verslunarhúsnæðið á eyrinni
Verslunarhúsnæðið á eyrinni
Það voru heldur betur breytingar hérna um helgina þegar Samkaup seldi verslun sína og hætti þar með verslunarrekstri á Borgarfirði. Það voru hjónin Arngrímur Viðar Ásgeirsson og Þórey Sigurðardóttir sem keyptu búðina og opnuðu hana nú í dag.
„Við fengum ekki mjög langan umhugsunarfrest. Það var bara hringt í okkur frá Samkaupum og við spurð hvort við hefðum áhuga á að taka við þessu þar sem það átti að fara að loka búðinni. Í raun var Þetta eiginlega þannig að ef við ætluðum að taka þetta þá yrðum við að taka þetta strax. Þetta gerðist bara á nokkrum dögum og var ákveðið núna á föstudaginn,“ segir Þórey í samtali við Austurfrétt.

Eiga íbúar von á einhverjum breytingum? „Við erum eiginlega ekki komin svo langt. Það verða kannski einhverjar breytingar á opnunartíma og einhverjar breytingar á vöruúrvali en það kemur allt í ljós. Annars erum við bara spennt fyrir þessu nýja verkefni og þetta leggst bara ágætlega í okkur. Við finnum líka fyrir jákvæðni frá bæjarbúum sem er alltaf gott veganesti.“

En er búðin búin að fá nafn? „Nei nei“, segir Þórey og skellihlær. Við vorum bara að taka við. Við skötuhjúin mættum í búðina núna í morgun og erum bara að átta okkur á hlutunum.“ segir nýi verslunareigandinn brosandi að lokum.

(Stolið og stílfært af austurfrett.is)

Fréttavefurinn óskar Vidda og Þóreyju til hamingju með reksturinn og vonum að Borgfirðingar komi til að halda tryggð við verslunina og reyni eftir fremstu getu að versla í heimabyggð, því án verslunar eru við í frekar vondum málum.