Hreppsnefnd Borgarfjarðarhrepps samþykkti bókun á fundi sínum í fyrradag
um að fella niður gjöld á foreldra fyrir þjónustu skóla í
sveitarfélaginu á næsta skólaári.
Um er að ræða niðurfellingu
leikskólagjalda, tónskólagjalda og gjalda fyrir skólamáltíðir. En
tónskóli, leikskóli og grunnskóli eru rekin undir einum hatti á
Borgarfirði. Eftir því sem næst verður komist er Borgarfjarðarhreppur
fyrsta sveitarfélagið á Íslandi til að gera alla skólaþjónustu
gjaldfrjálsa fyrir foreldra. Einhver sveitarfélög bjóða þó upp á
gjaldfrjálsan leikskóla.
Rétt er að taka fram að þjónusta
skólamötuneytis á Borgarfirði hefur ekki verið starfrækt alla daga
vikunnar heldur hefur verið boðið uppá heita máltíð þrisvar í viku.
Þjónusta mötuneytisins mun ekki breytast heldur einungis verða foreldrum
barna á báðum skólastigum gjaldfrjáls.
Nemendum við Grunnskóla
Borgarfjarðar hefur fækkað mikið undanfarin ár og segir Jón Þórðarson,
sveitarstjóri, að hugmyndin um niðurfellingu gjalda á foreldra sé liður í
því að gera sveitarfélagið að vænlegri búsetukosti. Það er röksemdin á
bakvið þetta, við viljum laða hingað fólk segir Jón en leggur áherslu á
að gjöldin séu felld niður í eitt ár til reynslu.
Leikskólagjöld
dekka auðvitað ekki nema brot af rekstrarkostnaði leikskóla almennt
séð, ef þú ert að reka leikskóla fyrir 7 miljónir á ári þá munar kannski
ekki miklu í stóru myndinni um skólagjöld uppá hálfa miljón.
Máltíðirnar eru meiri nýbreytni og við sjáum til hvernig það gengur,
segir Jón að lokum.
(frétt tekin af austurfrett.is - texti: Ásta Hlín Magnúsdóttir)