Sjaldséður fugl í firðinum

Svanurinn á Fjarðaránni í morgunn
Svanurinn á Fjarðaránni í morgunn
Nú í morgunn sást einstaklega fallegur og sjaldséður fugl niður við Fjarðaránna, rétt hjá brúnni en það var þessi fallegi svarti svanur sem fréttamaður náði mynd af. Ég veit ekkert um fugla en þetta hlýtur að vera sjaldgæft.
Af vísindavefur.is


Svartur litur á svönum, sem og öðrum fuglum og spendýrum, stafar af litarefninu melanín í fjöðrunum. Alhvítir svanir eru án þessa litarefnis í fiðrinu.

Svanir teljast til andaættarinnar, en til andfugla teljast kringum 150 tegundir sem eru flestar dökkar yfirlitum. Alls eru þekktar 6 tegundir núlifandi svana, 4 þeirra á Norðurhveli og 2 á Suðurhveli. Allar eru þær gráleitar á fyrsta ári en liturinn skerpist eftir það. Norðlægu tegundirnar fjórar verða allar alhvítar á fiður eftir að eins árs aldri er náð. Í sunnanverðri Suður-Ameríku er svanstegund sem er svört um höfuð og háls en hvít að öðru leyti. Í Ástralíu er svanstegund sem er svört að lit á hausi, háls og bol, en vængirnir eru þó hvítir. Engir svanir eru alsvartir.

Hægt er að hugsa sér að allar svanategundir séu komnar af hvítum svönum og einnig að grár litur unganna gefi vísbendingu um fyrri forvera. Hvíti liturinn á norðlægum svönum gæti verið notaður sem felulitur á veturna en tæplega á öðrum árstímum. Á sumrin er sennilega engin sérstök ástæða fyrir svani að líkjast bakgrunninum og þess vegna er hægt að vera litlaus (hvítur) og spara þannig þá orku sem ella færi í að framleiða felulit. Jafnframt nýtist hvíti liturinn til þess að gera svaninn áberandi og ef til vill ógnvekjandi í augum keppinauta og rándýra.

Sennilega eru bæði svarthálsasvanurinn í Suðurameríku og svartsvanurinn í Ástralíu komnir af hvítum svanategundum. Þessar tvær tegundir halda sig að mestu á stöðum þar sem ekki er ís eða snjór og græða því ekkert á að nota hvítt sem felulit. Svarti liturinn myndar þá andstæðu við hvítt og gæti nýst til þess að gera fuglinn enn meira áberandi í ýmsu auglýsingaratferli, hvort sem það beinist að mökum, keppinautum eða rándýrum. Fremur auðvelt virðist vera að kanna, bæði með beinum samanburði og tilraunum, gildi svarta og svarthvíta fiðursins fyrir svani, en það hefur mér vitanlega ekki verið gert.