Í dag var góður dagur í skólanum, við hittum biskupinn og fórum á tónleika í Hörpu. Já nú haldið þið að við séum í Reykjavík, en nei, nei það er nú ekki svo. Við uppgötvuðum það nefninlega í dag að bæði er biskupinn hreyfanlegur og eins getum við farið á tónleika í Hörpu án þess að fara úr firðinum. Sinfóníuhljómsveit Íslands bauð okkur á tónleika í Hörpu í gegnum netið. Á dagskránni voru tvö glæsileg verk sem ekki hafa verið flutt af Sinfóníuhljómsveit Íslands áður.
Skrímslið litla systir mín, saga Helgu Arnalds, heyrðist nú í fyrsta sinn í sinfónískum búningi með tónlist Eivarar Pálsdóttur. Eivør og Halldóra Geirharðsdóttir ásamt Graduale Futuri flutti söguna í tali og tónum í útsetningu Trónds Bogasonar við myndefni Bjarkar Bjarkadóttur. Á þessum sannkölluðu ævintýratónleikum mátti heyra söguna af Bjarti sem eignast litla skrímsla-systur sem étur mömmu og pabba. Hann ferðast alla leið út á heimsenda til að reyna að skila systur sinni og fá mömmu og pabba til baka.
Á tónleikunum heyrðum við einnig söguna um Gullbrá og birnina þrjá í flutningi Sinfóníuhljómsveitinnar með skemmtilegum teikningum Helgu Arnalds sem var varpað upp á tónleikunum þannig að hlustendur gátu hvílt í áhrifaríkum ævintýraheimi um leið og þeir nutu tónlistarinnar.
Biskup Íslands sr. Agnes M Sigurðardóttir kom síðan í heimsókn til okkar á miðjum tónleikum, ásamt fríðu föruneyti. Hún var í heimsókn hérna á Borgarfirði og ákvað að kíkja við í skólann til okkar. Hún gekk með okkur um skólann, skoðaði hann og spjallaði við krakkana.
Hér má sjá myndir.